Framganga stjórnarformanns Landsvirkjunar

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 13:40:29 (2348)

2002-12-10 13:40:29# 128. lþ. 50.91 fundur 310#B framganga stjórnarformanns Landsvirkjunar# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[13:40]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Deilan um þessa virkjun hefur verið mjög hatrömm í þjóðfélaginu, því miður, en vonandi fer henni að linna. Það sem mér finnst fyrst og fremst vera athugavert við þann málflutning sem komið hefur fram að undanförnu eru afskipti alþjóðasamtaka eins og World Wildlife Fund. Við samþykktum á sínum tíma að þessi samtök yrðu áheyrnaraðilar að Norðurskautsráðinu og gerðum það með trega vegna þess að þau höfðu beitt sér gegn þorskveiðum í Norður-Atlantshafi. Þau samþykktu að falla frá því. Ég sé ekki betur en að þessi samtök hafi beitt sér gegn málinu mjög hatrammlega í samvinnu við aðila hér á Íslandi með röngum upplýsingum, m.a. gegn verktökum sem ætluðu sér að bjóða í þetta verk. Sennilega hafa einhverjir þeirra fallið frá því vegna þess að þessi alþjóðasamtök, sem eru tiltölulega vel virt, hafa komið á framfæri röngum upplýsingum sem þau hafa fengið á Íslandi. Auðvitað er þetta skemmdarstarf og menn ganga mjög langt í þessari andstöðu með þessum hætti. En aðalatriðið er að ákveðið hefur verið að byggja þessa virkjun. Það hefur verið ákveðið af Landsvirkjun, það hefur verið ákveðið af ríkisstjórn Íslands og fyrir því er mikill meiri hluti á Alþingi. Er ekki kominn tími til að leggja þetta mál til hliðar í umræðum á Alþingi og snúa sér að því að koma því í framkvæmd og að minni hlutinn hér á Alþingi sætti sig stundum við það að vera minni hluti og snúi sér að öðrum verkefnum sem ekki hafa verið ákveðin?