Stuðningur við kvikmyndagerð

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 12:29:56 (1852)

2002-11-28 12:29:56# 128. lþ. 38.12 fundur 293. mál: #A stuðningur við kvikmyndagerð# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[12:29]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. svörin og get staðfest það sem kom fram í lokin á máli hæstv. umhvrh., að sjónvarpið hefur ákveðið að kaupa sýningarrétt myndarinnar, hefur þegar gert það. Samkvæmt upplýsingum sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í útvarpsráði, Kristín Halldórsdóttir, hefur fengið, eru samningar við framleiðandann trúnaðarmál en jafnframt lýsti Rúnar Gunnarsson dagskrárstjóri innlendrar dagskrárdeildar því yfir í bréfi sem svaraði fyrirspurn Kristínar að greiðslur sjónvarpsins næmu iðulega 10--20% af framleiðslukostnaði mynda.

Þannig má áætla, herra forseti, að mynd Hrafns Gunnlaugssonar, Ísland í öðru ljósi, fái á bilinu 2,5--5 millj. frá Ríkisútvarpinu. Við höfum fréttir af því að hún hafi fengið 5 millj. frá Landsvirkjun, 9 millj. frá ríkisstjórninni og 7 millj. úr Kvikmyndasjóði. Við erum að tala um mynd sem hefur fengið úr opinberum sjóðum 23,5--25 millj. kr. Ég verð að segja það, herra forseti, að ég held að hvaða kvikmyndaframleiðandi sem er gæti verið vel sæmdur af upphæð af þessu tagi til að gera heimildarmynd um skipulagsmál.

Ég vil aðeins brýna hæstv. umhvrh. til að veita þeim sem vilja í framtíðinni gera myndir um framtíð Íslands, framtíð skipulagsmála, framtíð byggðar á Íslandi og framtíð hálendisins, svipað brautargengi og hún hefur veitt Hrafni Gunnlaugssyni. Það er auðvitað ljóst á svari hæstv. umhvrh. að sýn Hrafns Gunnlaugssonar til framtíðar kemur til með að verða túlkuð sem sýn umhvrh. og ríkisstjórnarinnar til framtíðar. Við vitum hver sú sýn er varðandi virkjanamál og stóriðjumálin.

Við vitum að heimamenn í Gnúpverja- og Skeiðahreppi berjast nú með hatrammri baráttu gegn áformum um virkjun í Þjórsárverum. Hvað ætlar Hrafn Gunnlaugsson að leggja til í sinni mynd varðandi sýn til framtíðar um Norðlingaölduveitu? Ætlar hann að vera þar á bandi ríkisstjórnarinnar eða á bandi þeirra sem deila á þau áform?

Ég ítreka að þetta eru viðkvæm mál og mér finnst ámælisvert að hæstv. umhvrh. skuli leggja sitt þunga lóð á vogarskálarnar á þennan hátt.