Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 22:02:00 (2662)

2002-12-12 22:02:00# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[22:02]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ef svo fer sem allt lítur út fyrir, að ný lög komi til með að þýða að það verði að hafa algjöran aðskilnað á þessum óskyldu þáttum í rekstri fyrirtækisins og jafnvel innan sjálfs orkusviðsins, þá er verið að heimila að stofna fyrirtæki sem getur ekki starfað samkvæmt þessum lögum nema í einhverja mánuði. Það var m.a. það sem ég var að spyrja um. Er hér ekki farið í hlutina í rangri röð? Væri ekki eðlilegra að setja grundvallarlöggjöfina fyrst og svo gætu sveitarfélög og aðrir aðilar skoðað hið nýja lagaumhverfi og endurskipulagt hjá sér fyrirtækin samkvæmt því? Orkuþátturinn, heitt vatn og raforka, væri settur undir fyrirtæki en vatnsveiturnar yrðu hafðar sér. Ég held að það væri að mörgu leyti eðlilegast í þessu.

Hæstv. ráðherra ætti nú ekki að fara hörðum orðum um efann. Efinn er undirstaða og hvati að gagnrýnni hugsun. Menn væru illa á vegi staddir ef þeir tapa henni. (Gripið fram í.) Ja, það er nefnilega nákvæmlega það. Það er ekki bara eðlilegt heldur hollt og gagnlegt að efast. Þannig spyrja menn spurninga, sjálfa sig eða aðra. Hann er uppspretta gagnrýnnar hugsunar og menn eru illa á vegi staddir ef þeir glata henni.

Ég hef oft velt fyrir mér möguleikum á endurskipulagningu orkuframleiðslunnar í landinu, ekki síst vegna þess að ég hef séð, eins og allir hugsandi menn, að núverandi fyrirkomulag er ekki skynsamlegt og ekki hagstætt. Rafmagnsveitur ríkisins hafa setið eftir með sífellt erfiðara hlutskipti og óhagkvæmara eftir því sem markaðssvæði þeirra hefur orðið erfiðara viðureignar. Undan því hafa gengið stór svæði eins og Suðurnesin. Eftir situr að dreifa rafmagni í strjálbýlustu og fámennustu héruð landsins sem er auðvitað erfitt verkefni.

Ég held að tveir kostir komi aðallega til greina, annars vegar að endurskipuleggja þetta í formi stórra landshlutabundinna eða svæðisbundinna orkufyrirtækja, eða skipuleggja þetta á landsvísu þannig að annars vegar séu öflug framleiðslufyrirtæki og stórt sameiginlegt dreifikerfi hins vegar. Það er hægt að ná utan um slíka hlut. Ég sé ekki þetta hér sem slíkt endilega sem jákvætt innlegg í slíka endurskipulagningu.