Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 17:54:58 (2394)

2002-12-10 17:54:58# 128. lþ. 50.7 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv. 161/2002, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[17:54]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá meiri hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um fjármálafyrirtæki. Þetta er eitt af stærri málum haustþingsins og fjallar um uppstokkun á löggjöf um fjármálamarkaðinn.

Samhliða þessu frv. er annað frv. sem fjallar um verðbréfaviðskipti, og saman munu þessi tvö frv. ásamt frv. til laga um verðbréfasjóði mynda nýja heildarumgjörð utan um starfsemi fyrirtækja á fjármálamarkaðnum og um leikreglur á þessum markaði almennt séð.

Nefndin hefur fjallað um málið á allmörgum fundum og farið ítarlega ofan í það. Þeir aðilar sem fengu málið til umsagnar eru tíundaðir á nál., og eins kemur þar fram hverjir komu á fund nefndarinnar.

Þetta mál er það viðamikið að nauðsynlegt er að fara mjög vel ofan í hverja einstaka grein og velta fyrir sér hvernig hún er orðuð. Allmargar tillögur komu fram til breytinga á frv. þrátt fyrir að það væri mjög vel unnið eins og það var lagt fram. Vonandi verður niðurstaðan sú að hér sitji eftir vönduð löggjöf sem getur dugað í einhver ár.

Þessi markaður er annars á mjög mikilli ferð. Það er margt að gerast og miklar breytingar, bæði erlendis á vettvangi Evrópusambandsins sem annars staðar. Við verðum fyrir miklum áhrifum af þessum breytingum erlendis frá og þær endurspeglast yfirleitt fyrr eða síðar í löggjöf hjá okkur. Engu að síður er ýmislegt séríslenskt í okkar löggjöf og ýmislegt sem við þurfum að huga að til þess að sinna þörfum okkar fjármálamarkaðar.

Virðulegi forseti. Vonandi hefur tekist að koma öllu þessu til skila í frv. og brtt. sem hér liggja fyrir af hálfu meiri hluta efh.- og viðskn. Um málið hefur verið allgóð samstaða í sjálfu sér í nefndinni þó að ekki sé sameiginlegt nál. Ég hygg að þau atriði sem menn kann að greina á um eða hv. stjórnarandstæðingar vilja hafa öðruvísi varði mjög afmörkuð svið löggjafarinnar, og kannski fyrst og fremst sparisjóði, en það mun að sjálfsögðu koma fram í nál. og framsögum hv. fulltrúa stjórnarandstöðunnar hér.

Ég mun nú gera grein fyrir þeim brtt. sem meiri hluti efh.- og viðskn. hefur orðið ásáttur um að flytja. Þessar brtt. eru í einum 33 liðum.

Í 1. lið brtt. er fjallað um viðbót við 3. gr. frv. en í henni er fjallað um hvaða starfsemi er starfsleyfisskyld. Viðbæturnar ganga út á að telja upp þá aðila sem geta sinnt starfsemi án starfsleyfis og allt eru þetta eðlilegar upptalningar og ekki breyting í sjálfu sér frá núgildandi skipan mála.

Í 2. lið brtt. er gerð tillaga til breytinga á 4. gr., 5. gr. og 53. gr. og það er tilvísunarbreyting sem leiðir af þeirri breytingu sem verið er að gera á 3. gr.

Í 3. lið brtt. er gerð brtt. við 6. gr. og er það orðalagsbreyting.

Í 4. lið brtt. er gerð brtt. við 7. gr. þar sem líka er verið að breyta um orðalag en hefur ekki efnislega þýðingu.

Í 5. lið brtt. er gerð tillaga til breytinga á 14. gr. þar sem verið er að skýra út hugtakið ,,viðmiðunargengi`` annars vegar og hins vegar að taka það fram að ekki er ætlunin að setja þak á hvað hlutafé í rekstrarfélagi verðbréfasjóðs getur verið hátt, heldur einungis að ekki er gerð krafa um nema ákveðið hámark þar.

Í 6. lið brtt. er brtt. við 20. gr. frv. og er það orðalagsbreyting.

Í 7. lið brtt. er sömuleiðis orðalagsbreyting. Þar er gerð brtt. við 24. gr.

[18:00]

Í 8. lið brtt. er tillaga við 26. gr. frv. um breytingu þar sem notað er hugtakið ,,hlutafé`` í staðinn fyrir stofnfé, sem er eðlilegt.

Í 9. lið brtt. er orðalagsbreyting.

Í 10. lið brtt. er gerð brtt. við 28. gr. sem er einungis umorðun á því sem stendur í 1. málslið 28. gr.

Í 11. lið brtt. er verið að gera tillögur um orðalagsbreytingu á 34. gr.

Í 12. lið brtt. er gerð brtt. við 36. gr. en þar er verið að skjóta því inn að það þurfi fyrir fram að tilkynna um stofnun útibús.

Í 13. lið brtt. er sams konar breyting gerð á 37. gr. en vegna þjónustu án stofnunar útibús.

Í 14. lið brtt. er gerð tillaga til breytinga á 40. gr. þar sem bætt er inn orðinu ,,stofnfé`` í því skyni að ná yfir sparisjóðina líka en í 40. gr. er fjallað um samþykki Fjármálaeftirlitsins vegna kaupa á virkum eignarhlut. Síðan er hnykkt á því að þessi grein eigi við um sparisjóði með því að ný málsgrein bætist við sem segi að ákvæði kaflans gildi um sparisjóði eftir því sem við getur átt.

Í 15. lið brtt. er gerð brtt. við 41. gr. sem er fyrst og fremst umorðun á því sem þar stendur í frv. en hefur ekki efnislega þýðingu.

Í 16. lið brtt. er greinarheiti breytt.

Í 17. lið brtt. er tillaga um breytingu á 47. gr. þar sem tekin er út tilvísun í ákveðin hlutföll en sams konar merkingar settar inn með tilvísun í aðra grein þar sem þessi hlutföll koma fram.

Í 18. lið brtt. er gerð brtt. um 52. gr. frv. þar sem verið er að breyta orðalagi.

Síðan í 19. lið brtt. er því skotið inn að í starfsreglum stjórnar skuli fjallað um heimildir hennar til að taka ákvörðun um einstök viðskipti.

Í 20. lið brtt. er gerð tillaga um breytingu á 69. gr. Í henni er Sparisjóðabanki Íslands hf. nefndur á nafn sem er óheppilegt í lögum af þessum toga. Í brtt. nefndarinnar er gert ráð fyrir því að það sé skautað fram hjá því án þess að efnislega sé verið að breyta því sem þar kemur fram en þetta fjallar um að sparisjóðirnir geti falið sameiginlegum aðila á sínum vegum að leggja fyrir þá leiðbeinandi tillögur um vexti og þjónustugjöld enda gert ráð fyrir því að slíkt brjóti heldur ekki í bága við ákvæði samkeppnislaga.

Í 21. lið brtt. er gerð tillaga til breytinga á 70. gr. Annars vegar er það tilvísunarbreyting og hins vegar er því skotið inn að samþykki Fjármálaeftirlitsins þurfi til þess að samþykkja framsal.

Í 22. lið brtt. er gerð tillaga til breytinga á 73. gr. sem fjallar um breytingu á sparisjóði í hlutafélag. Þar er gert ráð fyrir því að ekki þurfi samþykki ráðherra heldur einungis Fjármálaeftirlitsins sem er í stíl við aðra uppbyggingu á löggjöfinni samkvæmt frv. Síðan er líka hnykkt á því að sé sparisjóði breytt í hlutafélag skuli í stað þeirra ákvæða sem eru í 61.--68. gr. og 70.--72. gr. gilda ákvæði VII. kafla þessara laga og laga um hlutafélag enda ekki öðruvísi mælt um í þessari grein. Þetta fjallar um þegar sparisjóði er breytt í hlutafélag, þetta er endurorðun á síðustu málsgreininni og hefur ekki efnislega þýðingu.

Í 23. lið brtt. er gerð tillaga til breytinga á 74. gr. Þar er verið að gera töluverðar efnisbreytingar. Eins og greinin stendur í dag gildir það að þegar sparisjóði er breytt í hlutafélag er það alveg klárt að samanlagt hlutafé sem stofnfjáreigendur fá í sparisjóðum skal nema sama hlutfalli af hlutafé hans eftir breytinguna og stofnféð nemur samkvæmt áætluðu markaðsvirði sparisjóðsins, þ.e. þegar sparisjóði er breytt í hlutafé samkvæmt núgildandi lögum, og frv. er einungis heimilað að miða við nafnvirði stofnfjárins eins og það stendur. Það á ekki að taka tillit til neins annars en þess. Í brtt. er gert ráð fyrir því að við mat á því hvað stofnfé á að fá mikið hlutafé eða hve mikið hlutafé á að koma í stað stofnfjár í sparisjóðí sem verður að hlutafélagi megi líka hafa til hliðsjónar arðsvon stofnfjárhluta annars vegar og arðsvon á áhættu hlutabréfa í sparisjóði hins vegar. Þessi tillaga er gerð fyrst og fremst í því skyni að tryggja það sem best má verða að stofnfjáreigendur verði jafnsettir fyrir og eftir breytingu í hlutafélag. Meginmarkmiðið með þessu er að tryggja að sparisjóður sem vill breytast í hlutafélag lendi ekki í því að stofnfjáreigendum finnist þeir vera verr settir við þá breytingu og fái ekki jafngilda eign í hlutafé í staðinn fyrir það stofnfé sem þeir ráða yfir. Þetta þýðir þá væntanlega að það verður greiðara um vik að stofna hlutafélög um sparisjóði eins og ætlunin var alltaf með því að heimila slíkar breytingar.

Þessi breyting gengur ekki út á það að stofnfjáreigendur eigi að eiga eitthvað meira en þeir í sjálfu sér eiga samkvæmt gildandi lögum eða eitthvað meira heldur en þeir eiga sem stofnfé í sparisjóði heldur einungis að eignin sem þeir fá sé jafngild þeirri sem þeir láta af hendi.

Síðan er í 24. lið gerð brtt. við 76. gr. þar sem kveðið er á um að Fjármálaeftirlitið skuli staðfesta samþykktir sjálfseignarstofnunar þegar sparisjóði er breytt í hlutafélag og síðan er orðalagsbreyting líka í 76. gr.

Í 25. lið brtt. er fjallað um 81. gr. Þar er gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið setji reglur í stað þess að viðskrh. setji reglugerð. Þessi grein fjallar um takmörkun fjárfestinga rafeyrisfyrirtækja og það er í stíl við uppbyggingu löggjafarinnar samkvæmt frv. að Fjármálaeftirlitið setji þá þessar reglur.

Síðan er í 26. lið brtt. fjallað um 84. gr. Þar er einungis verið að breyta um orðalag og tilvísanir.

Í 27. lið brtt. er fjallað um 85. gr. Þar eru enn fremur tilvísunarbreytingar.

Í 28. lið brtt. er fjallað um 86. gr. Þar er fjallað um að bæta inn nýjum málslið. Þetta er einungis tilflutningur á efnismálsliðnum milli málsgreina og skiptir ekki máli efnislega.

Síðan er í 29. lið brtt. gerð tillaga til breytingar á 101. grein sem fjallar um samruna fyrirtækja. Þar er umorðun á 1. málslið 1. mgr. en ekki efnisbreyting.

Síðan er í 30. lið brtt. gert ráð fyrir því að innlánsreikningar, fjárvörslureikningar og geymsluhólf skuli skráð á kennitölu ásamt nafni og heimilisfangi. Samkvæmt frv. átti krafa um kennitöluskráningu að falla niður en brtt. gerir ráð fyrir því að kennitalan komi inn aftur.

Í 31. lið brtt. er gert ráð fyrir því að hnykkja betur á hver hafi undanþágu. Fyrst og fremst er hérna fjallað um að opinberir fjárfestingarlánasjóðir sem eru starfandi fyrir gildistöku laganna þurfi ekki að vera starfræktir sem hlutafélög. Hér er átti við sjóði eins og Lánasjóð landbúnaðarins.

Í 32. lið brtt. er gert ráð fyrir tillögu til breytinga á 113. gr. Þar er skilgreiningarmál og tillagan er til komin vegna hins nýja hugtaks ,,fjármálagerningur``. Það hefur verið nokkuð á reiki hvað fjármálagerningar væru. Í eldri löggjöf er fjallað um ,,verðbréf`` sem heildarhugtak en hið nýja heildarhugtak sem rætt er um í þessum lögum er fjármálagerningur.

Í 33. lið brtt., sem er síðasti liður þeirra, er gerð tillaga sem fjallar um að koma því þannig fyrir að þessi lög geti tekið gildi um áramótin án þess að fylgifrv., sem fjallar um verðbréfaviðskipti, verði jafnframt að lögum. Lagatæknilega væri æskilegast að þessi frv. tækju gildi sem lög á sama tíma en þar sem ekki hefur unnist tími til að fara yfir frv. um verðbréfaviðskipti í nefndinni er þetta lagt til til þess að það sé engin réttaróvissa eftir áramótin um stöðu fjármálafyrirtækjanna sem slíkra.

Virðulegi forseti. Nú hef ég gert grein fyrir þeim brtt. sem meiri hluti efh.- og viðskn. gerir tillögur um vegna þessa frv. til laga um fjármálafyrirtæki. Ég vil aðeins að lokum þakka öllum nefndarmönnum fyrir mikið starf að þessu frv. Þetta hefur verið mikil vinna og nefndarmenn hafa lagt mikið á sig í málefnalegri umfjöllun um þetta mál.