Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 16:42:06 (2210)

2002-12-05 16:42:06# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[16:42]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hvernig skýrir hv. þm. hér vaxandi fátækt? Hv. þm. verður að gjöra svo vel að skýra fyrir þjóðinni hvers vegna fátækt fer vaxandi í þjóðfélaginu. Félagsmálastjórinn í Reykjavík hefur haldið því fram að almannatryggingakerfið sé orðið svo götótt af því að það hefur verið borað svo í það af þessari ríkisstjórn að það gagnist þeim verst sem helst þurfa á því að halda. Hvers vegna er því haldið fram, herra forseti, að það sé komin svo mikil brotalöm í velferðarkerfið að það þurfi að endurreisa það? Allt hefur þetta verið að gerast í tíð þessarar ríkisstjórnar. Og að tala hér um að hæstv. ríkisstjórn verji kjör lægst launuðu hópanna er bara grín, herra forseti. Það er grín og skammarlegt af hv. þingmanni að halda þessu fram. Kjör þessara hópa hafa verið skert, eins og lífeyrisþega og atvinnulausra, með því að miða ekki við launavísitölu eins og hefur verið gert hjá öðrum. Um 7 þús. kr. hefur verið stolið í hverjum einasta mánuði úr vasa lífeyrisþega og atvinnulausra og ekki á núna við fjárlagaafgreiðsluna að bæta atvinnulausum það upp sem hefur verið tekið af þeim, sem eru fleiri tugir þúsunda króna á heilu ári.