Verkefni Umhverfisstofnunar

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 14:57:44 (2000)

2002-12-03 14:57:44# 128. lþ. 44.9 fundur 405. mál: #A verkefni Umhverfisstofnunar# (breyting ýmissa laga) frv. 164/2002, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[14:57]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég mótmæli því sem hæstv. umhvrh. segir að málið sé ekki mjög viðamikið og að það sé ekki flóknara en svo að hún telji að þingnefnd eigi að geta klárað það fyrir jól. Sannleikurinn er auðvitað sá að það er búið að taka umhvrn. meira en hálft ár að klára málið í sínum herbúðum og það er ekkert óeðlilegt við það þó að umhvn. þurfi góðan tíma til að skoða málið.

En í tilefni orða hæstv. umhvrh. um dýraverndarmálin vil ég einungis árétta það hér, herra forseti, að dýraverndarráð er skipað aðilum ýmissa félagasamtaka núna og það hefur haft ákveðinn farveg. Þessi félög hafa haft ákveðinn farveg fyrir sinn vettvang sem er samráðsvettvangur og ég tel hættulegt að fella þennan formlega samráðsvettvang niður. Ég hefði haldið að það ætti að vera okkur til hagsbóta að hafa slíkan samráðsvettvang til staðar, jafnvel í umhverfi þessara nýju laga, og ég minni á ákvæðin í Ríó-sáttmálanum um aðkomu frjálsra félagasamtaka að málum máli mínu til stuðnings. Ég held að það sé mjög brýnt að hin nýja Umhverfisstofnun hafi ráðgjafarvettvang um dýravernd og velferð búfjár. Ég minni á að við búum nú í umhverfi þar sem verksmiðjubúskapur er að ryðja sér til rúms í auknum mæli og á slíkum tímum og við slíkar aðstæður tel ég gífurlega þörf á því að margir komi að málum og hef þess vegna uppi þau ummæli sem ég nú hef haft varðandi dýraverndarráð.