Ættleiðingar

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 18:01:22 (2100)

2002-12-04 18:01:22# 128. lþ. 46.14 fundur 379. mál: #A ættleiðingar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[18:01]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. dómsmrh.

Það er því miður ekki öllu fólki gefið að halda góðri heilsu. Góð heilsa er ekki sjálfgefin og það er fólki mikið áfall að missa heilsuna. Þess vegna er það einnig mikið gleðiefni þegar fólk nær heilsu á ný eftir veikindi, og við kunnum oft ekki til fullnustu að meta þessa guðs gjöf fyrr en eitthvað bjátar á.

Á dögunum las ég athyglisvert viðtal við unga konu sem hafði fengið krabbamein. Eftir sérhæfða læknismeðferð hafði hún sigrast á þessum sjúkdómi, síðan varð hún ófrísk og eignaðist heilbrigt barn á eðlilegan hátt og var það henni og föður barnsins að sjálfsögðu mikið gleðiefni og lífsfylling.

Ég hef fylgst með annarri ungri konu sem einnig hefur veikst af krabbameini. Hún á heilbrigðan eiginmann og 11 ára gamalt barn. Þessi kona hefur einnig fengið góða og árangursríka meðferð vegna veikinda sinna. Hún og eiginmaður hennar eiga sér þann draum að eignast barn. Læknisfræðilega séð getur hún eignast barnið með eðlilegum hætti en til þess að svo gæti orðið yrði hún að hætta að taka lyfin sín. Í því felst mikil áhætta út frá meðferðinni. Henni er ráðlagt að taka ekki þá áhættu. Vegna þessa hafa þau hjónin reynt að fá ættleitt barn af íslenskum eða erlendum uppruna en rekið sig á marga veggi og ótrúlegar hindranir og nær alls staðar komið að luktum dyrum. Þau hafa ekki fengið svör sem þau sætta sig við, m.a. hefur verið gefið í skyn að þau hjónin geti ekki fengið ættleitt barn vegna þess að líkur séu á að konan látist eftir 15--20 ár. Hver veit hve lengi við lifum og hver ákveður það? Þessir þættir eru auðvitað ekki í mannlegu valdi.

Eiginmaður þessarar ágætu konu er heilbrigður eins og áður greinir. Samkvæmt mínum upplýsingum geta einstaklingar fengið að ættleiða börn og er það vel. Það fáum við væntanlega staðfest í svari hæstv. ráðherra á eftir. Þessi hjón hafa enn ekki fengið útgefið forsamþykki til ættleiðingar. Það mál er í höndum hæstv. dómsmrh. Eðlilegt er að hjónin séu sorgmædd yfir þessari meðferð enda önnur áföll ærin til þess að sigrast á þó að ekki þurfi að berjast við þetta óréttlæti sem hér á sér stað.

Þess vegna hef ég lagt fram fimm spurningar til hæstv. dómsmrh.:

1. Hvaða skilyrði þurfa foreldrar að uppfylla til þess að fá útgefið forsamþykki til ættleiðingar barna?

2. Geta einstaklingar fengið að ættleiða börn?

3. Geta hjón fengið að ættleiða börn ef annað þeirra hefur átt við veikindi að stríða en hitt er talið fullkomlega heilbrigt?

4. Gilda mismunandi reglur um ættleiðingu eftir því hvort barnið er íslenskt eða af erlendu bergi brotið?

5. Telur ráðherra að fullkomið jafnrétti ríki við ættleiðingu barna á Íslandi?