Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 18:26:09 (2516)

2002-12-11 18:26:09# 128. lþ. 53.1 fundur 444. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla, beingreiðslur) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 128. lþ.

[18:26]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er svo um hæstv. landbrh. að sannleikanum verður hann sárreiðastur. Hann á afskaplega erfitt með að taka þessari gagnrýni á landbúnaðarstefnuna, þeim staðreyndum sem ég hef hér dregið upp: fátækt bænda, sérstaklega sauðfjárbænda; hið verndaða landbúnaðarkerfi á Íslandi og hið háa matarverð hér á landi miðað við önnur lönd. Það eru margar ástæður fyrir háu matarverði. Það veit hæstv. ráðherra nákvæmlega jafn vel og ég.

Hann ver hér gjaldþrota kerfi eina ferðina enn. Mér finnst hins vegar miður að þegar ég ræði efni þessa frv. í meginatriðum og reyni að leggja til leiðir til skynsamlegrar afgreiðslu mála þá skuli hann ekki taka undir þær og fara í efnislega umræðu um það sem lagt er til. Hvað á það að þýða að setja hér fram frv. með þáttum sem þarf ekki að lögfesta fyrir áramót? Ég hefði gjarnan viljað fá skoðun hæstv. ráðherra á þeirri gagnrýni sem ég kom fram með en hann kýs að festa sig í gömlum varnarræðum fyrir þetta sorglega kerfi.

Mér finnst grátlegt að horfa til þess að landbúnaður á Íslandi skilar 1,6% til verðmætasköpunar hér á landi. Afraksturinn hefur lækkað verulega og er upp á prósentu hið sama og stuðningur hins opinbera, beinn og óbeinn stuðningur til atvinnugreinarinnar. Það er illa komið fyrir þessari merku atvinnugrein sem er svo mikilvæg, sérstaklega í sveitum landsins. Það er sorglegt hvernig komið er fyrir þeirri verðmætasköpun, hve lítil verðmæti eru sköpuð þar og við þurfum að komast út úr þeim vítahring.

Ég hef reynt að benda á þetta (Forseti hringir.) m.a. með alþjóðlegum samanburði en það er afskaplega erfitt að ræða þessi mál við hæstv. ráðherra.