Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 16:31:52 (2377)

2002-12-10 16:31:52# 128. lþ. 50.6 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[16:31]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal, að ég gat um þá skoðun mína að ég liti svo á að skattleysismörkin hafi virkað sem fátæktargildra, þ.e. þau hafa verið hemill á hækkun launa. Þegar menn fara yfir skattleysismörkin greiða þeir strax tiltölulega háan skatt. Þannig er því ekki farið í flestum nágrannalöndunum. Þar greiða menn lægri skatta af lægri tekjum. Um það hef ég verið að ræða. Ég hef ekki talað í anda hv. þm. sem hefur lagt til ákveðna prósentutölu á allar tekjur. Ég hef frekar talað fyrir lægri skattþrepum á lægstu tekjununum hjá þeim sem nú greiða tekjuskatt. Ég hef ekki lagt til að breyta skattfrelsismörkunum eða hækka þau. Það er mjög kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð. Ég mundi frekar láta það standa en að hækka mörkin þarna. Ég er fullviss um að það mundi líka knýja á um hærri laun í kjarasamningum en nú er krafist.

Ég hef áhyggjur af þessum þröskuldi skattleysismarka með tiltölulega háu tekjuskattsþrepi. Ég hef áhyggjur af því að það hamli skynsamlegri niðurstöðu í kjarasamningum og að laun hækki. Það er ekki hemja hjá okkur að fullfrískur og vinnandi maður skuli ekki ná endum saman á launum sem samið er um í kjarasamningum. Það er eitthvað að því kerfi sem þannig er ástatt um.