2002-12-03 13:55:21# 128. lþ. 44.94 fundur 291#B leiðtogafundurinn í Prag og þátttaka Íslands í hernaðarstarfsemi á vegum NATO# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[13:55]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það hefur verið upplýst í þessari umræðu af hálfu talsmanna stjórnarliða með hæstv. utanrrh. í broddi fylkingar að fyrri yfirlýsingar hæstv. forsrh. og raunar hæstv. utanrrh. sömuleiðis hafa ekki staðist. Þeir hafa hér með dregið til baka fyrri yfirlýsingar þess efnis að margnefndum 300 millj. kr. ætti að verja til hugsanlegra flutninga á hermönnum og hergögnum með íslenskum flugfélögum. Í því var yfirlýsingin fólgin á sínum tíma.

Nú hefur það verið dregið til baka og það er sérstakt fagnaðarefni. Samfylkingin hafði um það efasemdir þegar þær yfirlýsingar voru gefnar og hefur enn. Hins vegar er Samfylkingin algerlega skýr á því að Ísland þurfi að axla ábyrgð sína í samstarfinu innan NATO eins og verið hefur með því að leggja til friðargæsluliða, hjúkrunarfólk og aðra hjálparstarfsmenn. Þá starfsemi ber að auka.

Hitt er brot á áratugalangri ríkjandi hefð, að Ísland gerist með beinum hætti þátttakandi í beinum hernaðaraðgerðum. Til þess hafa engin efni verið enda er Ísland herlaus þjóð. Til þess eru engin efni. Ísland er enn þá herlaus þjóð.

Ég vil hins vegar ítreka ánægju mína með að hér hafa verið tekin af öll tvímæli og að fyrri yfirlýsingar hafa verið dregnar til baka og það sé kýrskýrt að Ísland muni ekki dragast með beinum hætti inn í hugsanleg hernaðarátök sem koma vonandi aldrei til með að eiga sér stað.