Könnun á læsi fullorðinna

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 14:21:41 (1656)

2002-11-20 14:21:41# 128. lþ. 34.4 fundur 362. mál: #A könnun á læsi fullorðinna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[14:21]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Vorið 2000 ályktaði Alþingi að fela menntmrh. að láta fara fram könnun á læsi Íslendinga. Könnunina átti að gera á árunum 2000 og 2001 og átti hún að taka til aldurshópanna 18--67 ára, þ.e. fólks á vinnumarkaði, enda átti við undirbúning og framkvæmd að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins.

Mér var það ljóst sl. haust að hæstv. menntmrh. hafði ekki gengið til þess verks sem honum var falið, heldur leitað leiða til að komast hjá því með ákveðnum hætti. Hins vegar hefur nú verið skipt um einstakling í stóli ráðherra og spurning er hvort sá sem nú gegnir því embætti hefur ákveðið að verða við því sem Alþingi ályktaði.

Þess vegna spyr ég, herra forseti: Hvað líður þeirri könnun á læsi fullorðinna Íslendinga sem Alþingi samþykkti vorið 2000 að fela menntmrh. að láta gera?

Þessa könnun á að gera, herra forseti. Í rannsókn á duldu ólæsi meðal Dana á þessum aldri, 18--67 ára, frá árinu 1995 kom m.a. fram að um 12% þeirra sem læsi var kannað hjá áttu í umtalsverðum lestrarerfiðleikum. Það er ekki vitað hve margir fullorðnir hérlendis stríða við þennan vanda en honum má jafna við alvarlega fötlun í nútímasamfélagi. Miðað við þær kannanir sem eru til um stöðu barna og ungmenna má þó gera ráð fyrir að niðurstöður úr sambærilegri könnun hér á landi gætu gefið sambærilegar niðurstöður, þ.e. þær að þúsundir Íslendinga á aldrinum 18--67 ára gætu átt í umtalsverðum lestrarerfiðleikum.

Í inngangi að skýrslu um læsi íslenskra barna frá 1993 er tekið fram að engar rannsóknir séu til á læsi fullorðinna hér á landi. Sú rannsókn sem skýrslan greinir frá leiddi hins vegar í ljós að 5--10% 14 ára unglinga eiga í verulegum erfiðleikum með að skilja fræðsluefni sem þeir lesa.

Upplýsingar sem Lestrarmiðstöðin sáluga aflaði með prófum á nemendum í 9. bekk grunnskóla benda til þess að um 15% nemenda geti verið í áhættu með tilliti til dyslexíu. Flm. þeirrar tillögu sem Alþingi samþykkti vorið 2000 lögðu áherslu á að læsi fullorðinna Íslendinga yrði kannað svo traust vitneskja lægi fyrir um umfang þessa vanda hérlendis. Í greinargerð með tillögunni var vísað til könnunar Dana og talið að þá könnun mætti nota sem fyrirmynd.

Spurningin er sem sagt, herra forseti: Hvað líður þeirri könnun á læsi fullorðinna Íslendinga sem Alþingi fól menntmrh. að láta gera?