Hækkun póstburðargjalda

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 15:38:08 (2086)

2002-12-04 15:38:08# 128. lþ. 46.9 fundur 327. mál: #A hækkun póstburðargjalda# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[15:38]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir ágætt svar þótt niðurstöður þeirrar vinnu sem fram fer á vegum ráðuneytisins liggi ekki fyrir.

Hæstv. ráðherra sagði tvennt. Hann sagði að annars vegar væri um að ræða mildandi aðgerðir. Til þeirra hefði þegar verið gripið í samningum við félagslega útgáfu. Það kemur einnig fram í úttekt í BSRB-tíðindum að einstakir aðilar, fréttabréf á landsbyggðinni og samtök á borð við Öryrkjabandalagið, hafa gert samninga sem þau verða reyndar að fara með sem trúnaðarmál. Eftir sem áður er ljóst að þessi kostnaður mun aukast verulega. Sunnlenska fréttablaðið fær þannig afslátt núna sem nemur rúmlega 50%, fer síðan niður í 35% og þar á eftir í 25%. Þeir ætla að kostnaður þeirra muni aukast um tvær milljónir þegar þessum tíma sleppir.

Hæstv. ráðherra sagði einnig að gripið hefði verið til annarra aðgerða á vegum ráðuneytisins, með starfshópi sem unnið hefði mjög ötullega. Ég efast ekkert um það. En einnig komu fram þau vandkvæði sem hafa skapast með því að breyta Póstinum úr þjónustustarfsemi í bisness. Þar kemur til kasta samkeppnisráðs sem setur síðan hinu opinbera þröngar skorður. Ég hefði kosið að þessi starfshópur hefði verið skipaður fyrr.

Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason sagði að sér fyndist að það ætti að niðurgreiða þessa starfsemi. Það var gert með því að færa til hagnaðinn, gróðann af Símanum, sem skilaði 20 milljörðum kr. í ríkissjóð á einum áratug áður en hann var gerður að hlutafélagi. Nú er það liðin tíð. Það er ekki við Íslandspóst að sakast í þessu efni heldur skammsýni stjórnvalda. Ég heiti hins vegar ríkisstjórninni og hæstv. samgrh. stuðningi okkar við að finna lausn á þessu máli.