Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 18:42:03 (1797)

2002-11-27 18:42:03# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[18:42]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Það sem skiptir náttúrlega máli í þessu sambandi er að vextir eru að lækka. Það er meginatriðið. Síðan er annað sem ég vildi líka koma inn í þessa umræðu og það er að næsta verkefni okkar er skattalækkanir. Við hljótum að skoða það að lækka tekjuskatt á fólki, við hljótum að skoða það, til þess að auka kaupmátt þess. Við hljótum líka að skoða það að taka endanlega út eignarskatt af fasteignum, af íbúðarhúsnæði. Hann lækkar úr 1,2% í 0,6% um áramótin þannig að fólk mun finna verulega fyrir því á næsta ári.

Ég hitti mann í gær sem sagði mér að hann borgaði 250 þús. kr. í ár í eignarskatt af eigin húsnæði sem hann býr í. Þetta er maður kominn á eftirlaun. Ætli hann muni ekki um það þegar skatturinn fer niður í 125 þús. á næsta ári? Ég ætla rétt að vona að hann finni fyrir því. Ef við tökum síðan næsta skref og tökum algerlega út eignarskatt af íbúðarhúsnæði er hann 125 þús. kr. enn þá betur staddur.

Þjóðfélagið er bara þannig samansett á Íslandi að fólk leggur áherslu á að eiga sitt eigið húsnæði. Mig minnir að það sé í kringum 90%, jafnvel 95%, af þeim sem eru komnir á fullorðinsaldur sem eiga húsnæði sitt, og stór hluti aldraðra. Aldraðir treysta sér jafnvel ekki til að búa í eigin húsnæði, einmitt vegna þess að eignarskattarnir eru að sliga þá. Ég held að við þurfum einnig að horfa á þessa þætti.