Lífeyrissjóður sjómanna

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 21:40:32 (2421)

2002-12-10 21:40:32# 128. lþ. 50.10 fundur 355. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (elli- og makalífeyrir) frv. 151/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[21:40]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér erum við eina ferðina enn að ræða um stöðuna í lífeyrismálum sjómanna. Því miður er sú staða uppi enn á ný að við þurfum að takast á við það að skerða réttindi í þeim lífeyrissjóði, réttindi lífeyrisþeganna, til þess að uppfyllt verði þau ákvæði laga frá 1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sem lögð eru á hverja stjórn lífeyrissjóðs, að sjá til þess að lífeyrissjóðir eigi fyrir framtíðarskuldbindingum sínum.

Þegar kemur að því að menn þurfa að horfast í augu við slíkt eru aðeins tvær leiðir til. Leiðin sem stjórnir lífeyrissjóðanna standa oftast frammi fyrir er einfaldlega sú að menn neyðast til að skerða einhver réttindi, draga úr þeim réttindum sem sjóðir hafa verið að bjóða upp á og minnka þannig útgreiðslu sjóðsins til einhverra ára með það að markmiði að rétta stöðu hans.

Hin leiðin, sem er auðvitað fær, er sú að meira verði greitt inn í sjóðinn. Þá þarf að finna því farveg og finna fyrir því rök hvers vegna svo ætti að gera.

Það vill svo til varðandi Lífeyrissjóð sjómanna að það má finna fyrir því ýmis rök að meira yrði greitt inn í sjóðinn, m.a. af hendi atvinnurekenda. Reyndar fékk Lífeyrissjóður sjómanna á sig nokkra skuldbindingu vegna lagasetningar frá Alþingi árið 1981 sem var dæmd á sjóðinn. Þegar hinn svokallaði félagsmálapakki var samþykktur samróma hér í hv. Alþingi árið 1981 um að sjómenn ættu rétt á því eftir langa starfsævi að hefja töku lífeyris frá 60 ára aldri stóðu þeir í þeirri meiningu að sú lagasetning yrði fjármögnuð. Sá skilningur þeirra á því lá auðvitað til þess að samhliða setningu þessara laga hér í Alþingi hafði verið samið um sérstaka eftirgjöf í fiskverði upp á 2--3% til að leysa ákveðnar verðlags- og launadeilur sem voru þá í gangi. Í staðinn var litið svo á að lögfesting 60 ára reglunnar, eftir langan starfsaldur til sjós, væri nokkurs konar félagsmálapakki. Félagsmálapakkar höfðu þá tíðkast með ýmsum aðferðum, eins og sumir muna vafalaust, í formi ýmissa fyrirgreiðslna eins og orlofsíbúða og annars slíks.

[21:45]

Niðurstaðan varð þessi hér á hv. Alþingi árið 1981. Alla tíð síðan hafa sjómannasamtök, saman eða hvert í sínu lagi, reynt fá því framgengt að lífeyrissjóðnum yrðu markaðar einhverjar tekjur á móti þessari reglu. Því miður tókst það aldrei. Þó má kannski segja að ríkissjóður hafi viðurkennt einhvers konar greiðsluábyrgð á þessu loforði með því að ráðstafa nokkrum sinnum, tvisvar, þrisvar sinnum hygg ég, fjármunum úr svokölluðum gengismunarsjóði inn í Lífeyrissjóð sjómanna. Sjómenn litu svo á að nokkur vilji væri til að greiða úr þeim vanda sem fylgdi því og var lagður á aðra sjóðfélaga í sjóðnum. Ekki var gert ráð fyrir því í stigainnvinnslunni og síðar útgreiðslunni að sjómenn sem færu á lífeyri 60 ára tækju hann skertan, eins og nú er og komið var á með með lögum árið 1999. Núna er uppröðunin á því nokkuð breytt, og reglan í raun gerð algjörlega almenn. Samkvæmt því frv. sem hér er um að ræða eiga allir sjómenn rétt á að hefja töku lífeyris frá 60 ára aldri. En miðað við tryggingafræðilegar forsendur og útreikninga eiga sjómenn, miðað við lífslíkur til 80 ára aldurs, að vera nokkuð jafnsettir, þ.e. þeir sem hæfu töku lífeyris 65 ára annars vegar og 60 ára hins vegar ættu að vera búnir að taka svipaða upphæð út úr sjóðnum um áttrætt.

Þeir sem hefja töku lífeyris 60 ára taka samkvæmt þessu á sig ákveðna skerðingu. Hún er formuð hér eftir ákveðnum reglum. Síðan er búið að forma reglu um að ef menn fresta töku lífeyris fram yfir 65 ára aldur þá vinni þeir sér inn hlutfallslega meiri greiðslu á hverju ári fram til 70 ára aldurs. Þessa reglu er búið að útfæra þannig að hún er algjörlega á ábyrgð sjóðsins. Eftir stendur sá uppsafnaði vandi sem hlaust af þessum rétti sem veittur var með lögum. Menn töldu að hann yrði fjármagnaður af ríkinu en það var ekki gert. Samanlagður vandi sjóðsins af þessum sökum er um 1,4 milljarðar kr. Sá pakki hefur allur verið tekinn af lífeyrisþegum í sjóðnum, aðrir gátu ekki borgað það. Þær skuldbindingar voru teknar úr sjóðum lífeyrissjóðsins.

Svo langt gekk þessi trú sjómanna á að þeir ættu þennan rétt að þeir fóru í mál við ríkið til að ná honum en töpuðu því miður málinu fyrir Hæstarétti. Ég verð að segja að ég er afar ósáttur með að þannig skyldi fara. Ég taldi og hef ævinlega talið að miðað við forsögu þessa máls hefði Alþingi bakað sér nokkra ábyrgð og lagt ákveðnar skyldur á herðar ríkisins með einróma samþykkt sinni árið 1981. Hvað um það? Þetta er eitt af þeim vandamálum sem lagst hafa á sjóðinn og hefur ekki létt byrði hans á undanförnum árum.

Menn stóðu frammi fyrir því árið 1999 að þurfa að skerða réttindi í Lífeyrissjóði sjómanna. Þá urðu um það miklar deilur, að taka þyrfti á vandamálinu með þeim hætti. Ég minnist þess að í þeirri umræðu var iðulega sagt að ef menn gengju þessa leið, menn þóttust auðvitað hafa tölfræði, tryggingafræðinga og stærðfræðinga fyrir því, þó erfið væri og ylli miklum deilum innan sjómannasamtakanna, mundi varla þurfa að höggva aftur í sama knérunn og skerða réttindin frekar. Ef ég man rétt var samið um það sérstaklega að 0,5% af þeirri 12% skerðingu sem þá var sett í lög kæmi ekki öll til framkvæmda. Hálft prósent af þessari skerðingu kom til framkvæmda nokkru síðar, að mig minnir á árinu 2000. Þar að auki var skerðingin látin taka gildi í ákveðnum þrepum. Það var auðvitað stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna sem ákvað að standa þannig að verki.

Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir því vegna lélegrar ávöxtunar Lífeyrissjóðs sjómanna að hann á ekki fyrir skuldbindingum sínum, halli sjóðsins er 8,8%. Ljóst er að rúmlega 7,5 milljarða vantar upp á að Lífeyrissjóður sjómanna geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt í lok ársins 2001. Enn á ný standa menn frammi fyrir því að þurfa að takast á við skerðingu. Þetta frv. gengur út á það.

Því miður eiga sjómannasamtökin enga aðra möguleika í þessu máli né fulltrúar þeirra í stjórn lífeyrissjóðanna en þá að mæla með því að þessi leið verði farin. Ég hygg að miðað við að það þurfti að skerða þessi kjör hafi menn kannski valið að fara þá leið sem taldist ásættanlegust af þeim leiðum sem menn töldu kost á að fara. Þó að hér sé verið að breyta bótaréttindum er samt verið að breyta þeim með því að fara í svipað far og í nokkrum öðrum lífeyrissjóðum sem sjómenn eru tryggðir í, t.d. Lífeyrissjóði Vestfirðinga og fleiri lífeyrissjóðum. Þeir sjóðir hafa sambærileg ákvæði og við erum hér að lögfesta.

Til að minna á þann rétt sem ég vék að áðan varðandi 60 ára regluna þá er það þannig að lífeyrir manns sem hefur töku lífeyris við 60 ára aldur skerðist um 33%. Ef hann frestar því til 61 árs bætast við réttindi hans 5,4%. Fresti hann því til 62 ára bætast enn við réttindi hans 6%. Fresti hann því til 63 ára bætast enn við réttindi hans 6,6%, og fresti hann því til 65 ára aldurs bætast við réttindin 7,2%.

Eigi menn síðan kost á að fresta töku lífeyris fram yfir 65 ára aldur vinna þeir sér inn prósentur umfram viðmiðunarréttindin, miðuð við 65 ár. Þá hækkar lífeyririnn í þrepum, fyrst um 9% milli 65 og 66, síðan um 9,6 frá 66 upp í 67 ára, um 10,2% frá 68 og upp í 69 og loks um 10,8%. Þetta er sá skali sem menn hafa búið til til að jafnvirða 60 ára regluna og gefa öllum sjómönnum kost á að hefja töku lífeyris við 60 ára aldur.

En hvers vegna skyldu menn hafa barist fyrir því að sjómenn hæfu töku lífeyris við 60 ára aldur? Jú, það var vegna þess að menn töldu starfið erfitt. Það reyndi mikið á sjómenn og það er reyndar staðfest í þeim tölum sem við höfum varðandi örorkuþáttinn. Það eru aðallega tveir þættir sem valda því að sjómenn lenda í að verða öryrkjar, þ.e. eru ekki lengur starfshæfir. Í fyrsta lagi þegar stoðkerfið bregst, þ.e. liðir, leggir, hendur og fætur. Bakið getur gefið sig og það er auðvitað vegna álagsins úti á sjó. Menn á aldrinum 50--60 ára sem stundað hafa sjómennsku frá unga aldri hafa jafnvel fundið til þessara einkenna. Í öðru lagi fylgir auðvitað slysahætta sjómannsstarfinu. Þetta eru tvær meginástæður þess að sjómenn verða svo oft öryrkjar. Þess vegna er byrði Lífeyrissjóðs sjómanna svo mikil sem raun ber vitni, þ.e. 43% greiðsluskylda út á örorkuþáttinn einan og sér meðan meðaltal sjóðanna, þ.e. 54 sjóða, er 16%.

Það er því alveg ljóst hvernig Lífeyrissjóður sjómanna vinnur að þessu leyti. Hann virkar eins og tryggingafélag fyrir útgerðina. Það er ekki hægt að draga neina aðra ályktun. Við vitum að þessir annmarkar fylgja sjómannsstarfinu, annars vegar mikið álag á stoðkerfi líkamans og hins vegar mikil slysahætta. Hvor tveggja þessara ástæðna er stór þáttur í því að örorkan tekur svo drjúgan skerf úr Lífeyrissjóði sjómanna. Hið sama má reyndar segja um nokkra aðra lífeyrissjóði sem hafa sjómenn innan sinna vébanda, m.a. Lífeyrissjóð Austurlands, Lífeyrissjóð Vestmanneyja, Lífeyrissjóð Bolungarvíkur með 40% og Lífeyrissjóð Vestfirðinga með 37%, svo eitthvað sé nefnt. Þannig er alveg ljóst hvernig vandamálið liggur.

Ég hef, herra forseti, í nokkur skipti flutt frv. um að útgerðarmenn tækju á sig nokkurn hluta af umbótum í Lífeyrissjóði sjómanna, þ.e. að útgerðarmenn greiddu um 2% ofan á framlög sín í lífeyrissjóðinn en sú inngreiðsla myndaði ekki réttindi fyrir viðkomandi launþega. Þetta væri framlag útgerðarmanna inn í lífeyrissjóðinn, markað með þessum hætti sem hlutfall af þeim launatekjum sem þeir greiða. Það vill svo til að launatekjur útgerðarinnar eru hlutfall af heildartekjum hennar. Sjómennirnir eru almennt á hlutaskiptum og þar af leiðandi yrðu þessi 2% hlutfall af tekjum útgerðarinnar í heild. Ég veit ekki hvernig menn ættu að dreifa þessari byrði öðruvísi en sem hlutfalli af tekjum. Aflabrögð mynda jú tekjugrunninn og aflabrögð mynda vinnuna og vinnuálagið. Ég held að það hljóti að vera rétt. Eigi að fá útgerðarmenn til að greiða inn í lífeyrissjóðina, m.a. til að létta á örorkubyrðinni og skuldbindingum sjómanna þannig að við séum ekki alltaf á tveggja og þriggja ára fresti með frumvörp til að skerða réttindi þeirra, þá væri það hægt með þessum hætti.

Ég hef heyrt þá hugmynd nefnda að rétt væri að taka hluta af því sem á vantaði í Lífeyrissjóð sjómanna í gegnum svokallað auðlindagjald eða gjaldtöku af útgerðarmönnum fyrir að nýta auðlindina. Ég sé í raun engan mun á milli þeirrar leiðar og minnar. Þar væru menn að greiða af þeim aflaheimildum sem þeir nota og það vill svo til að aflaheimildirnar eru yfirleitt í hlutfalli við tekjurnar sem menn afla. Ég hygg að það mundi koma nokkuð svipað niður gagnvart útgerðunum.

Ég hefði talið, herra forseti, einfaldast að útfæra þetta þannig að ákveðin inngreiðsla, ákveðin prósenta, sem ég hef lagt til að væru 2%, kæmi ofan á greiðslutillag útgerðarmanna. Sú inngreiðsla myndaði ekki réttindi hjá lífeyrisþegunum heldur væri þetta eingöngu til að styrkja sjóðsmyndunina sem síðar gæti þá orðið til að koma í veg fyrir að stöðugt þurfi að skerða réttindi sjóðfélaga vegna takmarkaðrar eignamyndunar í sjóðnum. Þetta væri jafnframt viðurkenning útgerðarmanna á því að vegna áhættu og líkamsálags við sjómannsstarfið bæru þeir nokkra ábyrgð. Þetta væri viðurkenning þeirra á því að tryggingaþátturinn, örorkan sé þeim ekki alveg óviðkomandi.

[22:00]

Ég tel að ef þetta á að vera með því lagi sem við höfum staðið frammi fyrir í tvígang, að skerða réttindin með fárra ára millibili, þá verði ekki undan því vikist fyrir sjómannasamtökin að krefja útgerðina með einhverju móti um annars konar tryggingar út af örorkuþættinum. Þá eru menn komnir með þá kröfu inn í kjarasamninginn eða til hliðar við hann og ég veit ekki hvort nokkuð er betra að leysa það þar heldur en að leysa það bara hreinlega með inngreiðslu í lífeyrissjóðinn.

En það er alveg ljóst að mínu viti að samtök sjómanna sætta sig ekki við það í framtíðinni að svona mikil kvöð liggi á lífeyrissjóðnum varðandi örorkuþáttinn, sem má rekja til starfsins og er starfstengd áhætta. Þeir hljóta að gera kröfu til þess í framtíðinni að þetta verði með einhverjum hætti borið meira uppi af útgerðinni og að Lífeyrissjóður sjómanna að þessu leyti beri ekki meiri áhættu varðandi örorkuþáttinn en aðrir lífeyrissjóðir að meðaltali, kannski 16--20%. Ég held að það hljóti að koma upp.

Það sem við erum að gera nú með því að lögfesta það sem stjórn lífeyrissjóðsins biður um og á ekki annarra kosta völ í þeirri stöðu sem hún er í, einfaldlega vegna þess að ekki eru nema tvær leiðir til að laga stöðu sjóðsins. Önnur er að skerða réttindin, og það er það sem stjórn lífeyrissjóðsins hefur vald á og sjómannasamtökin sem standa að stjórn lífeyrissjóðsins, og hin er að auka tekjurnar. Þar stoppar málið á fulltrúum útgerðarmanna. Þeir eiga líka aðild að sjóðstjórninni en taka ekki undir það að útgerðin eigi að auka greiðslurnar inn og samtök útgerðarmanna hafa heldur ekki tekið undir það. Menn segja því sem svo: Við komumst hjá því að taka á okkur þessa ábyrgð svo lengi sem hún verður ekki annað hvort dæmd á okkur eða sett á okkur með lögum.

Nema svo mundi vilja til að samtök útgerðarmanna sæju nú sanngirnina og réttlætið í því að Lífeyrissjóður sjómanna beri ekki þennan þátt örorkunnar með þeim hætti sem verið hefur á undanförnum árum og kysu þá leið að semja um þetta.

Ég hef hins vegar talið að það frv. sem ég hef lagt hérna fram um tímabundna inngreiðslu útgerðarmanna, sem mundi vara a.m.k. í fimm ár og félli þá síðan niður ef menn ekki semdu um annað fyrirkomulag, væri áfangi í því að taka á þeim vanda sem við nú stöndum frammi fyrir um það að alþingismenn setji hér sérstök lög um skert réttindi lífeyrisþega í Lífeyrissjóði sjómanna.

Auðvitað má segja sem svo að ef Lífeyrissjóður sjómanna hefði verið með sérstaklega góða ávöxtun á sínu fé, verulega góða ávöxtun umfram svokallaða nafnvexti, þ.e. að verið væri að auka rauneign sjóðsins hreinlega með ávöxtun eins og reyndar hefur gerst í Lífeyrissjóði sjómanna, að stundum hefur tekist vel til að ávaxta það fé þó að það hafi tekist illa síðustu tvö, þrjú árin, þá hefði sjálfsagt verið hægt að horfa til þess með langtíma góðri ávöxtun að menn hefðu ekki þurft að grípa til skerðingarákvæðanna. En það er bara engin trygging fyrir því að menn eigi til þess von að langtímaávöxtun á fjármunum beri uppi þá kvöð sem lögð er á Lífeyrissjóð sjómanna, m.a. með örorkunni, ég held að það sé alveg borin von að ætlast til þess.

Enda má líka spyrja á móti: Eiga menn þá ekki að njóta þeirra ávaxta ef þeir eru svo heppnir að lífeyrissjóðir ávaxta fé sitt mjög vel, alveg eins og menn þurfa að bera þann skaða þegar illa tekst til við ávöxtun sjóðanna? Ég held að þannig eigi það að vera, menn verða að taka því að bera skaða af lélegri ávöxtun eins og að bera ávinning af góðri ávöxtun og það eigi ekki beinlínis að treysta á þann þátt málsins til að fjármagna sérstaklega afbrigðileg dæmi eins og örorkuþáttinn í Lífeyrissjóði sjómanna.

Þess vegna, herra forseti, er hægt að segja það í stuttu máli í lokin að ég sé bara enga aðra leið, ef menn ætla á annað borð að komast hjá því í framtíðinni að vera áfram í því að skerða af og til lífeyrisréttindi sjómanna en að tekið sé á þessum örorkuþætti. Það verður að gerast, herra forseti. Ef menn vilja ekki fallast á að gera það eftir þeirri aðferð sem ég hef lagt til, að útgerðarmenn greiði 2% af greiðslu launagreiðanda sem renni til lífeyrissjóðsins og efli þar eignastöðu sjóðsins, þá eiga menn ekki aðra aðferð en að sækja sérstaklega á varðandi þá sérstöðu sem sjómenn eru í með lífeyrismál sín varðandi örorkuþáttinn. Þá eru menn komnir að starfsáhættunni og starfsálaginu við sjómannsstarfið og það verður auðvitað ekki þannig að það verði borið uppi af sjómannastéttinni einni. Allir atvinnurekendur þurfa að tryggja starfsmenn sína og ef eitt starf er með þeim hætti að það valdi mönnum meiri skaða en önnur störf svo að verulega munar, eins og í þessum tryggingapakka hvað varðar örorkuna, þá hljóta menn auðvitað að segja sem svo: Við hljótum að sækja þann tryggingaauka til atvinnurekenda, a.m.k. að hluta til, en ekki að hafa þetta eins og er í dag að Lífeyrissjóður sjómanna sem er sameignarsjóður þeirra sem í sjóðinn greiða, sameignarsjóður á fé sjómanna, beri uppi þennan starfstengda og áhættutengda kostnað. Menn hljóta að horfa á það með þeim hætti, herra forseti. Ég mundi leggja það til að frekar yrði sest við það að reyna að leysa þetta með samkomulagi og lagasetningu í kjölfarið við útgerðarmenn heldur en að bíða þess að um þetta verði stórkostleg átök og deilur því að til þess hlýtur að draga í framtíðinni. Menn munu ekki sætta sig við að þetta gangi svona.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mikið lengra mál að þessu sinni um stöðu í lífeyrismálum sjómanna. Það er leitt að þurfa að gera það sem við hv. þingmenn stöndum frammi fyrir að þurfa að gera, þ.e. að skerða réttindin en ég tel hins vegar að stjórn lífeyrissjóðsins hafi valið þá aðferð sem mildilegust getur verið í þessu efni og þess vegna mun ég, eins og árið 1999, styðja það að fara þessa leið, hversu umdeild sem hún er og hvernig svo sem menn líta á það. En ég mun auðvitað, eins og ég hef lýst yfir í máli mínu, einnig styðja það mjög fast og sækjast eftir því m.a. að menn sameinist um að taka á þeim vanda sem ég hef hér verið að lýsa og aðrir hafa reyndar komið inn á í máli sínu. Ég held að það sé mikil nauðsyn, herra forseti, og það sem meira er, ég held að okkur alþingismönnum væri sómi að því að gera það, að standa fyrir því að leysa þetta mál. Og ég held að íslenskum útgerðarmönnum væri líka sómi að því að koma að slíkri lausn í stað þess að neita ævinlega að taka þátt í eðlilegri lausn mála eins og mér finnst vera full rök fyrir í þessu máli.