Eftirlit með skipum

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 15:54:06 (1943)

2002-12-02 15:54:06# 128. lþ. 43.4 fundur 360. mál: #A eftirlit með skipum# (heildarlög, EES-reglur) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[15:54]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er dálítið erfitt að fjalla um málið á þessum nótum. Við getum ekki fengið upplýsingar um það í umræðunni hversu mikil gjaldtakan verður. Eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. ráðherra er gjaldtakan eitt af þremur meginatriðunum sem verið er að breyta með þessu frv.

Það er mikilvægt að við áttum okkur á því hvað þetta hefur í för með sér, ekki aðeins að forminu til, þ.e. hvort verið er að innheimta skatta eða þjónustugjöld, heldur fyrst og fremst hvað þetta þýðir fyrir þá sem eiga að greiða þessi gjöld. Hversu miklar tekjur á að taka inn í gegnum þessa gjaldtöku? Eitt af því sem stöðugt verður meira áberandi í umræðunni á hinu háa Alþingi undanfarna daga er hin sérstæða árátta hv. ríkisstjórnar, að leita allra leiða til þess að auka tekjur sínar. Síðast var það með sérstæðu áfengisgjaldi sem keyrt var í gegn í skjóli nætur í síðustu viku.

Ég harma að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa á takteinum hversu háar fjárhæðir ætlunin er að innheimta með þessum gjöldum, kannski einkum og sér í lagi með tilliti til þess hver sú fjárhæð verður. Það er mikilvægt að átta sig á hversu miklar breytingar er um að ræða í þessum efnum.