Stuðningur við kvikmyndagerð

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 12:32:19 (1853)

2002-11-28 12:32:19# 128. lþ. 38.12 fundur 293. mál: #A stuðningur við kvikmyndagerð# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[12:32]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég get ekki sagt annað en að maður er rasandi hissa á þeim orðum sem hér falla. Það er algert rugl að halda því fram að þær myndir sem styrktar eru verði sjálfkrafa sýn viðkomandi styrktaraðila. Það er bara alls ekki þannig. Þó að við styrkjum mynd Hrafns Gunnlaugssonar um skipulagsmál er ekki þar með sagt að sýn okkar á skipulagsmál komi fram þar.

Við ritskoðum ekki þessar myndir, alls ekki. Við fáum upplýsingar um hvað höfundurinn hefur áhuga á að gera en það er ekki ritskoðað. Við förum ekki yfir nein handrit eða neitt slíkt þannig að það er alveg fráleitt að halda því fram að myndin verði einhver sérstök sýn umhvrh. eða sýn ríkisstjórnarinnar komi þar fram. Ég frábið mér málflutning af þessu tagi.

Það verður að segjast að maður er hálfhissa á að hér skuli koma upp þingmaður og segja að það sé ámælisvert að við styrkjum kvikmynd af þessu tagi. Var það ámælisvert að Reykjavík, sem menningarborg, styrkti myndina Reykjavík í öðru ljósi? Ég tel að það hafi ekki verið ámælisvert. Ég held að það hafi verið mjög snjallt og þarft verkefni. Ég tel einnig að hér sé um mjög gott verkefni að ræða sem við erum að styrkja. Ég átta mig alls ekki á þessum málflutningi. E.t.v. er hann á þeim nótum sem manni hefur fundist hingað til, að ef Hrafn Gunnlaugsson er styrktur sé það afar slæmt mál og rétt að leggja hann í einelti af ákveðnum hópum í samfélaginu. Ég tel að það sé ekki rétt.

Hrafn Gunnlaugsson hefur gert margar ágætar kvikmyndir þannig að ég tel rétt að við styrkjum þessa mynd. Hann er að gera mynd um skipulagsmál. Það er ekki vanþörf á því. Það má vel vera að þar komi fram eitthvað sem mönnum líkar ekki, hugsanlega eitthvað sem mér líkar ekki eða einhverjum öðrum hv. þm., ég skal ekki segja um það. Hér er hins vegar um ágætt verkefni að ræða sem er þess virði að styrkja en það er engin ritskoðun á myndinni.