Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 17:05:00 (2221)

2002-12-05 17:05:00# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[17:05]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég kem fyrst og fremst til þess að gera grein fyrir þeim breytingartillögum við fjárlögin sem við í 1. minni hluta fjárln., þ.e. sá sem hér stendur, hv. þm. Einar Már Sigurðarson og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, gerum ásamt félögum okkar úr Samfylkingunni.

En áður en ég kem að því að tala fyrir þessum tillögum og útskýra þær má ég til með, virðulegur forseti, að fylgja því eftir sem ég hef áður sagt hér í dag og áður sagt við fjárlagaumræðuna, sem er að fjárlögin séu virt að vettugi. Ég vitna þar, virðulegur forseti, í 41. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir:

,,Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.``

Á þessu tel ég að sé misbrestur og sýndi fram á það með lista sem ég hafði undir höndum í morgun.

Í 42. gr. stjórnarskrárinnar segir:

,,Fyrir hvert reglulegt Alþingi skal, þegar er það er saman komið, leggja frumvarp til fjárlaga fyrir það fjárhagsár, sem í hönd fer, og skal í frumvarpinu fólgin greinargerð um tekjur ríkisins og gjöld.``

Vissulega er frv. lagt hér fram í upphafi þings. En þar í vantar ýmsar upplýsingar sem liggja fyrir á þeim tíma. Það fullyrði ég og hef sýnt fram á rök með því að vísa í skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir liðin fjögur ár.

Herra forseti. Ég má einnig til með að gera nokkra grein fyrir því sem mér þykir hvað verst í fjármálaástandi á Íslandi. Nýlega kom fram í fréttum að fjármagnstekjur sem nema 11,2 milljörðum kr. koma í hlut innan við hundrað manna á Íslandi. Það speglar þá þróun að örfáir eru að eignast Ísland. Fjármagnstekjur samkvæmt framtölum eru 21,2 milljarðar. Af þeim tekjum fá 96 einstaklingar í sinn hlut 116 milljónir hver. Þetta segir okkur, ágætu áhorfendur og hlustendur, að örfáir einstaklingar, e.t.v. innan við 3.000 manns, vita ekki aura sinna tal meðan 10--15 þúsund manns verða að komast af með minna en 90 þús. kr. á mánuði.

Þetta sýnir okkur ótvírætt að stefna ríkisstjórnarinnar er að gera hina ríku ríkari. Nú er komið í ljós að það stenst sem við í Samfylkingunni sögðum um fjárlagafrv. við 1. umr. Það er verið að auka útgjöld meira en nokkurn gat grunað. Frv. í sinni mynd eins og það var lagt fram var sýndarplagg í villandi umbúðum.

Virðulegur forseti. Það er ekki ástæða til að ræða um þetta plagg, fjárlagafrv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. En ég árétta að þar er ekkert gert til að sporna við fátækt. Veikir tilburðir eru til að bæta hag aldraðra. Það er ekki tekið á því sem við samfylkingarmenn höfum margbent á, að virkasta aðgerðin sé líklega að hækka skattleysismörk.

Sá sem hér stendur hefur margflutt frumvarp um lögbindingu lágmarkslauna og ég held því enn áfram. Það hefur sýnt sig að vera gagnlegt hagstjórnartæki í meira en 33 þjóðlöndum. En hér fást hagfræðingar ekki til að skoða árangur annarra þjóða í þessu efni. Ég hef, virðulegur forseti, vitnað í heimsþekkta erlenda hagfræðinga sem mæla með lögbindingu lágmarkslauna. En hér er málið ekki einu sinni skoðað.

Virðulegur forseti. Ég kem nú að þeim breytingartillögum sem ég gat um í upphafi máls og geri grein fyrir þeim hér á eftir. Þær breytingartillögur eru við frv. til fjárlaga fyrir árið 2003 og frá 1. minni hluta fjárln.

Fyrst koma breytingar á sundurliðun 1 við I Skatttekjur, þ.e. 1.1.1.1 Tekjuskattur einstaklinga og staðgreiðsla. Þar gerum við tillögu um hækkun skatttekna um 300 millj. þannig að skatttekjurnar verði 63.879,0 millj. kr. Þessu ætlum við að ná fram með 100 millj. útgjöldum í hert skatteftirlit. Við ætlum einnig að ná fram í b-lið undir þessum 1. lið auknum tekjum upp á 500 millj. með auknu og hertu eftirliti þannig að virðisaukaskattstekjur verða 80.200,0 millj. kr.

Síðan erum við með tillögu að breytingu á sundurliðun 2 við lið 00-201 Alþingi. Við leggjum til að stofnuð verði hagdeild við Alþingi og til þess verði varið 10 millj. og við leggjum til að þessar 10 millj. verði millifluttar af liðnum 1.19 sem heitir Efnahagsrannsóknir þar sem við gerum að tillögu okkar að sú upphæð, 10 millj., sem ætluð er í efnahagsrannsóknir flytjist frá þessari deild yfir til Alþingis, nýrrar hagdeildar Alþingis. Það eru engin útgjöld, heldur tilflutningur á verkefnum.

Í 4. lið gerum við tillögu um að ráðstöfunarfé samkvæmt ákvörðun ráðherra undir liðnum 02-199 verði lækkað úr 18 millj., um 8 millj. kr. og verði 10 millj. kr. Þessar 8 millj. sem við erum að leggja til eru aðeins staðfesting á því sem hæstv. menntmrh. sagði hér við 2. umr. að hann hefði gefið fyrirheit um að leggja fjármuni til undirbúnings framhaldsskóla á Snæfellsnesi og þar sem fyrir liggur að sú upphæð þarf að vera 8 millj. þá staðfestum við þá aðgerð með tölulegum staðreyndum.

Við leggjum til að við lið 02-201 Háskóli Íslands, 1.01 Kennsla, verði að fullu bætt sú fjárvöntun sem um er að ræða eða 740 milljónir þannig að þessi liður verði 3.134,1 millj. kr. þannig að heildartalan verður 4.434,3 millj. kr. sem falla í hlut háskólans.

Við gerum einnig tillögu um að auka fjárframlag til Háskólans á Akureyri í nákvæmlega sama hlutfalli og til Háskólans í Reykjavík, um u.þ.b. 30%, þ.e. það sem talið er að vanti vegna aukins kostnaðar, nemendafjölda og vanreiknaðra tekna til kennara. Þar til leggjum við til hækkun upp á 140 millj. úr ríkissjóði þannig að útlagt úr ríkissjóði verði um að ræða 708,1 millj.

Það sama gildir um næsta lið, Kennaraháskóla Íslands. Þar leggjum við til að greitt verði úr ríkissjóði 190 millj. kr. á sömu forsendum og áður hefur verið gerð grein fyrir varðandi Háskólann á Akureyri þannig að greitt verði úr ríkissjóði 1.099,1 millj. kr.

[17:15]

Við leggjum til að til framhaldsskólanna, óskipt, verði lagðar til viðbótar við þær tölur sem hér hafa verið ræddar í dag, 220 millj. og síðan 70 millj., 370 millj. til að bæta rekstrarstöðu þessara skóla. Út af stendur að það er til óskipt í sjóði á sjötta hundrað milljónir til viðbótar við þetta og þannig ætti að vera hægt að mæta þeirri sannanlegu og óumdeildu fjárþörf sem til staðar er.

Við leggjum til í níunda lagi að við lið 02-884, sem er jöfnun á námskostnaði, bætist hækkun upp á 58,1 millj. þannig að útgreiddar úr ríkissjóði verði 500 millj. Þær munu geta mætt hinu mikla álagi á nemendur sem þurfa að sækja nám langt að.

Í tíunda lagi leggjum við til að við lið 07-205, sem er leiguíbúðir, verði gert sérstakt átak í uppbyggingu leiguíbúða upp á 150 millj. kr. Þessi upphæð er beinlínis til þess að létta þá þörf sem er vegna skorts á leiguhúsnæði og þetta á við um Reykjavík og nokkra aðra staði.

Í ellefta lagi er liður 07-984 Atvinnuleysistryggingasjóður. Þar gerum við tillögu um hækkun atvinnuleysisbóta til samræmis við launavísitölu og samkomulag Landssambands eldri borgara og ríkisstjórnarinnar upp á 190 millj. þannig að þessi liður verði 195 millj. útgreiddar úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Í tólfta lagi, virðulegur forseti, við liðinn 08-204 Lífeyristryggingar gerum við tillögur um hækkun lífeyrisgreiðslna og félagslegra bóta í samræmi við launavísitölu. Til þess að mæta því þarf að hækka þennan lið um 300 millj. kr. þannig að úr ríkissjóði verði greiddar 5.186 millj. í stað 4.886 millj.

Við gerum tillögu í þrettánda lagi um að undir liðnum 08-358 Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri verði greidd sú fjárvöntun sem til staðar er, þ.e. 310 millj. kr., og komið þar til móts við þann vanda sem uppi er. Það er til samræmis við þær aðgerðir sem gripið var til varðandi Landspítala -- háskólasjúkrahús.

Við leggjum til í fjórtánda lagi að við lið 08-501 verði styrking sjúkraflutninga aukin með 15 millj. kr. framlagi. Það er beinlínis til þess að unnt sé að lágmarksmanna heilsugæslustöðvarnar í Borgarnesi, Búðardal, Ólafsvík, Hólmavík, Patreksfirði og Kirkjubæjarklaustri, með 2,5 millj. kr. framlagi á hverja þessara stöðva. Það er til þess að geta mætt lágmarksþörf varðandi sjúkraflutninga þar sem aðeins er einn maður til staðar. Um er að ræða að setja upp bakvakt þar sem hægt er að hafa annan aðila tiltækan til viðbótar.

Ég gerði áður, virðulegur forseti, grein fyrir 15. liðnum, þ.e. 09-150 Innheimtukostnaður. Við leggjum til að settar verði 100 millj. í hert skatteftirlit sem þýðir 790 millj. kr. tekjuauka. Við erum sannfærð um að þessi tekjuauki er að lágmarki, og er sannarlega í plús.

Fer þá að styttast listinn. Í sextánda lagi við lið 10-211 verði lagðar 100 millj. kr. í öryggisaðgerðir í vegakerfi landsins, þ.e. til að eyða þeim svokölluðu hættublettum úr umferðarkerfinu sem sumir kalla ,,svarta bletti`` umferðarkerfisins þar sem æ ofan í æ hafa orðið alvarleg slys. Við teljum að með þessari aðgerð muni peningurinn margskila sér til baka í almannasjóði. Við leggjum til að í stað þess að greiða úr ríkissjóði 1.332,4 millj., verði farið í 1.432,4 millj. kr.

Við leggjum til við 7. gr. fjárlaga, þ.e. heimildagreinina, að þar komi nýir liðir þar sem farið verði í hagræðingu hjá ráðuneytunum og þau spari 500 millj. kr., sem er, virðulegur forseti, mjög hógvær og lág upphæð og ætti að vera mjög þægilegt fyrir ráðuneytin að ná þessu framlagi. En við leggjum einnig til að fresta yfirfærslu ónotaðra heimilda ráðuneytanna frá fyrra ári um 500 millj. kr. Þetta er lág upphæð miðað við allt það sem menn ætla sér að flytja af heimildum á milli ára og þar teljum við að sé auðvelt að taka 500 millj. kr. Við leggjum jafnframt til að ráðuneytin taki nú á og skeri niður ferða- og risnukostnað um litlar 420 millj. kr.

Að lokum, virðulegur forseti, leggjum við til að lækkaður verði sérfræðikostnaður hjá A-hluta stofnunum um einn milljarð kr. Þessi sérfræðikostnaður er yfir þrír milljarðar kr., sérfræðiaðstoð sem er verið að kaupa. Við teljum að þarna sé ekki skynsamlega með farið og að þarna sé hægt að ná sem sagt einum milljarði kr.

Niðurstaða þessa er að við leggjum til tekjuauka upp á 3.220 millj. en við leggjum til útgjöld upp á 2.663 millj. þannig að um er að ræða tekjujöfnuð upp á 536 millj. kr. sem verða eftir. Þó að verði farið að þeim tillögum sem við erum með um útgjöld erum við með 536 millj. kr. umfram það sem við gerum tillögur um í útgjöldum.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið að gera grein fyrir þessum brtt. og því sem ég vildi skjóta frekar inn í umræðuna um fjárlögin. Það er reyndar hægt að segja mjög margt um þau fjárlög sem hér eru á ferðinni. Það er hægt að ræða um gífurlega aukningu útgjalda ríkisins, reyndar um leið og tekjur hafa aukist, en útgjöldin hafa aukist enn meira en tekjurnar sem sést á því að það hefur sífellt orðið að selja meira og meira af eignum. Þrátt fyrir þetta allt saman er skuldaaukning ríkisins ótrúlega mikil á síðustu árum.