Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 22:27:23 (2668)

2002-12-12 22:27:23# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[22:27]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Eitt atriði sem ég vildi víkja sérstaklega að við 1. umr. málsins lýtur að starfsmönnum fyrirtækisins og réttindum þeirra. Að sjálfsögðu vonast ég til að þetta frv. nái ekki fram að ganga en ef dæma skal af undirtektunum hér á Alþingi er nú ekki mikil innstæða fyrir slíkri von. Það eru eingöngu þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem hafa andæft þessum lagabreytingum, eins vitlausar og þær nú eru, og eins fyrirsjáanlegt er að þær muni hafa slæmar afleiðingar.

En fari svo að frv. verði samþykkt liggur mikið við að réttindi starfsmanna verði fyllilega tryggð. Það er vísað til réttinda starfsmanna í 7. gr. frv. Þar segir að allir núverandi starfsmenn Norðurorku skuli eiga rétt á störfum hjá hinu nýja fyrirtæki og skuli þeim boðin störf hjá Norðurorku hf., sambærileg þeim er þeir áður gegndu.

Í greinargerð með þessari grein frv. er ítarlegt mál sem ég ætla ekki að fara í en vitna í fyrstu setningarnar sem eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Í þessari grein er gert ráð fyrir að allir fastráðnir starfsmenn Norðurorku eigi rétt á starfi hjá hinu nýja fyrirtæki. Ákvæði þessu er ætlað að tryggja starfsmönnum Norðurorku sömu eða sambærileg störf hjá félaginu eftir formlega stofnun þess þannig að formbreytingin hafi ekki áhrif á stöðu þeirra, enda ekki um neina eðlisbreytingu á störfum eða starfsaðstöðu að ræða.``

Það er mjög mikilvægt að við afgreiðslu málsins og við umfjöllun í iðnn. um málið verði farið mjög rækilega í réttindi starfsmanna, þau verði grandskoðuð og tryggt að þau verði í engu skert nái frv. á annað borð fram að ganga sem talsverðar líkur eru til.

Þetta hefur því miður ekki alltaf tekist, einfaldlega vegna þess að menn hafa ekki búið nægilega vel um hnútana í lagasmíð þegar stofnunum hefur verið breytt í hlutafélög. Og ég beini því til hv. iðnn. að fara rækilega í saumana á þessu og er æskilegast að samráð verði haft við samtök starfsmanna sem greinilega hefur þó verið gert ef marka má greinargerð með frv. Ég legg áherslu á að það er mjög mikilvægt að þetta verði tryggt.

[22:30]

Einn þátt langaði mig til að koma inn á í þessari seinni ræðu minni og hann lýtur að staðhæfingum hv. þm. Björns Bjarnasonar sem eina ferðina enn kom í pontu áðan og staðhæfði að hlutafélagsformið væri heppilegasta form raforkufyrirtækja. Ef ég heyrði rétt hvað hann sagði þá var það á þá leið að það yrði að búa fyrirtæki sem væri á samkeppnismarkaði, hvort sem mönnum líkaði betur eða verr, eins góðan ramma til að rækja sitt hlutverk og kostur væri, og það væri hlutafélagsformið.

Ég hef efasemdir um þetta. Í fyrsta lagið tel ég að sameignarfyrirtæki og byggðasamlag geti náð árangri í markaðsumhverfi ekki síður en hlutafélagsformið. Ég íteka það sem ég sagði í fyrri ræðu að hlutafélagsformið hefur mjög alvarlega veikleika. Án þess að ég fari yfir það aftur í ítarlegu máli þá eru þeir fyrst og fremst tvenns konar. Það hefur iðulega bitnað á notendum þegar arðsemissjónarmið ráða ferðinni. Þegar það sjónarmið ræður ferð að skapa eigendum fyrirtækisins arð þá er sú hætta fyrir hendi að raforkuverðið í þessu tilviki verði keyrt upp á kostnað notenda.

Hitt er svo að eigandinn er ekki traustur. Eigandi hlutafjár sækir eftir arðinum þar sem hann er mestur hverju sinni og einmitt þegar á reynir hlaupa hlutafjáreigendur frá fyrirtækjum sínum.

Ég er hérna með nýlegar fréttir sem sýna fram á að nokkur rök eru fyrir því sem ég er að segja. Annað dæmið er af bresku fyrirtæki og hitt af frönsku. Á fréttavef BSRB sem hefur lagt sig eftir að kynna sér rekstrarform og fylgjast með breytingum sem eru að verða í opinberri þjónustustarfsemi og stoðþjónustu er frétt þar sem segir að British Energy sé nærfellt gjaldþrota. Ég ætla að vitna í þessa frétt, með leyfi forseta:

,,Eitt stærsta orkufyrirtæki Bretlands, British Energy, sem framleiðir og selur 25% rafmagns í Bretlandi, hefur ítrekað sent út viðvörun um að án frekari aðstoðar frá hendi hins opinbera stefni í gjaldþrot fyrirtækisins.

Hlutabréf í fyrirtækinu kolféllu í september sl., þrátt fyrir neyðaraðstoð bresku ríkisstjórnarinnar að upphæð 410 milljón breskra punda, sem veitt var til þess að tími fengist til að endurskipuleggja fjármál fyrirtækisins. Markaðsvirði hlutafjárins er komið niður í 173,8 milljónir breskra punda, samanborið við rúmar 2.000 milljónir breskra punda fyrir ári síðan. Þannig hefur verðgildi hlutabréfa fallið um 65% á einu ári og náð lægstu stöðu í sögu fyrirtækisins til þessa.``

Síðan heldur fréttin áfram.

Hin fréttin er um hlutabréf í Vivendi og hér segir, með leyfi forseta:

,,Hlutabréf í franska fjölþjóðafélaginu Vivendi, sem er eitt af stærstu vatnsveitufyrirtækjum heimsins, hafa á einu ári fallið um 80%. Fyrirtækið hefur verið mjög umsvifamikið í að ná yfirráðum yfir vatnsveitum í þriðja heiminum.

Ástæðuna má ekki hvað síst rekja til mjög glannalegra fjárfestinga sem fyrirtækið réðist í undir stjórn forstjóra þess til sex ára Jean-Marie Messier. Undir hans stjórn varð Vivendi Universal að öðru stærsta fjölmiðlunarfyrirtæki heims með aðalstöðvar í New York. Jean-Marie Messier var neyddur til að segja af sér í júlí sl. Franskar fjármálastofnanir gripu til sérstakra aðgerða á sama tíma til að draga úr söluæði sem greip um sig á hlutabréfum í stórfyrirtækjum, skráðum í kauphöllinni í París, sem afleiðing skuldakreppu Vivendi Universal.``

Þetta er stöðugleikinn. Svo munum við náttúrlega eftir Enron og við getum vísað í önnur fyrirtæki líka. Þetta er um stöðugleikann. Þetta lýtur að stöðugleikanum sem er ekki meiri en þessu nemur. (KPál: Hvernig var stöðugleikinn í Sovétríkjunum?) Hvernig var stöðugleikinn í Sovétríkjunum, spyr hv. þm. Kristján Pálsson. Hann var geysilega mikill. Þar var fylgt stefnu sem er mjög í tísku núna hjá Framsfl. Ég held að Jósef Stalín hefði gefið Framsfl. mjög háa einkunn fyrir ,,ökónómíska fornuft`` vegna þess að hann vildi leysa efnahagsvandann í Sovétríkjunum á nákvæmlega sömu nótum og Framsfl. vill hér á landi, þ.e. með því að setja alla íbúa á stóru landsvæði inn í eina stóra verksmjðju og telur sig þannig vera að leysa atvinnuvanda en er þvert á móti að stefna í aðra átt. (KPál: Sovét fór á hausinn í einu lagi?) Svo er það alveg rétt að Sovétríkin voru náttúrlega kerfi sem byggði á einræðisfyrirkomulagi og ofbeldi og lokaði þegna inni sem höfðu uppi andóf, vildu andæfa stefna stjórnvalda, hvort sem það var í orkumálum eða öðrum málum. Menn voru skilgreindir sem óvinir ríkisins og gerðir útlægir. (Gripið fram í.) Þeir voru ófrægðir. Það var rekin ófrægingarherferð gegn þeim. Þetta er mjög fróðlegt. Ég vona að hv. þm. verði viðstaddur 2. og 3. umr. þessa máls á morgun þar sem okkur gefst tími til að ræða þessi mál nánar. (Gripið fram í.)

Hitt sem ég ætlaði að nefna --- svo ég bara nái að koma efnisatriðum að áður en tíminn er útrunninn --- er verðsprenging sem er að verða bæði í Noregi og annars staðar þar sem raforkugeirinn hefur verið einkavæddur. Norsk raforkufyrirtæki raka saman milljörðum, segir í frétt sem birtist í Dagbladet, norska Dagbladet, 22. sept. 2002. Með leyfi forseta, segir hér enn fremur:

,,Nú hækkar verðið á ný. Þeir hafa komist upp meða kjafta verðið upp hvert haust, segir framkvæmdastjóri neytendaráðsins, Per Anders Stalheim.``

Herra forseti. Tími minn er búinn en sem betur fer á eftir að taka þetta mál til 2. og 3. umr. Þá gefst nægur tími til að fara rækilega í saumana á þessum málum og einnig í hugðarefni hv. þm. Kristjáns Pálssonar.