Eftirlit með iðn- og starfsnámi

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 14:13:16 (1653)

2002-11-20 14:13:16# 128. lþ. 34.3 fundur 335. mál: #A eftirlit með iðn- og starfsnámi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[14:13]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Sem svar við fyrri spurningunni er rétt að benda á að í lögum um framhaldsskóla, nr. 80/1996, er að finna ákvæði um að einkaaðilar eða samtök geti stofnað og rekið skóla á framhaldsskólastigi. Hér getur verið bæðu um bóknáms- og starfsnámsskóla að ræða og menntmrh. getur veitt viðurkenningu fyrir rekstri slíkra einkaskóla á grundvelli laga og reglugerða er varða framhaldsskóla og rekstur þeirra.

Skólarnir verða að uppfylla skilyrði sem er að finna í reglugerð um viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi, nr. 180/1999. Einkaskólar eiga ekki kröfu til styrks af almannafé. Ákveði Alþingi hins vegar að veita slíkum skólum fjárframlög skal lögum samkvæmt gerður verksamningur milli menntmrn. og skólans um fjárveitinguna, um rekstur skólans, stjórnun hans og eigur og um reglur um eftirlit með starfseminni.

Viðurkenning á einkaskólum sem ekki fá fé úr ríkissjóði felur fyrst og fremst í sér staðfestingu menntmrn. á því að starfsemi skólans uppfylli almenn skilyrði framhaldsskólalaga. Ríkissjóður ber enga ábyrgð, hvorki fjárhagslega né rekstrarlega á starfsemi þeirra.

Viðurkenning á einkaskólum getur bæði tekið til skóla sem starfrækja nám samkvæmt opinberri námskrá og skóla sem starfrækja alfarið nám samkvæmt eigin námskrá. Í báðum tilvikum þurfa þeir sem sækja um viðurkenningu að uppfylla skilyrði sem er að finna í reglugerðum um viðurkenningu á einkaskólum á framhaldsskólastigi. Þau skilyrði sem þurfa að vera fullnægjandi lúta að námskránni, að stjórn, fjárhagslegri ábyrgð, starfsaðstöðu, upplýsingaskyldu, inntökuskilyrðum, réttindum og skyldum nemenda og að námið sé a.m.k. einnar annar heildstætt nám. Viðurkenning er alltaf veitt til takmarkaðs tíma og þessi skilyrði viðurkenningar yfirfarin áður en hún er framlengd.

Þeir einkaskólar sem hljóta viðurkenningu og bjóða upp á nám sem er að finna í opinberri námskrá þurfa auk ofangreindra skilyrða að uppfylla kröfur laga um embættisgengi kennara og skólastjórnenda á framhaldsskólastigi. Þeir þurfa því að sækja um undanþágu fyrir þá kennara sem ekki hafa réttindi framhaldsskólakennara.

Fastur þáttur í eftirliti ráðuneytisins með starfsemi einkaskóla er að þeim ber að senda ráðuneytinu skýrslur árlega um starfsemina og að auki að veita allar umbeðnar upplýsingar um rekstur og starfsemi skólans þegar óskað er. Þá er ráðuneytinu heimilt, að höfðu samráði við ábyrgðaraðila, að gera úttekt á starfsemi skólans. Þessu ákvæði hefur verið beitt og slíkar úttektir á starfsemi einkaskóla hafa verið gerðar.

Sem svar við annarri spurningunni er bent á að í lögum um framhaldsskóla frá árinu 1996 segir að um vinnustaðanám skuli gera sérstakan námssamning milli nema og vinnuveitanda. Skal námssamningur undirritaður við upphaf vinnustaðanáms og staðfestur innan eins mánaðar af fulltrúa menntmrh. sem hefur verið falið að annast umsýslu og eftirlit með gerð og framkvæmd námssamninga í löggiltum iðngreinum. Ákvæði um laun og önnur starfskjör skulu vera í samræmi við gildandi kjarasamninga að því er varðar nema í viðkomandi starfsnámi. Þetta kemur skýrt fram í lögunum og ákvæði þessa efnis er að finna á eyðublöðum þeim sem notuð eru til að gera námssamninga milli iðnnema og meistara. Menntmrn. hefur ekki eftirlit með framkvæmd kjarasamninga iðnnema, enda ekki aðili að þeim. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um tilvik þess né að til standi að gerðir séu námssamningar milli nemenda og meistara þar sem nema er ætlað að vinna kauplaust.

Ekki er fyrirhuguð nein breyting á þeim ákvæðum sem um þetta mál er að finna í lögum um framhaldsskóla. Iðnmeistara ber að greiða samningsbundnum nemum laun í samræmi við gildandi kjarasamninga og sé það ekki gert getur fulltrúi menntmrh. slitið samningi að undangenginni rannsókn.