Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 15:33:49 (2014)

2002-12-03 15:33:49# 128. lþ. 44.10 fundur 404. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (sala á rjúpu o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[15:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hæstv. ráðherra óþarflega viðkvæm þó hér sé komið fram með gagnrýni af þessu tagi. Manni hlýtur að leyfast að hafa þá skoðun að þessar aðgerðir séu full seint á ferðinni og æskilegra hefði verið að menn hefðu unnið rösklegar að þessum málum, byrjað fyrr að hlusta á mjög vel undirbyggðar og rökstuddar skoðanir manna sem ég held að sé full ástæða til að taka mark á, landeigenda, gamalreyndra veiðimanna, sveitarstjórna á fleiri en einum stað og fleiri en tveimur stöðum á landinu o.s.frv. Síðastliðin tvö, þrjú ár hafa þessir aðilar einmitt á þeim svæðum þar sem helsta kjörland rjúpunnar liggur nú, á norðausturhorni landsins, á Vestfjörðum og víðar, verið með eindregnar óskir í þá veru að eitthvað yrði að gert. Og það gera menn ekki að ástæðulausu.

Fjöldi manna sem eiga beinlínis beinna hagsmuna að gæta af rjúpnaveiðum vegna þess að þeir stunda þær sjálfir, eru leiðsögumenn ferðamanna við rjúpnaveiðar eða aðkomumanna við rjúpnaveiðar eða selja gistingu og eiga þar af leiðandi beinna hagsmuna að gæta, þeir biðja sjálfir um einhverjar aðgerðir því þeir sjá sem er að ef svo heldur fram sem horfir þá verði grundvellinum kippt undan starfsemi þeirra að þessu leyti af því stofninn er í svo slæmu ástandi og á hraðri niðurleið.

Ég leyfi mér því ósköp einfaldlega, herra forseti, að halda til haga þessari gagnrýni um leið og ég í öllum aðalatriðum er sammála því að fara út í aðgerðir af því tagi sem ég hef lýst í máli mínu.