Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 20:49:39 (2650)

2002-12-12 20:49:39# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[20:49]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við höfum til umfjöllunar frv. til laga um stofnun hlutafélags um Norðurorku þar sem heimla á Akureyrarbæ að stofna hlutafélag um rekstur Norðurorku er nefnist Norðurorka hf.

Áður en ég hef mál mitt efnislega, virðulegi forseti, vil ég minna á að á sama tíma í fyrra komu fulltrúar borgarstjórnar Reykjavíkur inn í þingið með breytingar á formi Orkuveitu Reykjavíkur þar sem fyrirtækið var gert að sameignarfélagi sveitarfélaganna hér á svæðinu, en eins og kunnugt er afhenti Orkuveita Reykjavíkur orku til margra aðila.

Ég vil líka koma inn á að það var hárréttur undirtónn í andsvari hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að auðvitað hangir þetta mál allt saman við önnur hugsanleg áform þó að þau séu ekki komin upp á borðið. Það vita allir sem fjalla um þessi mál að það eru þreyfingar um hugsanlegar breytingar t.d. á Rarik og hugsanlega samvinnu við Norðurorku og Orkubú Vestfjarða. Það er öllum ljóst. Þetta er náttúrlega sú gulrót sem bæjarstjórn Akureyrar sér í málinu og vill þar með vera undirbúin undir einhvers konar samningamöguleika á grunni þess að Norðurorku sé breytt í hlutafélag. Ég held að best sé að ræða þessi mál algjörlega hreint út.

Ég vil líka átelja hæstv. ráðherra, virðulegi forseti, fyrir hve illa er staðið að þessu máli. Þetta er svo stórt mál að það er vanvirða við þingið og nefndina, hæstv. iðnn., að þurfa að taka á þessu máli í svo miklu írafári sem raun ber vitni vegna þess að hér er mjög margt sem þarf athugunar við. Ég hefði haldið að það hefðu verið hæg heimatökin fyrir hæstv. ráðherra til að vinna tíma að kalla t.d. forsvarsmenn Norðurorku á fund iðnn. og gera henni grein fyrir hugmyndum þeirra þó svo að málið hafi ekki verið komið til nefndar. Það hefði alveg verið fær leið, eða jafnvel að iðnn. hefði farið norður og skoðað málið í því samhengi. En það hefur ekki verið gert.

Hér er gríðarlega mikið mál á ferðinni. Þarna hanga saman í raun og veru þrjú fyrirtæki. Það er rafveita bæjarsins, hitaveita bæjarsins og vatnsveita bæjarins. Þetta eru því ekki einföld mál.

Norðurorka er samsett af þeim þremur fyrirtækjum. Það er alveg augljóst eins og fram kemur í 3. gr. að tilgangur Norðurorku hf. á að vera vinnsla og framleiðsla á raforku, varma, vatns og hvers konar annarra auðlinda. Samkvæmt 3. gr. er verið að skapa grunn, gríðarlega sterkan efnahagslegan grunn til þess að sækja fram á hinum ýmsu sviðum.

Ég hefði viljað vita hvaða önnur áform menn hafa, t.d. hvað varðar vinnslu, heldur en bara þessa þrjá þætti sem núna eru inni í fyrirtækinu. Fyrirtækin voru stofnuð til að skaffa kalt vatn, heitt vatn og rafmagn og lýsa upp bæinn. Hér er því verið að leggja upp með mjög miklar breytingar og víðar heimildir fyrir þetta fyrirtæki.

Það er hollt í þessu sambandi að rifja upp sögu Hitaveitu Akureyrar sem á fyrstu árum átti í mjög miklum erfiðleikum vegna þess að orkuöflun í Eyjafirði var dýr, hún var erfið. Miklar boranir þurftu að eiga sér stað og Hitaveita Akureyrar var mjög dýr til notenda um langt árabil. Það er fyrst núna á síðustu árum að bæjarbúar eru farnir að eygja þann möguleika að orkuverð geti lækkað verulega vegna þess að rekstur veitunnar hefur um allnokkur ár gengið skaplega og í raun og veru hefur orkuverð lækkað. Breytingar af þeim toga að gera fyrirtækið að hlutafélagi án kannski sögulegs samhengis af þessu tagi, þar sem bæjarbúar sættu sig við hátt orkuverð um tíma í voninni um að fá lækkun orkuverðs í framtíðinni, hefðu að mínu mati þurft að ræðast miklu betur.

Síðan kemur atriði í 5. gr. sem svo sannarlega er tilefni til að staldra við og það er að ,,Norðurorka hf. tekur við einkarétti Akureyrarbæjar og Norðurorku til starfrækslu hita- og rafveitu og yfirtekur skyldu Akureyrarbæjar til starfrækslu vatnsveitu á Akureyri. Norðurorka yfirtekur þá samninga sem gerðir hafa verið um vatnssölu eða rekstur vatnsveitu í öðrum sveitarfélögum.``

Samkvæmt frv. á að afhenda Norðurorku vatnsveituna. Ég efast um að það sé löglegt og ég vil fá betri skýringar á því. Ég get vel ímyndað mér að bæjarstjórn Akureyrar gæti gert samning við eitthvert fyrirtæki úti í bæ, ekki endilega Norðurorku um rekstur vatnsveitunnar, en bæjarsjóður verður samkvæmt lögunum að vera eignaraðili og sjá um afhendingu á köldu vatni til allra. Mér finnst því þetta ákvæði í frv. mjög óskýrt og mundi vilja fá miklu nánari og betri skýringu á því hvað menn eru að hugsa þarna.

Í 6. gr. kemur síðan fram að: ,,Stjórn Norðurorku hf. setur gjaldskrár um verð á seldri orku og vatni til notenda. Gjaldskrár fyrir sölu á rafmagni og heitu vatni öðlast eigi gildi fyrr en þær hafa verið staðfestar af iðnaðarráðherra og birtar í Stjórnartíðindum.``

Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum og það lýtur að því sem ég var að tala um áðan um von bæjarbúa á Akureyri að sjá fram á lækkandi orkuverð. Hér er ekkert tekið mið af sögu Hitaveitu Akureyrar þar sem Akureyringar um langt árabil, eins og ég sagði áðan, borguðu mjög hátt orkuverð fyrir hita og gerðu sér vonir um að sjá fram á lækkun á hitaveitunni og hafa reyndar notið þess núna allnokkur síðustu missiri. En í 6. gr. segir: ,,Gætt skal almennra arðsemissjónarmiða við setningu gjaldskrár. Gjaldskrá vatnsveitu skal byggð á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991.``

Ég tel þarna mjög stórt mál á ferðinni. Ég held að í sögulegu samhengi sé almenningur á Akureyri ekki spenntur fyrir því að gætt sé almennra arðsemissjónarmiða eins og gerast á markaði, vegna þeirrar háu gjaldskrár sem almenningur bjó við um langt árabil. Það er ástæða til að láta menn njóta lægri gjaldskrár og fara ekki endilega í hámarksarðsemissjónarmið eins og veitan hefur hingað til ekki gert. Það liggur alveg á borðinu.

Mér finnst því, virðulegur forseti, mjög margt í frv. sem þarf að skoða. Mér finnst algjörlega óásættanlegt að nefndarmenn fái ekki mjög góða yfirferð frá þeim sem standa að máli, málsaðilum heima fyrir og þá líka starfsmönnum. Enda þótt langur kafli sé í frv. þar sem fjallað er um hver réttindi og hverjar skyldur starfsmanna eru þá þarfnast þetta mál sannarlega yfirferðar.

Virðulegi forseti. Ef þessi formbreyting er undanfari þess að búa til stórfyrirtæki úr Rafmagnsveitum ríkisins, Orkubúi Vestfjarða og Norðurorku, þá er það stórmál sem nefndin þarf að ræða líka. Það er ekki hægt að fara í svona mál, fet fyrir fet, þegar menn eru með uppi á borðum hugmyndir um, og það er ekkert launungarmál, að gera allt, allt annað í framhaldinu. Þess vegna er hjá okkur í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði hörð andstaða við þessa formbreytingu núna, vegna þess að við erum ekki að því er ég fæ best séð bara að tala um formbreytingu. Það er ekki það sem hangir á spýtunni. Bæjarstjórn Akureyrar er augljóslega að skapa sér verkfæri eða tæki með því að fara með þetta frv. hér í gegnum hæstv. iðnrh. Þetta er greinilega undirbúningur undir eitthvað annað. Það liggur augljóslega fyrir.

Við erum búin að fara í gegnum þessi mál öll sömul hér í þinginu, sérstaklega af hendi framsóknarmanna þegar talað var um hlutafélagavæðingu ríkisfyrirtækja svo sem eins og banka, að þetta væri bara spurning um formbreytingu, síðan mundi vera staldrað og við og það ætti ekkert annað að breytast. Það er svo augljóst að von manna stendur til þess að í framhaldinu verði hægt að ganga lengra og þá er það spurningin um Rarik og Orkubú Vestfjarða.

[21:00]

Það er kaldhæðnislegt að þessi nýja orkutilskipun sem við erum að dansa í kringum á hinu háa Alþingi fer í þveröfuga átt við þá hugsun sem er hér í gangi, þ.e. þessa framhaldshugsun. Ég veit ekki betur en að það sé meginstefið að það eigi að stuðla að samkeppni á orkumarkaði þannig að hlutir verði sýnilegir, að það sé markmiðið. Hér er verið að fara í þveröfuga átt ef við ætlum að fara inn í eitthvert stórt púkk með Norðurorku, Orkubúi Vestfjarða og Rarik í framhaldi af þessari lagasetningu. Sá grunur læðist að manni að vegna stóriðjuframkvæmda og stóriðjuuppbyggingaráforma hæstv. ríkisstjórnar sé kannski heppilegt að ekki séu mjög mörg sjálfstæð fyrirtæki sem eitthvað kveður að í orkugeira í landinu að þvælast fyrir. Ef illa fer, ef stórframkvæmdir borga sig ekki og landsnetið og almenningur og fyrirtækin hér í landinu þurfa á einhvern hátt að draga hlassið, er það augljóst að allur samanburður er mjög óheppilegur, hvort sem samanburðurinn kemur frá Orkubúi Vestfjarða, Rarik eða Norðurorku. Menn vilja hafa þetta allt á einni hendi svo hægt sé að vera með samræmdar áætlanir um það hvernig hlutum er stillt saman.

Það er þetta, virðulegi forseti, sem ég vil einkum draga fram hér í byrjun þessarar umræðu um frv. til laga um stofnun hlutafélags um Norðurorku. Ég held að ekki hefði komið fram ósk um þetta frv. frá bæjarstjórn Akureyrar ef menn gerðu sér ekki vonir um að eitthvert slíkt framhald yrði og að væntanlegt hlutafélag yrði nýtt til þes að fara í einhvers konar sameiningu. Alltént vafðist það ekki fyrir borgarstjórn Reykjavíkur í fyrra að fara í sameignarform á Orkuveitu Reykjavíkur og taka þar inn í öll nágrannasveitarfélögin sem eðlilega meðeigendur og meðstjórnendur í því fyrirtæki. Það hefur heyrst hér að ein af ástæðunum fyrir því að menn vilji búa til hlutafélag úr Norðurorku sé sú að það sé ákjósanlegt og að menn vilji fara í samstarf, þ.e. nágrannasveitarfélögin, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsströnd, Arnarneshreppur. Að vera með sameignarform hentar ágætlega við slíkt fyrirkomulag. Og það er ekkert því til fyrirstöðu að nota sömu formúlu og á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar þá hugsun og væri eflaust mjög heppilegt. Eins og kunnugt er hefur Norðurorka fundið gríðarlega mikið af heitu vatni á Hjalteyri sem er í Arnarneshreppi. Samtenging þessara veitna væri e.t.v. mjög fýsileg og sjálfsögð. Það er bara spurning um hvaða form menn velja á það.

Ég held að ekki sé heppilegt að nota fyrirtækið svona sem bakhjarl fyrir aðra bisnessmöguleika, sérstaklega vegna þess að ég held að það sé ekki sanngjarnt í ljósi sögu veitunnar að setja upp form sem krefst hámarksávöxtunar á kapítalið.

Ég held að eins og gert hefur verið undanfarið eigi Akureyrarbær að sætta sig við lága ávöxtunarkröfu og láta neytendur veitunnar njóta lágs verðs en ekki taka út mikinn arð, a.m.k. ekki í nánustu framtíð. Þetta voru hræðilegir tímar fyrir hitaveituna á sínum tíma, bæði var það efnahagsástandið í landinu sem gerði henni mjög erfitt fyrir en líka mjög mikill kostnaður vegna rannsókna og borana sem þarna kom við sögu.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir beiðni bæjarstjórnar Akureyrar um að þetta frv. fari í gegnum þingið lýsi ég mikilli andstöðu við það. Ég lýsi andstöðu við þetta form. Ég tel að samvinnuformið, samvinnufélagsleiðin, hefði verið betri, svipuð leið og Orkuveita Reykjavíkur fór, ef menn hefðu viljað breyta formi, t.d. til að taka inn í fyrirtækið nágrannasveitarfélög eins og óskir hafa verið settar fram um.

Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er nú að verða búinn þannig að ég læt máli mínu lokið að sinni og freista þess kannski að koma aftur upp og ræða um þetta mál.