Viðbótarlán Íbúðalánasjóðs

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 15:28:20 (1531)

2002-11-18 15:28:20# 128. lþ. 31.1 fundur 245#B viðbótarlán Íbúðalánasjóðs# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[15:28]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er rangt hjá hæstv. fjmrh. að húsnæðiskerfið sem sett var á laggirnar hér árið 1999 hafi reynst vel. Svo hefur ekki verið og það þekkja þeir sem hafa staðið í íbúðakaupum núna síðustu missirin og árin og það þekkja þeir sem reisa og reka félagslegt leiguhúsnæði. Þar hefur ekki einu sinni verið staðið við skuldbindingar, yfirlýsingar og loforð af hálfu ríkisstjórnarinnar um annað tveggja, lægri vexti eða stofnstyrki til þessara aðila. Allt þetta hefur verið svikið þannig að kerfið hefur ekki reynst vel.

Spurningin er þessi: Ætlar hæstv. fjmrh. að beita sér fyrir því að gengið verði frá því í fjáraukalögum að Íbúðalánasjóður fái þær lánsfjárheimildir sem á skortir til að hægt sé að standa við fyrirheit sem fólki hafa þegar verið gefin?