Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 16:05:12 (1779)

2002-11-27 16:05:12# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[16:05]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni fyrir ágæta og málefnalega ræðu. Vert væri að eyða nokkrum orðum til að svara ýmsum spurningum, hugleiðingum og ábendingum sem frá honum komu. Svo kann að fara að slíkt tækifæri gefist þó að það verði ekki í þessu andsvari, þeim tíma sem hér gefst. Ég vildi þó nefna örfá atriði.

Varðandi hið veigamikla atriði sem hv. þm. nefndi, um rammafjárlögin, þá er það rétt. Þær ábendingar hafa komið mjög ákveðið frá Ríkisendurskoðun. Ég tel afar mikilvægt að þingið og þá sérstaklega fjárln. eigi náið samstarf við ráðherra, ráðuneyti og ríkisstjórn, um þau vinnubrögð sem menn kjósa að hafa til framtíðar. Öll slík festa í vinnubrögðum hlýtur að auðvelda þingi og ríkisstjórn að halda utan um fjárlagagerðina. Mér finnst það góð ábending hjá hv. þm.

Þetta leiðir hugann að fjárlagaferlinu hér í þinginu, hvenær þingið eigi að koma að fjárlagagerðinni. Á þingið að gera það strax að vori og taka þátt í fjárlagagerðinni eins og tíðkast í sumum nágrannalöndum okkar eða á þingið ekki að koma að þessu fyrr en í október þegar ríkisstjórnin hefur lagt slíkt fram. Ég tel að vel megi skoða það.

Ég mun síðan við annað tækifæri fjalla um þriðja þáttinn sem snýr að vinnubrögðunum, þ.e. samstarfi fjárln. og fagnefndanna sem ég gerði að umræðuefni. Ég tel að þær tilraunir sem við höfum gert á því sviði hafi mistekist og sú tilraun hafi aldrei náð nema til hálfs því markmiði sem ætlunin var að ná. Ég mun koma að þessu í öðru andsvari eða ræðu við annað tækifæri við þessa umræðu.