Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 16:43:22 (2211)

2002-12-05 16:43:22# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[16:43]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að hv. þingmaður átti sig á því sem ég veit að hún veit, að það sem hún sagði áðan eru ósannindi. Kjörin hafa ekki verið skert, þau hafa batnað. Það er ekki lygi sem segir í skýrslum Hagstofu Íslands, það er ekki lygi sem stendur í skýrslum Þjóðhagsstofnunar.

Hins vegar, herra forseti, er það mjög alvarlegt mál, sem við skulum þá ræða yfirvegað og leggja okkur fram um að reyna að skilja, hvernig í ósköpunum stendur á því að það er vaxandi fátækt og vaxandi neyð. Það er rétt. Það er mjög vaxandi neyð í allsnægtaþjóðfélagi okkar og við skulum reyna að horfast í augu við það. Við skulum reyna að finna út hvernig stendur á því. Er það ríkisstjórninni að kenna? Kannski er það henni að kenna. Kannski er eitthvað í fari okkar. Hvað er það í því nútímasamfélagi sem við erum að byggja upp, hvað er það í okkar lífsmunstri sem gerir það að sumum ógnar það svo mjög að þeir kikna undan því og geta ekki tekið þátt í lífskjarabaráttunni?

Það er gríðarlegur harmleikur þar í gangi. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. En við bætum ekki kjör þeirra sem sárast standa og eiga við mesta óhamingju að stríða með þeim hamagangi sem hv. þm. sýndi áðan.