Vísinda- og tækniráð

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 16:06:08 (1543)

2002-11-18 16:06:08# 128. lþ. 31.13 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv., 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[16:06]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þau loforð sem hér voru gefin um að nefndarfólk allt fái minnisblöð vegna ferðarinnar.

En það er athyglisvert sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að vegna þess hversu fjárveitingar eru naumt skammtaðar til þeirrar stofnunar sem um þessi mál fjallar, þá er ekki hægt að verða við því að senda fulltrúa frá nefndunum í jafnmikilvægar ferðir og þarna var farin.

Nauðsynlegt er í þessu samhengi að spyrja hæstv. ráðherra af því að hann tiltók sérstaklega að Finnar hefðu náð athyglisverðum árangri á þessu sviði, sem er hárrétt og eftir hefur verið tekið, hvort það hafi ekki einnig komið fram að býsna mikill munur er á milli þessara landa á þeim fjárveitingum, á því fjármagni sem fer til þessara þátta. Því spyr ég hvort hæstv. ráðherra menntamála eða aðrir ráðherrar sem taka þátt í umræðunni séu reiðubúnir til þess að gefa yfirlýsingu um það á þessu stigi að einnig verði horft til fyrirmyndar Finna í þeim efnum, þ.e. að við megum vænta þess að á næstu árum verði stóraukið fjármagn látið renna til þessa sviðs.