Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 18:36:59 (1794)

2002-11-27 18:36:59# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[18:36]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Sínum augum lítur hver á silfrið. Hv. þm. sem talaði hér á undan var afskaplega ánægð með efnahagsstjórn sinna manna í ríkisstjórn. Hún talaði t.d. um að Seðlabankinn hefði lækkað vexti hægt og örugglega í landinu. Það er auðvitað rétt að á liðnu ári hafa vextir frá Seðlabanka lækkað nokkuð. En hún minntist ekki á það að bankarnir hafa ekki lækkað sína vexti nema aðeins nákvæmlega um sömu tölu og Seðlabankinn er að lækka. Mismunurinn milli vaxta Seðlabankans og útlánavaxta bankanna hefur sem sagt ekkert minnkað.

Staðreyndin er sú að þó að það kunni að vera rétt sem hv. þm. sagði hér, að kaupmáttur hefði aukist um þriðjung á undanförnum átta árum í landinu, er sú tala áreiðanlega fengin áður en fólk er farið að borga af lánum. Hvert einasta heimili sem ég þekki er þvílíkt hart keyrt að það kemur ekki til mála að fólk geti, jafnvel þótt það vildi, tekið þátt í neinum sérstökum innkaupum eða skuldasöfnun. Það gerir bara ekki meira en að borga af lánum og búið.