Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 15:31:20 (1600)

2002-11-19 15:31:20# 128. lþ. 32.11 fundur 359. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[15:31]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um þetta frv. þótt tilefnið sé ærið, því eins og hér kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þá fylgja með þessu frv. skýrslur Fjármálaeftirlitsins og jafnframt álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila.

Ég vil taka undir það sjónarmið sem fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að mér finnst eðlilegt að eftirlitsskyldir aðilar standi straum af kostnaði við Fjármálaeftirlitið. Við höfum fengið að kynnast því í efh.- og viðskn. á undangengnum árum að þessir aðilar telja of í lagt og hafa gagnrýnt hversu há þessi gjöld eru.

Samkvæmt frv. eru álagningarhlutföll hækkuð en lágmarksgjöldin eru óbreytt. Áætlað er að álagt eftirlitsgjald hækki úr 211,7 millj. kr. árið 2002 í 259,7 millj. kr. árið 2003, eða um rúm 22%. Síðan hefur komið fram skýring á þessu. Enda þótt rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins hækki einvörðungu um 2% þá er skýringin á þessum 22% sú að inni er upphæð, 47,9 millj. frá fyrra ári sem eru yfirfærðar. Þar er komin skýringin á þessari miklu hækkun.

Það skýtur skökku við að þessir aðilar sem hafa margir hverjir dásamað þjónustugjöld og að sérhver starfsemi eigi að standa undir sjálfri sér með sértekjum, skuli bera sig jafnaumlega og raun ber vitni þegar kemur að þeim sjálfum og þeim er ætlað að inna slík þjónustugjöld af hendi. Hins vegar er að sjálfsögðu eðlilegt að þeir veiti Fjármálaeftirlitinu strangt aðhald og að Fjármálaeftirlitið hafi ekki sjálfsskömmtun um eigin kjör og starfsskilyrði.

Það eru einmitt kjörin sem þeir hjá samráðsnefnd hafa verið að gagnrýna, sumt maklega en sumt þykir mér ekki vera eins sanngjarnt. Þeir benda á að stjórnarlaun til þeirra sem sitja í stjórn Fjármálaeftirlitsins hafi hækkað óhóflega. Þessi gagnrýni hefur reyndar komið fram áður. En hér segir, með leyfi forseta:

,,7. Samráðsnefnd gagnrýndi á síðasta ári há stjórnarlaun sem greidd eru til stjórnar FME, en þau hækkuðu um 20% frá samþykktri áætlun fyrir 2001 (4,8 millj. kr.) til ársins 2002 (6,1 millj. kr.). Taldi samráðsnefndin brýnt að lækka þennan kostnað verulega. Þvert á ábendingar samráðsnefndar stefnir í að heildargreiðslur til stjórnar fyrir árið 2002 hækki frá samþykktri áætlun og verði 6,2 millj. kr. Í drögum að rekstraráætlun fyrir 2003 er síðan gert ráð fyrir að hækka þessar greiðslur í 6,4 millj. kr.``

Nú er að sjálfsögðu eðlilegt að menn sem sitja í stjórn Fjármálaeftirlitsins fái greitt fyrir vinnu sína. Það er eðlilegt. Hins vegar þarf að gæta að því að þessi stjórnarlaun verði ekki óeðlilega há. Staðreyndin er sú að þeir sem sitja í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera fá greidd mjög lág laun. Það er hin almenna regla. Þegar hins vegar kemur að stofnunum sem snerta fjármálin eða fjármálasviðið þá gegnir öðru máli. Við þekkjum hverjar greiðslurnar eru þegar kemur að svokallaðri sérfræðiaðstoð, þegar nefndir og ráð leita út fyrir sín vébönd til svokallaðra sérfræðinga úti í bæ. Þá eru taxtarnir himinháir. Mönnum er eflaust í fersku minni hvernig þeir höguðu þessum málum hjá einkavæðingarnefnd. Þá töldu þeir sig þurfa að leita til sérfræðinga utan nefndarinnar og það undarlega var að yfirleitt hétu þeir sömu nöfnum. Þannig leitaði Jón Sveinsson til Jóns Sveinssonar og Hreinn Loftsson leitaði til sérfræðingsins Hreins Loftssonar og þá voru menn komnir á allt önnur kjör.

Auðvitað á að vera eftirlit með nefndagreiðslum af þessu tagi og koma í veg fyrir að menn fái þar einhverja sjálftöku inni í sjóði. Það er eðlilegt að eftirlitsskyldir aðilar skuli vilja veita þarna aðhald. Þarna þarf að sýna sanngirni. Það þarf að sjá til þess að menn fái greitt eðlilega fyrir sína vinnu, en ekki um of.

Hins vegar er hér einnig að finna undarlega gagnrýni þykir mér. Samráðsnefndin gagnrýnir t.d. kostnað við endur- og símenntun starfsfólks. Hér segir reyndar að hann sé illa skilgreindur þessi kostnaður. En það er gagnrýni af þessu tagi sem manni finnst eiginlega vera mjög undarlegur sparðatíningur. Ég verð nú fyrir mitt leyti að segja að ég tel mjög gott og eðlilegt að stuðlað sé að kröftugu endurmenntunarstarfi, einmitt ekki síst innan stofnunar eins og þessarar sem þarf að fylgjast rækilega með breytingum á þessum vettvangi.

Aðrar athugasemdir og kannski stærri í sniðum er að finna í athugasemdum samráðsnefndarinnar. Þetta er nokkuð sem við hljótum að fara rækilega yfir í efh.- og viðskn. þingsins þegar þar að kemur og sjálfsagt er að taka upp ábendingar þar sem koma fram í skýrslu Fjármálaeftirlitsins, eins og þær sem lúta að lífeyrissjóðunum t.d.

Það er rétt sem hér hefur verið bent á að lífeyrissjóðirnir eru orðnir drjúgur hluti af fjármálalífi þjóðarinnar og auðvitað eiga þeir að þurfa að standa skil gerða sinna gagnvart eftirlitsaðilum á borð við Fjármáleftirlitið. Lífeyrissjóðirnir búa hins vegar við strangt innra eftirlit og lúta aðhaldi frá aðstandendum sínum úr röðum atvinnurekenda og samtaka launafólks. Ég get sagt frá því hér í þessu samhengi að í síðustu viku var haldinn aðalfundur hjá BSRB. Þar komu fulltrúar lífeyrissjóðanna og gerðu ítarlega grein fyrir fjárfestingarstefnu og þeim reglum sem sjóðirnir hafa sett sér. Vitundin um mikilvægi þess að lífeyrissjóðirnir lúti ströngu aðhaldi er því að vakna og það er eðlilegt að Fjármálaeftirlitið setji fram gagnrýni sína ef því þykir ástæða til og við eigum að taka þá gagnrýni mjög alvarlvega.

Ég tek undir það sem hér var sagt að við í efh.- og viðskn. þingsins hljótum að kalla eftir skýringum frá hlutaðeigandi aðilum, bæði Fjármálaeftirlitinu og fulltrúum lífeyrissjóðanna.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta.Ég á eftir að kynna mér frv. betur. Það gefst tóm til að gera það í efh.- og viðskn. þingsins og mun ég ekki láta mitt eftir liggja í því efni.