Staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 14:07:55 (1584)

2002-11-19 14:07:55# 128. lþ. 32.7 fundur 371. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# (viðurlög, skilaskylda) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[14:07]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með síðari breytingum. Frv. er að finna á þskj. 417.

Í frv. þessu eru lagðar til nokkrar breytingar sem lúta annars vegar að skattframkvæmdinni en hins vegar að útreikningi dráttarvaxta. Hér er fyrst og fremst um tæknilegar breytingar að ræða, herra forseti.

Í 1. gr. frv. er lagt til að þeim aðilum sem undanþegnir eru tekjuskatti skv. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og hafa haft vaxtatekjur vegna eigin innheimtu beri að skila staðgreiðslunni að tekjuári loknu á gjalddaga skv. 7. gr. laga um skatt af fjármagnstekjum, þ.e. 15. janúar ár hvert. Með þessari breytingu verða skilin þau hin sömu hjá öllum aðilum, þ.e. 15. janúar á hverju ári.

Í 2. gr. frv. er lagt til að ríkinu og stofnunum þess beri að halda eftir staðgreiðsluskatti af vöxtum sem greiddir eru. Komið hefur í ljós að nokkur vanhöld eru á því að staðgreiðsluskattur þessara aðila hafi skilað sér til ríkissjóðs frá viðtakendum vaxtanna og er eðlilegt að sama kvöð verði lögð á ríkið og stofnanir þess og aðra sem skila ber þessum skatti.

Í 3. gr. frv. er lagt til að tekjur skv. 5. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, verði staðgreiðsluskyldar. Er hér um að ræða greiðslur samvinnufélaga og kaupfélaga til félagsaðila af viðskiptum þeirra við félögin sem annaðhvort eru lagðar við stofnsjóð þeirra eða greiddar út til þeirra.

Að lokum er í 4. gr. frv. lögð til breyting til samræmis við breytingu sem lögð er til í frv. til laga um breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Lýtur sú breyting að því að dráttarvextir af staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur verði reiknaðir sem dagvextir í stað mánaðarvaxta samkvæmt gildandi lögum. Er lagt til að upphafstími vaxtanna verði frá gjalddaga hafi ekki verið greitt á fyrsta degi næsta mánaðar eftir eindaga.

Ég legg til, herra forseti, að þessu frv. verði að umræðunni lokinni vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.