Rannsóknarsetur að Kvískerjum

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 18:43:32 (1446)

2002-11-13 18:43:32# 128. lþ. 29.21 fundur 199. mál: #A rannsóknarsetur að Kvískerjum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[18:43]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé um mjög eðlilega fyrirspurn að ræða af því að mál hafa skipast með öðrum hætti en fyrir var séð. Hér er í fyrsta lagi spurt hverjar séu ástæður þess að fallið hefur verið frá því að koma á fót fræða- og rannsóknarsetri að Kvískerjum í Öræfasveit, eins og stjórnskipuð nefnd um málið lagði til, og þess í stað stofnaður sjóður í nafni Kvískerja.

Því er til að svara að frá því að hugmyndir komu fram um rannsóknarsetur að Kvískerjum, sem reist yrði í sameiningu af ríkinu og sveitarfélögum á svæðinu, hafa aðstæður breyst verulega heima í héraði, m.a. varðandi jöklasafn á Hornafirði þar sem ákveðið var að reisa Nýheima en þar eru til húsa framhaldsskóli, bókasafn og setur Háskóla Íslands. Þessi atriði höfðu þau áhrif á sveitarfélagið Hornafjörð að það taldi ekki lengur vera forsendur fyrir því að taka þátt í byggingarkostnaði við rannsóknarstöðina að Kvískerjum eins og upphaflega var gert ráð fyrir.

Ég vil líka tína hérna til varðandi hugmyndir um rannsóknarstöðina að þar átti að vera gistirými fyrir 15 manns, bæði fræðimenn og nemendur. Það eru hins vegar fjölmargir möguleikar á bændagistingu á svæðinu þannig að það var heldur ekki talið mjög eðlilegt að ríkið byggði upp gistiaðstöðu í samkeppni við heimamenn.

Með hliðsjón af þessari þróun mála þykir bæði stjórnvöldum og ábúendum á Kvískerjum fjármagninu betur varið í rannsóknarsjóði en að byggja stöð. Þannig væri hægt að stuðla með markvissari hætti að náttúrufarsrannsóknum á svæðinu þar sem vísindamenn og ýmsir aðilar gætu sótt um fé til rannsókna í þennan sjóð. Þessar hugmyndir komu m.a. fram í starfi nefndar sem fjallaði um stofnun rannsóknarstöðvar á Kvískerjum á sl. ári. Ég fór austur 26. september sl. ásamt hæstv. utanrrh. Halldóri Ásgrímssyni vegna þessarar hugmyndar og ræddi þar við Sigurð, Hálfdán og Helga Björnssyni, ábúendur, og Gísla S. Jónsson og Laufeyju Helgadóttur, nýja ábúendur þarna líka, og það er alveg ljóst að þau eru hlynntari stofnun rannsóknarsjóðs.

Í öðru lagi er spurt hvert stofnfé sjóðsins verði og hvaða markmið sé með stofnun hans.

Því er til að svara að það hefur ekki enn verið ákveðið hvert stofnfé sjóðsins verður en ég hef í hyggju að gera tillögu um að fjármagnið sem veitt hefur verið til verkefnisins á fjárlögum undanfarin ár, 24 millj. kr., verði hluti af stofnfé sjóðsins. Markmið sjóðsins verður að stuðla að og styrkja náttúrurannsóknir í Austur-Skaftafellssýslu og markmiðunum skal ná með veitingu styrkja til stofnana, félaga og einstaklinga til rannsókna á náttúrufari á svæðinu.

Í þriðja lagi er spurt hvernig stjórnun sjóðsins verði háttað og fyrirkomulagi úthlutana.

Því er til að svara að Kvískerjasjóði verður sett skipulagsskrá í samræmi við lög nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir, og mun því starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og stjórnarskipun í samræmi við ákvæði laganna. Það er reiknað með því að skipuð verði þriggja manna stjórn sem hafi með höndum umsjón með sjóðnum og auglýsi eftir umsóknum um styrki, fari yfir umsóknir og veiti styrki í samræmi við markmið sjóðsins.

Staðan í málinu er í augnablikinu sú að við höfum sent drög að stofnsamþykktum til skoðunar til ábúenda og þeir eru núna að fara yfir þau drög. Mál hafa vissulega skipast nokkuð með öðrum hætti en ráð var fyrir gert í upphafi en það er í fullri sátt við heimamenn. Við fórum ítarlega yfir þetta með þeim þarna í september og að mínu mati er æskilegt að við göngum frá þessu máli sem fyrst þannig að sjóðurinn geti tekið til starfa og úthlutað fé til rannsókna á þessu svæði. Það er auðvitað alveg ómetanlegt starf sem bræðurnir á Kvískerjum hafa unnið við náttúrufarsrannsóknir á svæðinu á síðustu áratugum og alveg ljóst að rannsóknarsjóður yrði mikil lyftistöng gagnvart því að viðhalda þessum rannsóknum til framtíðar.