Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 14:46:51 (1771)

2002-11-27 14:46:51# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[14:46]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Ríkisfjármálin hafa mikilvægi á marga lund. Það skiptir okkur máli í hverju kjördæmi hvernig til tekst um útvegun fjár og raunar áætlun kostnaðar við rekstur stofnana sem mjög miklu skipta eins og í heilbrigðisþjónustunni, rekstri löggæslunnar og framhaldsskólanna. Þá verður að geta þess, herra forseti, að í því kjördæmi sem ég starfa fyrir eru nokkrar stofnanir af þessu tagi, þ.e. um þær á það við að stjórnendur telja að fjárveitingar séu á stundum þröngar, svo ég nefni heilbrigðisþjónustuna á Suðurnesjum og á Suðurlandi.

Það skiptir síðan miklu máli að í gegnum fjárlög hafa, sérstaklega á undanförnum árum, verið veigamiklar fjárveitingar til nýrra safna og varðveislu minja og raunar fleiri þátta sem falla að menningartengdri ferðaþjónustu sem er vaxandi grein. Það skiptir líka máli í þessu efni að okkur takist að útvega eðlilegt fjármagn til rannsókna og þróunar og öflugs háskólastarfs.

Að þessu mæltu er eðlilegt að við gætum þess og horfum á að afar mikilvægt er til að okkur takist þetta að aðhald verði haft í ríkisfjármálum. Annars vegar sökum mikilla áhrifa þeirra í hagkerfinu, og er þess vegna rétt að reyna að forðast sveiflur. Hins vegar sökum mikilvægis þess að minnka þann hlut þjóðartekna, eða verðmætasköpunar Íslendinga, sem fer í skatta og í opinber útgjöld og reynist ekki hafa mjög hvetjandi áhrif á aukna verðmætasköpun.

Einungis með því að beita aðhaldi í ríkisfjármálum, ná að minnka þann hlut sem fer um opinbera fjármálaþræði, einungis þannig munum við ná að lækka skatta í framtíðinni eða hafa betri stjórn á ríkisútgjöldum.

Um þessar mundir er hagkerfið komið út úr vaxtarskeiði, hámarksumsvifum er lokið og samdráttur hafinn þó hægur sé. Skattstofnar eru enn að skila tiltölulega góðum tekjum í ríkissjóð, en þess verður líka að geta að vegna þess samdráttar sem gætir verða skatttekjur hlutfallslega þyngri, einkum ef borið er saman við hagvaxtarskeið þegar vaxandi umsvif báru skatta eftir samdrátt eða minni umsvif.

Það skiptir þó líka miklu í þessu efni að meðan hagvaxtarskeið ríkti tókst okkur að nýta það til þess að efla innviði hagkerfisins til að leggja grunn að skattalækkunum og til að efla nýsköpunarstarf. Allt þetta skiptir máli til að takast á við samdrátt og nú virðist nokkuð ljóst að ef ekki verður af stóriðjuframkvæmdum á næstu missirum, þá er fram undan efnahagslægð, samdráttur sem við gætum átt í vanda með að takast á við.

Herra forseti. Ég hef ekki um langt árabil komið að störfum fjárln. og er því ekki í færum til þess að fjalla um einstaka liði í frv. eða brtt. og hyggst því gera það nánast eingöngu út frá almennu sjónarhorni.

Að mínu viti skipta almenn sjónarmið talsverðu máli, einkum þar sem þau eru byggð á tilraun til að fá yfirsýn um viðfangsefnið í heild og án þess að skoða einstakar greinar ríkisfjármála, en sú aðferð virðist oft geta leitt til þess að menn leggja mismunandi áherslur.

Í því ljósi er athyglisvert að rekja brtt. meiri hluta hv. fjárln. við frv. Þar má einkum sjá liði sem hafa birst nokkuð reglulega undanfarin ár, sumir hafa raunar horfið úr fjárlagafrumvörpum, en komið inn með þeim hætti að nefndin endurvekur. Virðist jafnvel svo að ráðuneyti treysti á það að þó þau nái römmum sínum í fjárlagafrv. með því að skera út liði, þá bjargi þingmenn með því að auka rammann með þessum hætti. Þá verður að segjast eins og er að mér virðist að eftirlit og aðhald eigi erfiðar um vik að halda stjórn á útgjöldum og raunar sennilega ljóst að tómt mál er að tala um að halda útgjaldaramma þegar þannig er að málum staðið, að sparnaðartillögur ráðuneyta eru gerðar með þeim hætti að ekki er ætlunin að standa við þær.

Annar þáttur brtt. er einnig með þeim hætti að þær birtast aftur og aftur, en smávægileg fjölgun verkefna er á milli ára. Þetta eru einkum tillögur um fjárveitingar á sviði menningarmála eða menningartengdrar ferðaþjónustu, fjárveitingar til uppbyggingar safna, nýrra safna, og fleira af því tagi, allt saman góð og gild mál sem eðlilegt er að þingmenn beiti sér fyrir. Ekki er það svo að þingmenn í fjárln. séu einir um að gera það þó að sumir þeirra virðist álíta svo. Samt hafa á þessu sviði verið stofnsettir á undanförnum árum sjóðir og sjóðstjórnir sem starfa eftir löggjöf sem krefst faglegrar umfjöllunar um umsóknir af þessu tagi, en ég hef ekki séð að slík ákvæði gildi um tillögugerð frá nefndum þingsins eða hv. fjárln.

Ég tel þess vegna eðlilegt að fólk spyrji á stundum hvort sú umfjöllun nái til allra umsókna og allra verkefna, hvort alltaf séu lagðir sömu mælikvarðar á niðurstöðuna. Og einmitt vegna slíkra spurninga tel ég farsælla að leggja grunn að því að faglegar forsendur einar leiði til úthlutunar fjár og bjóði þá heim minni hættu á mismunun eða spurningu um mismunun. Ég tel að frekar ætti að efla þá sjóði sem hafa verið stofnsettir í þessum tilgangi, þannig að þeir geti þá mætt þessum útgjaldaþörfum, enda gera þeir það ef þeir fá féð á fjárlögum.

Ég tel að meira sé um vert fyrir okkur þegar við lítum yfir heildarumfang ríkisfjármála að ná aðhaldi heldur en að reyna að skjóta einstökum áhugamálum þingmanna undan aðhaldi, enda er alveg ljóst að þegar það er gert þá springa megingjarðir, þannig að aðhaldið verður ekki árangursríkt.

Það er svolítið einkennilegt líka, herra forseti, að veita því athygli að verkaskipti fjárln. og annarra þingnefnda, svokallaðra fagnefnda, eru ekki mjög skilmerkileg. Fagnefndir fjalla um tiltekinn hluta af fjárlagafrv., en önnur mál virðast síðan koma beint til fjárln. án umfjöllunar fagnefnda og jafnvel verða stærri í brtt. Ég er alveg viss um að það vekur upp einhverjar spurningar og er satt að segja spurning hvort hér eru starfandi einhverjar míníútgáfur af ráðuneytum inni í þinginu. Ég efast um að þetta leiði til farsællar niðurstöðu um umfang þingstarfa, um umfang starfa fjárln., nema því aðeins að ætlunin hafi verið að draga úr aðhaldi.

Herra forseti. Á sviði heilbrigðisþjónustunnar hafa verið uppi miklar umræður um fjárhagslega hlið málanna og það virðist nokkuð ljóst ef við lítum yfir þróun útgjalda samanborið við áætlanir, þó svo áætlunum hafi verið breytt til að mæta endurmetnum þörfum eða nýjum þörfum, þó svo að fjárveitingum hafi verið bætt við til að mæta því sem menn kalla stundum ,,vanáætlað`` eða kannski ,,ófullnægjandi aðhald``, þá er alveg ljóst þegar við lítum yfir þessi mál öll að ekki verður undan því vikist að hefja umfjöllun um rekstrarform heilbrigðisþjónustunnar allrar, hvernig við getum náð fram nægjanlegu aðhaldi á útgjöld, eftirliti og stjórnunarlega ábyrgð til þess að ná stjórn á útgjöldum. Náum við því ekki, þá er hin hliðin á ríkisfjármálum örugglega það næsta sem hækkar, þ.e. skattheimtur. Þá er líka alveg ljóst að ef við náum ekki því marki höfum við engin tök til þess að lækka skatta sem við höfum þó oft talað um að þurfi að gera.

Ég er þeirrar skoðunar að við komumst ekki undan þessu verkefni, til þess standa einfaldlega þau rök að slíkur hraði er á útgjaldaaukningu í heilbrigðisþjónustunni, þó svo að hún sé nauðsynleg, að ef við ekki náum stjórn á þeirri aukningu, þá vaða skattahækkanir fram til þess að mæta niðurstöðu á ríkissjóði.

Ég held að við hljótum í því ljósi, herra forseti, að taka upp alvarlega umræðu um verkaskipti þingnefnda við umfjöllun um fjárlagafrv., verkaskipti þingnefnda og þeirra sem eiga að gæta aðhalds, eftirlitsstofnana eða eftirlitsembætta sem starfa á vegum þingsins. Ég held við hljótum að ræða hvort við þurfum að efla þær og hvort við getum komið að fleiri aðgerðum til aðhalds heldur en í gildi eru í dag. Má vera að við þurfum að breyta lögum um ríkisútgjöld, um framkvæmd ríkisfjármála, um framkvæmd fjárlaga. Má líka vera að við þurfum að breyta okkar eigin aðferðum við að móta fjárlög.