Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 17:57:36 (2223)

2002-12-05 17:57:36# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[17:57]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil byrja á að spyrja eftir því hvar aðstandendur þessa máls eru, hvort þetta fjárlagafrv. sé hér við lokaafgreiðsluna algerlega munaðarlaust. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnast þær kempurnar, t.d. hæstv. fjmrh., svo að ég tali nú ekki um hv. þm. formann fjárln., Ólaf Örn Haraldsson, í raun og veru ekki sinna skyldum sínum með því að vera meira og minna fjarverandi undir þessari umræðu. Það er varla til of mikils mælst að t.d. formaður fjárln. haldist við í salnum þessa tvo daga á vetri sem hann hefur sérstökum skyldum að gegna.

(Forseti (HBl): Ég vil benda hv. þingmanni á að hæstv. fjmrh. er kominn í salinn.)

Já. Það er mjög virðingarvert.

(Forseti (HBl): Forseti mun gera ráðstafanir til að formaður fjárln. sé látinn vita að þess sé óskað að hann komi.)

Það þykir mér ákaflega vænt um og í raun og veru skiptir þá engu máli hvort ég ætla að beina máli mínu til hans sérstaklega eða ekki. Mér finnst að þessir aðstandendur málsins eigi að vera viðstaddir og það er auðvitað algert svartasta lágmark, herra forseti. Það er að mínu mati til mikillar skammar hvernig þetta hefur verið að þróast allra síðustu árin, að hæstv. ráðherrar virðast alls ekki telja sig hafa neinum skyldum að gegna við 2. og 3. umr. fjárlaga, eins og þeir geti algerlega skotið sér undan því að svara spurningum um málaflokka sína eða veita faglegar upplýsingar þegar um þær er beðið.

Það er að vísu virðingarvert að t.d. hæstv. félmrh. Páll Pétursson hefur verið hér í dag. Ég tek ofan fyrir því, er að vísu hattlaus en geri það samt. Og síðan er að sjálfsögðu eðlilegt að hæstv. fjmrh. sé hér við. Hitt gagnrýni ég, að ríkisstjórnin sé hérna meira og minna algerlega fjarverandi og eru þetta þó væntanlega og vonandi hennar síðustu fjárlög sem nú verða afgreidd í skammdeginu, þessari miklu rigningartíð sem gengur yfir landið.

Pólitíkina, herra forseti, í þessu fjárlagafrv. má lesa út úr því með ýmsum hætti. Ég hygg þó að t.d. áherslur ríkisstjórnarinnar í skattamálum segi alveg það sem segja þarf og þjóðin hefur líka áttað sig á því. Þetta er ríkisstjórn sem gumar annars vegar af góðæri en getur hins vegar ekki gert betur við þá sem standa höllustum fæti í samfélaginu en raun ber vitni, hróflar t.d. ekki við skattleysismörkum eða högum láglaunafólks, ellilífeyrisþega og aldraðra, nema það litla sem dregið er þar út með töngum, en sætir færis á sama tíma og lækkar sérstaklega skatta á hátekjufólki, gefur hátekjufólki landsins 300 millj. kr. jólagjöf, lækkar skatta á hagnaði fyrirtækja og hyglir fjármagnseigendum og eignafólki. Ja, þetta eru mjög skýrar og skilmerkilegar áherslur ríkisstjórnarinnar. Þær eru í algeru samræmi við hvernig áherslur sem þessar ríkisstjórnir Sjálfstfl., fyrst með krötunum í fjögur ár og síðan með Framsfl. í bráðum átta ár, hafa þróast.

[18:00]

Það er tvennt, herra forseti, sem ég held að sé mjög ámælisvert í því og alvarlegt til lengri framtíðar litið. Það er annars vegar sú tilfærsla á skattbyrði sem hefur orðið í landinu, sem er umtalsverð, og gerir það að verkum að Ísland er að sigla frá t.d. hinum Norðurlöndunum hvað varðar dreifingu skattbyrðarinnar að þessu leyti. En hitt er ekki síður alvarlegt, sem er auðvitað búin að vera meðvituð og markviss pólitík Sjálfstfl. og meðreiðarsveinarnir hafa látið sig hafa það að bakka það upp, að búið er að veikja umtalsvert tekjugrundvöll hins opinbera í landinu. Það sjáum við á því að þetta hlutfall lækkar hér hraðar en gerst hefur annars staðar á Norðurlöndunum og reyndar alls ekki, eins og t.d. í Svíþjóð, þar sem menn hafa horfið frá skattalækkunum og á síðari hluta síðasta kjörtímabils og í tengslum við þingkosningarnar í Svíþjóð núna þá var í raun og veru snúið vörn í sókn og þar unnust kosningar út á það, ekki að hörfa sífellt undan og þrengja að velferðarkerfinu heldur að hefja þar uppbyggingarskeið á nýjan leik. Og það var afar athyglisvert í ljósi þeirrar hægri bylgju sem lengi hefur svifið yfir vötnum að þar voru áherslurnar svona.

Það má reyndar að hluta til segja sama um þýsku kosningarnar, svo maður fari nú aðeins með þetta í stærra samhengi, herra forseti, að þar hrökkluðust menn til þess að lokum að hverfa til hefðbundinna áherslna á velferðarmál vegna þess að ,,blairisminn``, dekrið við nýfrjálshyggjuna, reyndist ekki nógu góð söluvara. Það væri nú gaman að sjá slík veðrabrigði í pólitíkinni hér, en lítið bólar á þeim.

Hvað varðar árangur hæstv. ríkisstjórnar í ríkisfjármálum sem mikið hefur verið gumað af, þá er athyglisvert að fara yfir það að ef eignasala ríkisins er tekin burtu þá stendur eftir í besta falli að ríkissjóður sé rekinn í járnum síðustu tvö, þrjú ár og verði á næsta ári. Í reynd er nánast allur afgangurinn fenginn með því að selja eignir ríkisins, eignir sem hafa myndast á áratugum ef ekki næstum aldartíma, eins og eignir ríkisins í bönkunum og eignir ríkisins í fleiri fyrirtækjum sem hafa verið seldar á undanförnum missirum og árum. Þarna eru menn að innleysa eignamyndun hins opinbera yfir áratugabil og það er notað til þess að fegra útkomuna í bókhaldinu á tveggja, þriggja, fjögurra, fimm ára tímabili. Ef það er tekið burtu þá er staðan nú ekki glæsilegri en þessi á þeim veltiárum sem við höfum upplifað vegna hagstæðra skilyrða og góðs árferðis í þjóðarbúskap okkar. En það er auðvitað alveg ljóst að Ísland hefur notið mjög hagstæðra skilyrða, hér hafa verið hagstæð viðskiptakjör og tiltölulega gott árferði til sjávar, góður viðgangur í ýmsum nýjum greinum atvinnulífs, ferðaþjónustu og ýmsum iðngreinum og munar þar ekki mest um stóriðjuna eins og ýmsir kunna að halda. Þvert á móti er vöxtur í lyfjaframleiðslu, hollustu- og heilsuvöruiðnaði, þjónustuiðnaði tengdum sjávarútvegi og ferðaþjónustunni sem hefur skilað mestu í vexti útflutningstekna og svo auðvitað eins og venjulega sjávarútvegurinn, sem hefur þarna skilað sínu.

Þrátt fyrir þessi tiltölulega hagstæðu skilyrði og þessi veltiár er útkoma ríkisbúskaparins ekki betri en þetta þegar eignasalan er dregin undan. Og sveitarfélögin hafa flest þessi ár og eru enn að safna skuldum, þannig að heildarútkoma hins opinbera, samneyslunnar í landinu, er ekki glæsileg. Hvað ætla þessir höfðingjar að gera þegar engar eignir verða eftir lengur til að selja? Það sneiðist nú um þá hluti sem eru auðseljanlegir með þeim hætti sem verið hefur, t.d. að selja hlutabréf í bönkum eða annað því um líkt. Ekki gekk Landssímasalan svo vel og kostaði þó sitt. Það væri gaman að heyra hæstv. fjmrh. fara yfir það hér, eða kannski á hæstv. forsrh. að gera það, hvernig útkoman var á því dæmi. Hvað kostuðu æfingarnar með Landssímann ríkissjóð, almenning, þegar upp er staðið, fyrir utan allar þær hörmungar og hremmingar sem það fyrirtæki gekk í gegnum? Ætli það séu ekki svo sem 300--400 millj. kr. eða hvað er það þegar allt er talið, þóknunin til einkavæðingarnefndar og þóknunin, ráðgjöfin sem þeir veittu sjálfum sér, og aðkeypt erlend ráðgjöf sem var nú ekki beinlínis ókeypis og útkoman varð eins og raun ber vitni?

Herra forseti. Ég vil aðeins nefna útkomu byggðamálanna sem mér sýnist harla dapurleg. Hvar er hæstv. byggðamálaráðherra? Er það rétt að hæstv. ráðherra hafi tekið það fram yfir umræðuna að fara austur á land og opna þar brú fyrir verktaka, eins og ég heyrði hér á göngum áðan? Er það mikilvægara að þjóna stóriðjudekrinu en að vera viðstödd umræðu um fjárlög? Ef þetta er misskilningur þætti mér vænt um að fá hann leiðréttan. En þessa skýringu heyrði ég gefna hér á göngum á því að hæstv. iðn.- og viðskrh. væri ekki viðstödd.

Hvernig er útkoma byggðamálanna hjá hæstv. ráðherra sem gumaði ekki svo lítið af nýrri byggðaáætlun í vor sem leið? Það eru engir nýir peningar. Það eru millifærslur, það eru æfingar, millifærsluæfingar í byggðamálaflokknum. Hæstv. fjmrh. sagðist hafa tekið þá ákvörðun sjálfur að leggja niður hlutafjársjóðinn eða eignarhaldssjóðinn og millifærðar eru 200 milljónir yfir í byggðaáætlun. Engir nýir peningar. Og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, formaður þingflokks Framsfl., upplýsir svo hér að þetta hafi aldrei verið rætt í þingflokknum, þetta sé bara einhver geðþóttaákvörðun fjmrh., kannski með vitund byggðamálaráðherra, við skulum ætla það. En það hefur farið fram hjá þessum þungavigtarmanni stjórnarliðsins, hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, sem lengi stýrði Byggðastofnun og væru af því ýmsar sögur ef þær væru sagðar allar saman.

Svona er nú þetta, herra forseti, og útkoman á þessu er nú glæsileg. Það kunna að vera þarna einhverjir aurar sem hæstv. ráðherra hefur sett í eitt tiltekið gæluverkefni sitt í byggðamálum, búið til sérstaka byggðaáætlun fyrir eitt svæði á landinu. En að því slepptu er þetta hörmuleg útkoma. Atvinnuþróunarfélög landshlutanna hanga í lausu lofti, fá sáralitla peninga og það er fyrst og fremst verið með millifærsluæfingar af þessu tagi.

Ég hefði líka gjarnan viljað að hæstv. landbrh. væri hér og færi yfir sinn málaflokk. Hvernig er útkoman t.d. á ýmsum stofnunum landbrn., skólunum? Ég hef grun um að það sé ekkert allt of gott, ekki sé allt of bjart þar yfir. Og hvernig standa málefni landbúnaðarins almennt? Ættum við kannski að ræða það, herra forseti, hvernig framkvæmd búvörusamninga, kjötsölumálin í landinu og afkoma bænda stendur um þessar mundir? Það er kannski í lagi að nefna það eins og einu sinni á ári hérna úr þessum ræðustól að þarna á í hlut einhver fátækasta stétt landsins sannanlega vegna þess að þær tölur, opinberu hagtölur sem við höfum, og tölur frá hagþjónustu landbúnaðarins úr búreikningum eru enginn skáldskapur. Þær birta því miður þann dapra veruleika að t.d. sauðfjárbændur eru meira og minna tekjulausir og verða að treysta á aðrar tekjur, hlunnindatekjur eða vinnu utan bús eða hreinlega eru að éta upp eignir sínar. Og sennilega er í mörgum tilvikum einhver sárasta fátækt sem fyrirfinnst í landinu hjá t.d. fjölskyldum sauðfjárbænda í afskekktum héruðum þegar kemur að því að reyna að koma börnum til náms og annað í þeim dúr.

Hvar er hetjan, hin vinsæla hetja, Guðni Ágústsson, hæstv. landbrh.? Vill hann ekki koma hérna og ræða aðeins við okkur um málefni sauðfjárbænda og spurninguna um það hvort Alþingi hefði kannski átt hérna fyrir jólin að gefa fleirum gjafir en hátekjufólkinu í landinu, einstaklingum með meira en 340 þús. kr. á mánuði, hjónum með 680 þús.? Það er hópurinn sem ríkisstjórnin, með stuðningi Framsfl., sér ástæðu til að gefa sérstakar gjafir, 300 millj. kr. jólagjöf til einstaklinga með meira en 340 þús. á mánuði, hjónafólks með meira en 680 þús. En sauðfjárbændur, það er ekkert hér til þeirra.

Það er ekkert verið að reyna að takast á við vanda í afurðasölukerfi landbúnaðarins, kjötfjallið sem er að vaxa upp í landinu, hörmulega afkomu í þessum greinum, sem eru meira og minna orðnar með neikvæðan höfuðstól, sennilega algerlega gjaldþrota ef þær væru gerðar upp á réttum bókhaldslegum grunni. Og þá náttúrlega, herra forseti, hljótum við að þurfa að muna eftir því og hafa það í samhengi við að ríkið ber mikla ábyrgð. Það er samningsbundið vegna þessara mála og það er í raun og veru þátttakandi í þessari opinberu stefnu, að framkvæma hana. Það er því ekki svo einfalt að ýta því frá sér og vera fjarstaddur þessa umræðu, herra forseti, vandinn gufar ekki upp við það.

Ég hefði líka áhuga á því að ræða við hæstv. landbrh. um annað mál. Það eru jarðasölumálin. Ég verð að segja alveg eins og er að ég var alveg gapandi þegar enn kom brtt. á þskj. 549 og þar bætt við, ætli það séu ekki einar 17, 18 jarðir í viðbót við þær rúmlega 50, milli 50 og 60 sem eru í frv. Sem sagt, það á að fá heimild til þess að selja hátt í 80 jarðir eða jarðarhluta á árinu. Það hljóta að vera ein 15--20% af þeim jörðum sem ríkið á enn þá, því að þeir hafa verið iðnir við kolann undanfarin ár og það er alllangt síðan, mig rekur minni til þess að jarðirnar hafi verið 800 sem ríkið átti samtals eða þar um bil.

Þetta er þeim mun undarlegra, herra forseti, sem ríkið fer fram um þessar mundir með miklu offorsi gagnvart jarðeigendum í landinu í svonefndu þjóðlendumáli, gengur þar fram af mikilli hörku með kröfugerð um að jafnvel þinglýst landamerki haldi ekki og ríkið neytir mikils aflsmunar að sækja kröfur sínar með lögfræðingaherskara á sínum vegum gegn í mörgum tilvikum fátækum bændum sem hafa litla möguleika á að gæta réttar síns og meiri og minni brigður allt saman sem lofað hefur verið um að standa á bak við þann kostnað sem landeigendur hefðu af því að gæta réttar síns. Að minnsta kosti er engu slíku til að dreifa þegar til dómstólanna kemur.

Er það þá í góðu samræmi, herra forseti, við þetta að ríkið ætli að selja einar 80 jarðir á næsta ári, jarðir eða jarðarhluta? Nú ber að vísu að taka skýrt fram að það getur skipt miklu máli hverjum á að selja. Við gerum ekki athugasemdir við það, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, þó að ábúendum á jörðum sem eiga sinn kauprétt, sé selt. Það er allt annar hlutur, enda sé þá um að ræða ábúendur eða afkomendur þeirra sem sitja viðkomandi jörð og hafi öðlast þann kauprétt. Ég geri heldur ekki athugasemdir við það ef ríkið er að selja sveitarfélögum því að ég tel að jarðnæði sé fullt eins vel komið í höndum sveitarfélaganna. En ég geri miklar athugasemdir við það ef ríkið er tugum eða hundruðum saman að selja jarðnæði í opinberri eigu og koma því í hendur einstaklinga sem ekki sitja viðkomandi jarðir eða hafa við þær nein slík tengsl. Það er ekki framför í skilningi þess að almenningur geti notið landsins, það veikir almannaréttinn en styrkir hann ekki. Það hindrar umgengni þjóðarinnar um landið en hjálpar ekki til í þeim efnum. Allir vita hvernig þetta er í hinum einstöku byggðarlögum ef jarðnæði af þessu tagi er selt eigendum úr fjarlægu þéttbýli, að það fyrsta sem gjarnan gerist er að það kemur keðja á veginn og neðan í henni hangir skilti og stendur: Einkavegur, öll umferð bönnuð. Og oftar en ekki missa bændur á nálægum jörðum afnotaréttindi sem þeir hafa áður haft á meðan landið var í eigu ríkisins, sveitarfélaga eða slíkra aðila.

Herra forseti. Mér væri skapi næst að lesa upp þessar jarðir og biðja um skýringar á hverri einni og einustu. Hverjum á að selja, hvaðan er beiðnin komin og hver eru rökin fyrir því að þetta land eigi að fara úr opinberri eigu, úr eigu almennings í landinu og í hendur einhverra einkaaðila.

Hverjum á að selja spildur úr landi Útskála í Kjalarnesprófastsdæmi? Eða jörðina Hólsland í Eyja- og Miklaholtshreppi? Eða jörðina Nýrækt í Skagafirði o.s.frv.? Hverjum á að selja Gufudal og Gufudal II í Ölfusi í Árnessýslu? Hverjum á að selja jarðnæði t.d. í eða við þéttbýli? Er það endilega svo að það sé skynsamlegt að slíkt land hverfi úr opinberri eigu?

[18:15]

Ja, ég verð að segja alveg eins og er --- hverjum á að selja prestssetursjörðina Vatnsfjörð undan síra Baldri? Hver er hinn væntanlegi kaupandi? Einhver hefur beðið um heimildina. Hefur hv. formaður fjárln. upplýsingar á reiðum höndum um það? Ekki er hér hæstv. landbrh. til að svara fyrir þetta.

Ég hélt satt best að segja, herra forseti, að landbrh. hefði lært eitthvað af axarsköftunum fyrir tveim, þrem árum þegar hann ætlaði að fara að selja sumar af náttúruperlum landsins, t.d. verðmætar eyjar. Hann eða hæstv. samgrh. ætluðu að fá heimildir til að selja eyjar á Skagafirði og Breiðafirði, jafnvel jarðir hvar voru verðmætar náttúruperlur á ferðinni. En það virðist ekki vera svo. Hér rignir inn, til viðbótar því sem í frv. var, óskum til Alþingis um að ríkisstjórninni eða ráðaherra verði heimilað að ganga frá sölu á fjölmörgum jörðum í viðbót. Og ég hef mikinn fyrirvara á þessari stefnu, herra forseti. Ég held að farsælast sé að annaðhvort sé jarðnæðið í eigu þeirra eða ábúðarrétti sem sitja viðkomandi land, nýta það, þekkja það og hugsa vel um það í langflestum tilvikum, eða þá að það sé í höndum almennings í gegnum sveitarfélögin eða ríkið. Það getur út af fyrir sig farið prýðilega á því, herra forseti, að fela eða jafnvel selja fleiri aðilum eins og heildarsamtökum, félagasamtökum, jarðir eða að auðvelda þeim að halda þær. Að sjálfsögðu eru aðilar eins og Skógræktin og Landgræðslan, eða Landvernd eða aðrir slíkir prýðilegir umsjónaraðilar lands. Við erum komin út í allt aðra sálma, herra forseti, ef það á almennt að fara að færa yfir í einkaeigu þó það jarðnæði í landinu sem ríkið hefur farið með. Meira að segja jarðir sjálfra himnafeðganna fá ekki lengur að vera í friði. Kristfjárjarðirnar, sem menn gáfu til sáluhjálpar sér á fyrri öldum og hefur verið litið svo á að enginn ætti, þær væru bara í umsjá löggjafarvaldsins fyrir hönd þeirra himnafeðga, er verið að selja, menn eru að þrælast við að reyna að selja þær.

Ég tel, herra forseti, að það sé alveg nóg að einkaaðilar geti keppt á markaði um það jarðnæði sem er í einkaeigu og gengur kaupum og sölum. Það er auðvitað ljóst að það er í gangi heilmikil þróun og hún er eiginlega öll á einn veg, að slíkt jarðnæði er að hverfa úr höndum bænda eða ábúenda í sveitum landsins og yfir í hendur einkaaðila, einfaldlega vegna þess að það er komið í tísku meðal auðmanna, bæði hérlendis og Íslendinga búsettra erlendis og jafnvel einstöku erlendra ríkisborgara, að kaupa sér hér jörð og jörð eða hálfan eða heilan dal. Þá er oft fjármagn á ferðinni sem einstakir bændur eða þess vegna sveitarfélögin ráða ekkert við að keppa við. Þar á ofan er svo forkaupsréttur sveitarfélaganna meira og minna forsmáður eins og framkvæmdin hefur þróast. Bæði framkvæmdarvaldið og dómsvaldið hafa lagst gegn honum og veikt hann með öllum ráðum í framkvæmd og dómum. Þróunin að þessu leyti, herra forseti, er að mínu mati mjög óhagstæð.

Besta fyrirkomulagið væri að sjálfsögðu að enginn ætti land, að land væri sameiginleg auðlind þeirrar þjóðar sem í því býr rétt svipað og fiskimiðin eða loftið sem við drögum að okkur. Það fyrirkomulag er til staðar, t.d. í nágrannaríkinu Grænlandi, þar er það inngróið í menningu manna að vitaskuld geti enginn átt land. Menn geta haft á því nytjarétt, menn geta leigt sér lóð undir sitt hús, og í þeirra menningu er það eðlilegt að allir hafi jafnan veiðirétt o.s.frv., en það getur enginn átt landið, það getur enginn átt veiðislóðina og lokað henni fyrir öðrum. Það held ég að væri farsælasta fyrirkomulagið.

Herra forseti. Það eru auðvitað ýmsir fleiri hlutar í þessu frv. sem ástæða væri til að staldra við og nefna. Ég ætla að minna bara á --- til viðbótar því sem félagar mínir hafa gert, t.d. hv. þm. Jón Bjarnason þegar hann mælti fyrir nál. 2. minni hluta --- þessa hörmulegu útreið framhaldsskólanna. Því miður er afgreiðslan á þeirra málum yfirklór, það er öllum ljóst, það er heldur aumlegt yfirklór. Framhaldsskólastigið er í gríðarlegum erfiðleikum, það má segja að það sé í hálfgerðu uppnámi, og þar er kannski útkoman á verknáminu verst. Það drabbast niður í landinu með hörmulegum afleiðingum, m.a. þeim að aðsókn í verknámið snarminnkar og það munu verða stórfelld göt í árgöngum iðnaðarmanna í fjölmörgum iðngreinum hér á komandi árum ef svo heldur sem horfir. Hvernig ætla menn þá að leysa þau mál, herra forseti?

Ég nefni málefni Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Ég tel að þar sé langt frá því að vera nógu myndarlega að verki staðið. Ég tel að þar sé einhver undarleg tregða á ferðinni sem mig grunar að eigi sér lögheimili í fjmrn. --- ef hæstv. fjmrh. er enn hérna einhvers staðar á vappi. Það virðist eins og það gangi miklu verr að fá sömu hluti viðurkennda hjá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og fást þó viðurkenndir t.d. hjá Landspítala -- háskólasjúkrahúsi. Ég nefni þar aðlögunarsamninga við lækna. Það virðist stranda á því að fjmrn. --- ég trúi því ekki að tregðuna sé að finna í heilbr.- og trrn. og varla hefur fjárln. verið að bregða fæti fyrir þetta --- stimpist við að viðurkenna þær aðstæður sem tiltölulega lítið en þó deildaskipt sérgreinasjúkrahús býr við, eins og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Aðstæðurnar þar eru allt aðrar en á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi þar sem m.a. tveir stórir spítalar, eða reyndar þrír, hafa sameinast, deildirnar eru miklu stærri og aðlögunarsamningarnir eru miklu auðveldari. Þar eru fleiri til skiptanna þegar kemur að vöktum, bakvöktum og öðru slíku.

Þarna verða menn að viðurkenna veruleikann sem blasir við stjórnendum á litlu en þó deildaskiptu sérgreinasjúkrahúsi. Kannski er Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri eina raunverulega dæmið um slíkt í landinu. Og mikilvægt sem það er og hlutverk þess er þarna einhver furðuleg tregða á ferðinni. Ég hygg að það sé tilfinnanlegasti vandinn sem enn er óleystur hvað varðar málefni þeirrar stofnunar þó að vissulega mætti betur gera við hana í tækjakaupum og ýmsu fleiru. Ég veit að það hefur verið viðleitni af hálfu t.d. heilbr.- og trmrn. að gera betur.

Ég nefni einnig Háskólann á Akureyri. Ég tel að standa mætti myndarlegar að uppbyggingu þeirrar stofnunar sem hefur heldur betur sannað gildi sitt. Þar fer aðsóknin ört vaxandi, stofnunin er í fararbroddi við að byggja upp nám á háskólastigi vítt og breitt um landið og nýta til þess tækni fjarkennslu. Til viðbótar því er Háskólinn á Akureyri og nánasta umhverfi að verða heimskautamiðstöð Íslands með þátttöku sinni í heimskautasamstarfinu Háskólar norðurslóða og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Hún fær vel að merkja heldur ekki þann stuðning sem hún á skilinn að mínu mati. Það hefur sigið þar mjög ört á þá hlið að stofnunin fjármagnar sig meira og meira með sértekjum. Það er að vísu ánægjulegt að þeir duglegu menn sem þar starfa hafa verið öflugir í að afla stofnuninni stuðnings, rannsóknarstyrkja og verkefna, en það skapar óöryggi við slíkan rekstur ef hlutfall fastra fjárveitinga verður allt of lágt miðað við heildarveltu og mannafla stofnunarinnar. Auðvitað geta verið og verða alltaf sveiflur í því milli ára hversu háa rannsóknarstyrki eða mikinn stuðning til einstakra verkefna menn ná að sækja sér út á við.

Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Háskólinn á Akureyri eru gríðarlega mikilvægar einingar í þessari vaxandi þátttöku okkar í heimskautasamstarfinu. Þar er Ísland að taka við forustu í heimskautaráðinu, sem er vissulega vel, og utanrrn. fær einhverja fjármuni til þess. En ég hefði talið að það hefði mátt líta til þess einnig og sérstaklega að styrkja stöðu Háskólans á Akureyri og Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar til að vera hinar faglegu stofnanir sem standa að baki þess samstarfs.

Herra forseti. Ég ætlaði svo að lokum aðeins að gera grein fyrir brtt. þar sem ég er 1. flm. Félagar mínir, aðrir hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, gera grein fyrir öðrum, þar á meðal þeim tekjuöflunartillögum sem við flytjum til að afla tekna á móti þeim útgjöldum sem við leggjum til þannig að það sé í grófum dráttum í jafnvægi. Það er rétt og skylt að sýna ekki bara vilja til að auka útgjöld, heldur þá líka vilja til að mæta þeim útgjöldum með tekjum. Okkur er ekkert að vanbúnaði í þeim efnum. Við, sem viljum standa vörð um öflugt, samábyrgt velferðarkerfi, erum ekki og höfum aldrei verið feimin við að sýna jafnframt í verki að við séum tilbúin til að afla því tekna.

Á þskj. 564 er endurflutt lítillega breytt brtt. með lægri upphæðum, sem gekk til atkvæða eftir 2. umr., um að Íslendingar auki framlög sín til þróunarsamvinnu, mannúðarmála og neyðaraðstoðar. Sú skammarlega lága upphæð, það lága hlutfall af landsframleiðslu, sem við Íslendingar verjum í þennan málaflokk komst í enn þá nöturlegra ljós á dögunum þegar ráðmenn okkar marseruðu til Prag og voru þá örlátir á fé til ýmissa verkefna sem tengjast hernaðarlegum umsvifum en það bólar ekkert á slíku örlæti þegar kemur að framlagi Íslands til uppbyggilegrar og friðsamlegrar þróunarsamvinnu eða mannúðarhjálpar og neyðaraðstoðar. Það situr kolfast í alveg ótrúlega smánarlega lágum upphæðum. Þannig er liðurinn 03-391 Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi, undirliður 1.30 Mannúðarmál og neyðaraðstoð, upp á heilar 18,5 millj. kr. Þá upphæð ætlar íslenska ríkið að hafa í handraðanum til að mæta slíkum verkefnum á árinu 2003. Rauði krossinn safnaði þó á þriðja tug milljóna á einu kvöldi fyrir nokkrum vikum. En ríkið með veltu upp á 270--280 milljarða íslenskra kr. ætlar að eyða þarna heilum 18,5 millj.

Við leggjum til að þessi liður hækki um 90 millj. og Þróunarsamvinnustofnun Íslands fái 190 millj. í aukið ráðstöfunarfé.

Síðan vil ég mæla fyrir annarri brtt. á þskj. 583. Það er að við 7. gr. bætist nýr liður svohljóðandi: ,,Að verja allt að 150 millj. kr. til styrkingar almenningssamgöngum í samstarfi við sveitarfélög og heimaaðila á viðkomandi svæðum.``

Almenningssamgöngur í landinu eru alger hornreka. Þær mæta algerum afgangi, því miður ekki bara hjá ríkinu heldur líka hjá mörgum sveitarfélögum sem veita því að mínu mati allt of litla athygli að með öflugum almenningssamgöngum er hægt að slá margar flugur í einu höggi. Það er jákvætt frá umhverfislegu sjónarmiði, það er jafnréttismál til þess að þeir sem ekki hafa efni á því eða vilja eða geta rekið einkabíl hafi möguleika til að koma sér, eða sér og sínum, milli staða. Þar má t.d. nefna eldri borgara sem ekki treysta sér til að aka bílum í umferðaröngþveitinu á höfuðborgarsvæðinu eða þess vegna á fjallvegum eða löngum leiðum úti á landi. Þar má líka nefna hluti eins og atvinnu og skólasókn yfir stærri svæði heldur en mögulegt er ef ekki er til að dreifa skipulögðum og skilmerkilegum almenningssamgöngum.

Víða í byggðum er áhugi á því að gera slíkar tilraunir en það þarf fjármuni til. Það er alveg ljóst að almenningssamgöngur munu ekki hér frekar en annars staðar ganga án þess að þeim séu lagðir til einhverjir opinberir fjármunir. Það er nánast hvergi þannig að almenningssamgöngur séu látnar standa algerlega undir sér af fargjöldum og þá er þess varla að vænta að hér í okkar stóra og strjálbýla landi, fámenna landi, gangi slíkt. Menn hafa yfirleitt komist að því að það sé einfaldlega skynsamleg pólitík og rétt og skylt að hlúa að þessum samgöngum og leysa með því í leiðinni ýmis vandamál eins og ég hef hér farið yfir.

[18:30]

Við leyfum okkur að leggja til að þarna verði heimildargrein sem stjórnvöld geti síðan spilað úr gegn mótframlögum heimaaðila, sveitarfélaga og hugsanlega fleiri aðila. Sums staðar eru atvinnurekendur mjög áhugasamir um að þetta sé gert. Sums staðar er hægt að sameina flutninga vegna skólahalds, jafnvel atvinnusóknar hjá stórum vinnustöðum og síðan leysa þarfir almennings í leiðinni með því að koma slíku á. Ég hygg t.d. að á Akureyri og á Eyjafjarðarsvæðinu sé mikill áhugi á þessu, í Þingeyjarsýslum, á Árborgarsvæðinu og víðar hefur maður orðið var við að menn gætu hugsað sér að gera meira í þessum efnum en gert er í dag en það strandar á fjármununum.

Ég vildi sérstaklega gera grein fyrir þessum tveim tillögum, herra forseti, sem ég er 1. flm. að ásamt með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur í öðru tilvikinu og Kolbrúnu Halldórsdóttur og Árna Steinari Jóhannssyni í hinu tilvikinu, þ.e. um almenningssamgöngurnar.

Að öðru leyti, herra forseti, þarf ég ekki að segja meira um fjárlagafrv. og frammistöðu hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum en ég hef þegar gert við 1. og 2. umr. og áður í umræðunni. Ég held að þetta frv. muni ekki teljast tíðindafrv. þegar frá líður. Það blasir við hverjum manni hvernig verið er að rumpa saman fjárlögunum, meira að segja er staðið í bókhaldsæfingum til að lagfæra útkomuna milli ára með því að bókfæra meiri hlutann af söluhagnaði ríkisbankanna á þessu ári þó að varla verði borguð ein einasta króna fyrir þá fyrr en einhvern tíma á næsta ári. Og þetta er einfaldlega gert til þess að þetta líti aðeins betur út í bókhaldinu hjá hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjmrh.

En þegar upp er staðið er það þó sanngirnin eða öllu heldur skortur á henni í skiptahlutföllunum í þjóðfélaginu sem mestu máli skiptir. Það er kannski að lokum hin eiginlega pólitík hvernig við skiptum gæðunum og dreifum byrðunum í samfélaginu. Um það snýst pólitík að lokum þegar upp er staðið og í þeim efnum fær þessi ríkisstjórn ekki háa einkunn, það er algerlega morgunljóst hverjum manni. Hún hyglar aðilum sem eru vel aflögufærir, gefur þeim skattalækkanir í jólagjöf, eins og hátekjufólki í landinu, gróðafyrirtækjum, en sýnir lítinn lit á því að laga stöðu þeirra sem standa höllustum fæti. Slík eftirmæli mundi ég a.m.k. ekki vilja kjósa mér sem ráðamaður einnar ríkisstjórnar.