Íslenskt táknmál

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 15:35:54 (2486)

2002-12-11 15:35:54# 128. lþ. 52.7 fundur 403. mál: #A íslenskt táknmál# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[15:35]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur orðið um þetta mikilvæga mál. Hún er auðvitað lýsandi fyrir þann velvilja sem málefni heyrnarlausra eiga á Alþingi og úti í samfélaginu. Stjórnmálaflokkarnir hafa ályktað um málefni heyrnarlausra og við viljum öll standa saman um að mannréttindi heyrnarlausra séu tryggð. Til marks um það eru líka orð hæstv. menntmrh. sem talaði hér áðan. En það verður samt að segja það eins og er, herra forseti, að það er ekki hægt að láta mannréttindi heyrnarlausra stranda á svona fáránlegum hlutum eins og því að deila um það í tíu ár hver eigi að greiða kostnaðinn af túlkaþjónustunni. Við getum ekki látið mannréttindi heyrnarlausra vera fyrir borð borin í kerfinu með því að láta hlutina stranda á slíkum hlutum.

Í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna eiga mannréttindi heyrnarlausra að vera tryggð eins og mannréttindi annarra þegna samfélagsins, sömuleiðis í stjórnarskrá okkar Íslendinga. Við verðum að fara að láta verkin tala. Við þurfum ekki fleiri nefndir. Við þurfum ekki fleiri skýrslur. Við þurfum bara aðgerðir. Heyrnarlausir hafa talað við hvern menntmrh. á fætur öðrum sem allir hafa tekið málum þeirra afar vel og ætlað að gera eitthvað í málunum, ætlað að beita sér. Nú skora ég, herra forseti, á hæstv. menntmrh. Tómas Inga Olrich að láta verkin tala og það fljótt því að sá dráttur og seinagangur sem orðið hefur á því að leysa þessi mál er orðinn okkur til skammar. Ég treysti því að hæstv. menntmrh. láti verkin tala hratt.