Gjald af áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 17:58:07 (1898)

2002-11-28 17:58:07# 128. lþ. 40.4 fundur 402. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (hækkun gjalda) frv. 122/2002, LB
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 128. lþ.

[17:58]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég átti reyndar von á því að hæstv. fjmrh. hefði komið hér í ræðustól og svarað einhverju ... (Fjmrh.: Ég hef nú ennþá málfrelsi, hvers lags rugl er þetta?) Ég átti von á því að hæstv. ráðherra kæmi hér í andsvör og svaraði þeim spurningum sem (Fjmrh.: Ræð ég ekki hvort ég svara? Ég hef rétt til þess að tala þegar mér sýnist hér.)

Virðulegi forseti, er ég með málið eða orðið ...?

(Forseti (HBl): Mér heyrist hv. þm. hafa málið, já.)

Ég þakka fyrir.

Þá er best að ég ítreki það sem ég sagði --- ég vænti þess hér í umræðunni að hæstv. ráðherra hefði komið og svarað þeim fyrirspurnum sem fyrir hann hafa verið lagðar en hann hefur greinilega tekið þá ákvörðun að gera það ekki, a.m.k. ekki hingað til.

En ég held að hæstv. ráðherra verði að svara því, og svara því skýrt og ég vænti þess að fjmrn. og starfsmenn þess hafi reiknað út hvaða áhrif þetta muni hafa á skuldir landsmanna. Það hlýtur að vera. Mönnum hefur varla orðið svo brátt í brók að koma þessu hérna fyrir að þeir hafi ekki farið yfir þau áhrif sem þetta mun hafa. Þessu verður hæstv. ráðherra að svara.

Hæstv. ráðherra verður líka að svara því hvort athugasemdirnar megi lesa þannig að kröfugerð aldraðra hafi verið svo mikil og stór að hún hafi grafið undan efnahagslegum stöðugleika, þ.e. að sá samningur sem vitnað er til í athugasemdum, eins og nokkrir hv. þm. hafa vitnað til, þar á meðal hv. þm. Kristján Möller, hvort kröfugerðin hafi verið svo mikil að hæstv. ríkisstjórn hafi tekið um það ákvörðun að gera samning sem í raun og veru hafi falið það í sér að verið væri að grafa undan efnahagslegum stöðugleika. Þessu verður hæstv. ráðherra að svara. Og auðvitað er ekki stórmannlegt að gera slíka samninga og ætla síðan að borga þá með brennivíni, eins og hér virðist liggja undir, þ.e. að hækka álögur á áfengi sem selt er í verslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.

Virðulegi forseti. Ég held að áður en þessari umræðu lýkur verði hæstv. ráðherra að svara þeim spurningum sem hér hefur verið beint til hans, nema hann vilji nýta sér málfrelsið til að svara ekki spurningum. Það getur vel verið að það sé sú leið sem hæstv. ráðherra vill fara og í sjálfu sér kannski ekkert óeðlilegt í þeirri stöðu sem hæstv. ráðherra er í. Það verður að segjast líka að ég sé að lítið er af þingmönnum Sjálfstfl. í salnum, en það er með ólíkindum hvað þeir láta bjóða sér í þessum efnum án þess að segja múkk og ætla að taka þátt í því að keyra þetta í gegnum þingið á mettíma í skjóli myrkurs.

Virðulegi forseti. Ég reikna fastlega með því að í lok umræðunnar komi að hæstv. ráðherra og svari þeim spurningum sem beint hefur verið til hans, jafnvel þó að hæstv. ráðherra hafi málfrelsi hér eins og aðrir.