Sparisjóðir og bankaþjónusta

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 13:47:12 (1642)

2002-11-20 13:47:12# 128. lþ. 34.1 fundur 291. mál: #A sparisjóðir og bankaþjónusta# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., LB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[13:47]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir þær spurningar sem hann bar fram til hæstv. ráðherra um leið og ég lýsi því yfir að svör ráðherra ollu mér miklum vonbrigðum. Þau voru þess eðlis að ég sá í sjálfu sér engan tilgang með því fyrir hana að sitja í þessum ráðherrastól. Hæstv. ráðherra hefði allt eins getað látið einhverja tæknimenn úr ráðuneytinu svara þessu.

Svarið var þess eðlis að það bar ekki vott um neinn skilning á því sem er að gerast. Hv. þm. Jón Bjarnason var að spyrja hvernig menn hygðust bregðast við vegna þeirra öru og miklu samfélagsbreytinga sem eiga sér stað úti á landi og hvað öll svona kerfisbreyting getur haft veigamikil áhrif. Það var í raun og veru eðli þeirra spurninga sem hv. þm. bar fram. Svar hæstv. ráðherra við spurningunum var það að viðkomandi þingmaður hefði lítinn skilning á því sem hann væri að spyrja um. Ég held því miður að hæstv. ráðherra hafi hér afhjúpað það að hún hefur lítinn sem engan skilning á því sem á sér stað á landsbyggðinni.