Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 12:06:43 (2147)

2002-12-05 12:06:43# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[12:06]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að svara fyrir þingflokk sjálfstæðismanna. Ég tel rétt að menn beini fyrirspurnum um þeirra mál til þeirra. Ég vek bara athygli á því að þetta nál. liggur fyrir undirritað af fulltrúum beggja stjórnarflokka.

Hvað varðar eignarhaldsfélögin má hafa um það langt mál, rekja sögu þeirra og leggja mat á framgang og árangur. En í stuttu máli má segja að þetta hafi farið hægt af stað. Menn settu sér mjög stíf skilyrði sem óþarflega erfitt var að uppfylla, sérstaklega í ljósi þess að hér var fyrst og fremst um að ræða áhættufé sem átti að nota til atvinnuuppbyggingar, með þeirri áhættu sem slíku fylgir. Ég tek sem dæmi til samanburðar það ef menn hefðu sett sér sömu kröfur og gert var í upphafi með eignarhaldsfélögin varðandi fjárfestingu ríkisbankanna þriggja í deCODE fyrir 6 milljarða kr. Kröfurnar voru þær að ekki væri nema 10% áhætta í fjárfestingunni. Hefðu menn sett sér þær kröfur þegar ríkisbankarnir þrír, Landsbanki, Búnaðarbanki og Fjárfestingarbanki atvinnulífsins, keyptu hlutabréf í deCODE fyrir 6 milljarða, þá hefðu menn ekki keypt.

Menn verða auðvitað að hafa sambærilegar leikreglur í atvinnuuppbyggingu þó að menn hafi mismunandi form á að koma peningunum til skila, enda slökuðu menn á þessum kröfum sem óhjákvæmilegt var. En málið var þannig sl. sumar þegar ég hvarf frá þessum verkefnum að þetta var komið í tiltölulega góðan farveg. Ég tel að það hefði verið affarasælast að halda áfram á sömu braut.