Lífeyrissjóður sjómanna

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 14:29:50 (1593)

2002-11-19 14:29:50# 128. lþ. 32.9 fundur 355. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (elli- og makalífeyrir) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[14:29]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra rekur hér dómsmál um þetta álitamál. Ég ætla ekki að bera brigður á lagalegar túlkanir hans. Það sem ég er kannski öllu fremur að ræða er siðferðileg ábyrgð samfélagsins, bæði í ljósi yfirlýsinga, skuldbindinga og þess samhengis sem ég vísaði til frá árinu 1981 en ekki síður vegna hins, að samfélaginu ber að horfa af ábyrgð til þeirrar staðreyndar að Lífeyrissjóður sjómanna er í ríkari mæli en allir aðrir lífeyrissjóðir í landinu stuðningssjóður vegna slysa og örorku.

Örorka af völdum slysa er tíðari í sjómannastétt en innan annarra starfsgreina í landinu. Það mætti hugsa sér að fara aðra leið, t.d. þá leið sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur lagt til, að iðgjöld til sjóðsins af hálfu atvinnurekenda yrðu hækkuð. Það væri ein leið sem mætti fara en mér finnst vel koma til greina að ríkissjóður, í ljósi forsögunnar og í ljósi eðlis þessa sjóðs komi inn með fjárhagsstuðning.

Við höfum hins vegar fengið afdráttarlausa afstöðu hæstv. fjmrh. Það er gott þegar menn koma hreint til dyranna en ég tel engu að síður að þessi mál þurfi að fá nánari skoðun til að sanngirnin nái fram að ganga. Mér finnst það ekki gert með þessum hætti.