Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 14:49:37 (2184)

2002-12-05 14:49:37# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[14:49]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að útgjöldin hafa að sjálfsögðu verið ákveðin með pólitískum ákvörðunum stjórnarflokkanna. Um það efast ekki nokkur maður. En vegna þess að hv. þm. hefur á stundum verið talsmaður þess að það þyrfti að fara varlega í að auka útgjöld ríkisins taldi ég að hugsanlega væri hægt að fá örlítinn stuðning frá hv. þingmanni við það að við veltum fyrir okkur hvort öll þessi þróun væri eðlileg, þ.e. að ríkisútgjöldin virtust vaxa, mér liggur við að segja nær stjórnlaust, en hv. þm. hefur bent okkur á að því sé víðs fjarri. Hann og félagar hans í ríkisstjórnarflokkunum bera fulla ábyrgð á því.

Ég held samt, hv. þingmaður, að það væri fróðlegt að skoða mjög nákvæmlega hversu mikið hefur verið borgað niður af skuldum, hvernig skuldastaða ríkissjóðs hefur þróast og kanna hvort það sé algjörlega víst að menn hafi fyrst og fremst aukið útgjöldin vegna þess að skuldir hafi verið greiddar niður plús það að viðhalda auðvitað velferðarkerfinu. En spurningin er líka þessi: Getur ekki verið að einhver hluti af hinum auknu ríkisútgjöldum hafi farið til ýmissa annarra þátta en hv. þm. nefndi áðan? (EOK: Ég mun bera ...)