Gjald af áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 17:48:32 (1897)

2002-11-28 17:48:32# 128. lþ. 40.4 fundur 402. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (hækkun gjalda) frv. 122/2002, KLM
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 128. lþ.

[17:48]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Það sem ég ætla að ræða lítillega um er þetta frv. sem hér er verið að leggja fram, ekki önnur mál þó að þau séu sannarlega tímamótamál og skráist líka á spjöld sögunnar á þessum ágæta þingdegi hér í dag.

Jafnframt er það svo að það frv. sem nú á að fara að keyra í gegnum þingið -- þ.e. til að breyta lögum um gjald af áfengi og tóbaki sem verður þá gert í dag eða í kvöld, og eins og hvíslað hefur verið hér á göngum -- er nauðsynlegt að klára í kvöld til að landsmenn geti ekki fjölmennt í þær áfengisverslanir sem enn eru opnar og farið að hamstra sterk vín og tóbak.

Nú veit ég ekki hvort það er svo en ég hygg að það sé þannig að áfengisverslanir séu opnar eitthvað örlítið lengur heldur en við þekkjum sem erum úti á landi þar sem áfengisverslunum er yfirleitt lokað klukkan sex, og sumum kannski fyrr. Ég hygg að það sé aðeins lengur opið hér. Svo ég sé ekkert að mæla með því að menn fari að hamstra áfengi, þá vita menn hvort sem þeir nota það í óhófi eða hófi, að það kostar töluvert mikið og mikill kostnaður er við það og sá kostnaður á að aukast. Ég ætla svo sem ekkert að fara að tjá mig um það hér og nú hvort það sé rétt eða rangt en auðvitað er rétt að halda því til haga að margir hafa sagt og halda því fram að eftir því sem þessi vímuefni skulum við segja eru dýrari, þeim mun minna verður af þeim notað. Það má kannski segja sem svo líka að vegna þeirrar verðmyndunar sem er á áfengi, þ.e. munurinn og sterkum vínum og léttum vínum, hafi neysla sterkra vína minnkað og er það að sjálfsögðu af hinu góða.

En það eru, herra forseti, þau rök og þær athugasemdir sem koma fram með lagafrv. sem ég vil gera athugasemdir við. Við vitum það jú eins og kemur fram í fyrri athugasemdinni, málsbótunum fyrir þessu ef svo má að orði komast, að álögur á áfengi og tóbak hafa að mestu leyti staðið óbreyttar í krónum talið um langt skeið, ekki kemur fram hvað það er langt, sem auðvitað felur í sér raunlækkun og að þetta sé leið til að leiðrétta það misgengi.

En það sem kemur á eftir í öðru lagi vil ég gera athugasemdir við. Mér finnst ákaflega ógeðfellt að hæstv. ríkisstjórn skuli setja það fram hér sem rök fyrir hækkun á áfengi og tóbaki og það er sá liður sem ég ætla að lesa nú, með leyfi forseta. Í athugasemdunum stendur:

,,Í öðru lagi hafa stjórnvöld gripið til ýmissa ráðstafana að undanförnu sem hafa leitt til aukinna útgjalda, m.a. til málefna aldraðra, sem kalla á sérstök viðbrögð til þess að veikja ekki stöðu ríkissjóðs um of og grafa þannig undan efnahagslegum stöðugleika.``

Ég vildi óska að þessi grein hefði aldrei farið inn í frv. Það er frekar ógeðfellt að spyrða hér saman þær breytingar sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að beita sér fyrir á kjörum aldraðra og öryrkja, ekki seinna vænna og við eigum eftir að fjalla betur um það þegar málið kemur fram, en vil aðeins segja í því efni að það er ekki allt gull sem glóir. Ég hygg að þegar aldraðir og öryrkjar fái seðla sína og bætur 1. janúar verði það ekki eins mikið, a.m.k. ekki eins og Morgunblaðið gumaði af daginn eftir hinn fræga blaðamannafund þar sem þetta var kynnt, sem reyndar hefur svo töluvert verið tekið til baka af.

Herra forseti. Ég vil segja það alveg skýrt og taka fram að það er ógeðfellt hvernig þetta er sett hér fram, að segja að vegna þess að loksins eigi að leiðrétta örlítið kjör aldraðra og öryrkja þurfi að afla tekna með því að hækka brennivín og tóbak. Þetta minnir reyndar á umræðu sem hefur átt sér stað á hinu háa Alþingi um kjör aldraðra og öryrkja, það sem einn þingmaður stjórnarliðsins, hv. þm. Pétur Blöndal, sem hefur alltaf skoðanir á öllum málum, lét hafa eftir sér, bæði í sjónvarpsþætti og hér á hinu háa Alþingi, að ein af ástæðum fyrir erfiðleikum aldraðra og öryrkja væri óregla. Ákaflega óheppileg og niðrandi ummæli um þá þjóðfélagshópa.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. spurningar sem hann getur svarað hér á eftir þegar 1. umr. lýkur. Hér kemur fyrsti pakki að mínu mati um auknar tekjur ríkissjóðs upp á 1.100 millj. kr. á næsta ári til að mæta þeim útgjaldaauka sem stjórnarliðar hafa verið að samþykkja. Ég hef grun um að þegar tekjuhliðin verður skoðuð við 3. umr. fjárlaga líti það þannig út nú að tekjur af tekjuskatti, bæði einstaklinga og lögaðila, og af virðisaukaskatti, muni ekki aukast, að þær tekjur muni ekki koma inn eins og gerst hefur á undanförnum árum í jólamánuðinum þar sem hæstv. ríkisstjórn hefur getað komið fram með tölur um að ríkissjóður fái meiri tekjur af þessum tekjustofnum sínum heldur en gert hefði verið ráð fyrir í fjárlagafrv. þegar það var lagt fram í upphafi.

Þess vegna vil ég spyrja, herra forseti, hvort þetta sé rétt mat. Þá liggur það í augum uppi að ríkissjóður þarf að afla tekna á annan hátt og þá býður mér í grun að hér sé aðeins fyrsti áfangi á þeirri leið. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Hvað er annað í pípunum, hvaða hækkanir aðrar? Ég geri þó sennilega ráð fyrir að því verði ekki hægt að svara hér, e.t.v. til að skapa ekki einhvern óróa meðal landans. Menn gætu kannski ætlað að fara í það að hækka álögur á bensín og olíur, eldsneyti, og það má ekki segja frá því nú vegna þess að þá gæti landinn farið að hamstra bensín, það gætu myndast biðraðir við bensínstöðvar til að hamstra bensín og olíur. (Gripið fram í.) En mér kæmi ekki á óvart, herra forseti, að það væri einn liður í tekjuöflun ríkissjóðs.

Að lokum vil ég spyrja um það sama og aðrir hv. þm. hafa hér gert. Þó að talið sé hér að áætluð áhrif á vísitölu neysluverðs verði innan við 0,3% kann ég ekki að reikna út í hvelli hvaða áhrif það hefur. Fróðlegt væri að fá að heyra það hjá hæstv. fjmrh. ef hann hefur þau svör á reiðum höndum á eftir, a.m.k. eftir að efh.- og viðskn. hefur farið yfir málið, hvað þessi 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs hefur á skuldir heimilanna.

Vil ég þá halda því til haga og minna á að þegar síðustu fjárlög voru samþykkt í desember voru settar inn ýmsar hækkanir sem hæstv. ríkisstjórn þurfti svo að draga til baka í janúar eftir að Alþýðusamband Íslands tók að sér að stjórna efnahagsmálum um tíma til þess að verja hið fræga rauða strik.

Það er ákaflega mikilvægt, herra forseti, að fá það inn hérna núna. Ég vil líka hafa sagt það hér að til eru þeir aðilar sem halda því fram að verðmyndun og verðlagning á áfengi og tóbaki eigi ekki að vera inni í vísitölu neysluverðs. Það er rétt að hafa það í huga og halda því til haga og segja að það er sannarlega þannig að margir hafa haft þá skoðun til langs tíma, með öðrum orðum að ríkissjóður eigi að geta hagað skattheimtu á þetta án þess að það fari út í verðbólgukyndingu eins og má að orði komast.

Herra forseti. Ég hef lagt fyrir hæstv. fjmrh. nokkrar spurningar sem ég vænti að verði svarað á eftir.