Heilbrigðisstofnun Suðurnesja

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 14:54:53 (2068)

2002-12-04 14:54:53# 128. lþ. 46.6 fundur 366. mál: #A Heilbrigðisstofnun Suðurnesja# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[14:54]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Varðandi nýtingu D-álmunnar og nýtingu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja almennt vil ég leggja á það mikla áherslu að við klárum að gera áætlun um nýtingu sjúkrahússins en þar er ein hæð enn þá ónotuð eins og kunnugt er. Við þurfum að fara yfir það mál sérstaklega og fara þá yfir það með nýjum framkvæmdastjóra sem er að taka við starfi þessa dagana suður frá.

Varðandi það hvort viljayfirlýsing mín leysi heilsugæslulæknadeiluna til frambúðar vil ég segja að sú yfirlýsing var samin í samráði við stjórn heilsugæslulæknafélagsins og það var gott samkomulag um hana við þá. En það er verið að ræða þessa yfirlýsingu á fundum í heilsugæslulæknafélaginu einmitt þessa dagana. Ég vona að þær jákvæðu undirtektir sem hún hefur fengið verði til þess að þeir læknar sem höfðu sagt upp störfum endurskoði afstöðu sína, það eru teikn um það að yfirlýsingin hafi fallið í jákvæðan farveg. Ég vona svo sannarlega að hún verði til þess að tryggja rekstur heilsugæslunnar og tryggja gott andrúmsloft í heilsugæslunni til frambúðar því að þetta er grunnþjónusta. Þetta er nauðsynleg þjónusta. Mér er auðvitað ekki ljúft að þurfa að standa í endalausum deilum og viðræðum við heilsugæslulækna þannig að ég vonast svo sannarlega til að þetta samkomulag við stjórnina, þó að það væri einhliða yfirlýsing af minni hálfu, breyti andrúmsloftinu í þessum samskiptum.