Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 21:55:40 (2659)

2002-12-12 21:55:40# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[21:55]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að hv. þm. geri óþarflega mikið úr þeim breytingum sem hér er gerð tillaga um. Og að hér sé öllu grautað saman, það er ekki rétt að gera svo mikið úr því eins og hv. þm. gerir vegna þess að miðað við það frv. til nýrra raforkulaga sem hér liggur fyrir, án þess að það sé nú komið til umræðu, þá byggir það á gegnsæi og það er ekkert hægt að grauta öllu saman eins og hv. þm. vildi vera láta. Þetta frv. sem hér er flutt er fyrst og fremst til þess að breyta rekstrarformi fyrirtækisins Norðurorku á Akureyri.

Hv. þm. ýjaði að því að frv. væri flutt vegna þess að það væri eitthvað meira í vændum. Ég undrast það nú dálítið ef hv. þm. er að tala gegn þeim hugmyndum sem eru uppi og hafa verið uppi í sambandi við sameiningu orkufyrirtækja með það í huga að höfuðstöðvar yrðu á Akureyri. En hef ég þegar greint frá því að miðað við það frv. sem nú liggur fyrir og er málamiðlun er ekki um það að ræða að af þeirri sameiningu geti orðið a.m.k. um sinn. En hugmyndirnar byggja að sjálfsögðu á því að þarna gæti orðið til sterkt orkufyrirtæki með höfuðstöðvar á landsbyggðinni. Og ég er hissa á því ef hv. þm. er hreint og beint á móti því, eins og ég skildi orð hans áðan.

Hann fór líka með ýmsa hluti sem ekki eiga við rök að styðjast og varða Orkubú Vestfjarða en ég hef ekki tíma til að koma inn á það núna.