Flugvallarskattar á Keflavíkurflugvelli

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 16:16:55 (2501)

2002-12-11 16:16:55# 128. lþ. 52.6 fundur 275. mál: #A flugvallarskattar á Keflavíkurflugvelli# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[16:16]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ferðaþjónustan og koma ferðamanna til landsins er órjúfanlega tengd Keflavíkurflugvelli þar sem langflestir ferðamenn stíga sín fyrstu skref á íslenskri grundu eftir flug til landsins.

Ellefti september 2001 var mikið áfall fyrir allt flug í heiminum og ferðaþjónustuna um leið og hefur ekki enn verið bitið úr nálinni með þau ósköp. Af hálfu stjórnvalda hér á landi var gripið til ýmissa aðgerða til að mæta þessu áfalli, m.a. með 200 millj. kr. kynningarátaki sem hæstv. samgrh. stóð fyrir. Að mínu áliti var þetta mjög góð aðgerð sem skilaði miklum árangri. Sá hluti hennar sem ég þekki sérstaklega og lýtur að kynningu innan lands hefur gefið ferðaþjónustunni tækifæri til að auglýsa starfsemi sína fyrir landsmönnum. Ferðamálasamtök höfðu þar forustu með höndum ásamt Ferðamálaráði og samgrn. Þessi kynning kom sér afskaplega vel og ég held að hún hafi orðið til þess að ferðir landans innan lands urðu meiri og markvissari en oft áður. Það bætti upp það tap sem varð vegna komu færri erlendra ferðamanna. Kynning erlendis hefur einnig skilað sér eftir því sem ég heyri á ferðaþjónustufólki víðs vegar um landið.

Eitt af því sem hefur áhrif á komu ferðamanna til landsins er kostnaður. Kostnaður við komu flugvéla, m.a. flugvallarskattar, hefur áhrif þar á eins og dæmin sanna. Þessir skattar er t.d. mjög háir hér á landi ef við miðum við flugvallarskatta á samkeppnisflugvöllum okkar eins og í Kaupmannahöfn, í Frankfurt og í París svo að einhverjir sé nefndir. Því er að mínu áliti full ástæða til að skoða hvort skattlagningin hér sé ekki farin að skaða ferðamannastrauminn til landsins og jafnvel ýta frá okkur möguleikum sem felast í því að fá önnur félög, fá lággjaldaflugfélög eða önnur flugfélög til þess að landa hér með ferðamenn, sérstaklega í leiguflugi eða í beinu áætlunarflugi. Af þeim ástæðum, herra forseti, hef ég lagt fyrir hæstv. samgrh. eftirfarandi fyrirspurn sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,1. Telur ráðherra að háir flugvallarskattar á Keflavíkurflugvelli dragi úr komu ferðamanna til landsins?

2. Hvernig telur ráðherra best að bregðast við fækkun ferðamanna til landsins?

3. Hefur auglýsingaherferð ráðuneytisins og Ferðamálaráðs utan lands og innan skilað tilætluðum árangri?``