Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 15:30:11 (2191)

2002-12-05 15:30:11# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[15:30]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Mér fyndist mennilegra af hæstv. fjmrh. að svara þessu skýrt og skorinort en vera ekki að snúa út úr eða vera með skæting. Ég spurði um ákveðin atriði sem hafa komið fram í umræðunni. Ég vil vitna til þess að þetta nál. um stefnu í byggðamálum var samþykkt á vordögum árið 2002. Það var ein af forsendum fyrir samþykkt á stefnu í byggðamálum. Sú ákvörðun sem hæstv. fjmrh. var að vitna til er þá tekin áður en þetta nál. er skrifað. Það eru enn furðulegri vinnubrögð. En hér í þessu nál. stendur að nefndin, meiri hluti iðnn. telji jafnframt mikilvægt að styrkja varanlega rekstur atvinnuþróunarfélaganna ásamt eignarhaldsfélögum og atvinnuþróunarsjóðum.

Er þessi niðurstaða iðnn. léttvæg og stefnan í byggðamálum bara marklaust plagg? Getur hæstv. fjmrh. síðan bara gert það sem honum sýnist? Mér finnst það ekki viðkunnanleg framkoma af hæstv. fjmrh. og fer nú að skilja þykkju formanns þingflokks framsóknarmanna í morgun, sem sagði að þetta mál hefði aldrei verið borið upp í þingflokki framsóknarmanna áður en fjmrh. kom með það hér í fjárlög.

Varðandi hina spurninguna sem ég bar fram og hæstv. fjmrh. var ekki þess umkominn að svara: Hvar stöðvuðust þessar 20 millj. kr. sem hafði þó verið pólitískur vilji til að kæmu inn í atvinnuþróunarfélögin, a.m.k. ef marka má yfirlýsingu hæstv. iðnrh.? Ég tel að hún hafi sagt það í fullri og góðri meiningu. Er það hæstv. fjmrh. sem liggur á stefnunni í byggðamálum? Það á að leysa fjárhagsvanda byggðamála og Byggðastofnunar með því bara að færa til peninga á milli herbergja. Það er heldur döpur frammistaða í byggðamálum, virðulegi forseti.