Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 22:50:13 (2677)

2002-12-12 22:50:13# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[22:50]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Mig langar þó til þess að drepa á örfá atriði.

Hæstv. iðnrh. gerði grein fyrir bollaleggingum og hugmyndum um að flytja annaðhvort Rarik eða sameina það Norðurorku og Orkubúi Vestfjarða. Það hefur verið á umræðustigi og auðvitað eru það hlutir sem allir vilja skoða. En ég finn það einhvern veginn á öllum mínum beinum að þessi beiðni um að breyta Norðurorku í Norðurorku hf. sem hlutafélag hefði að öllum líkindum ekki komið fram ef hæstv. iðnrh. hefði verið búin að flytja höfuðstöðvar Rariks norður á Akureyri. Það er ég næstum viss um.

Ég hef miklar áhyggjur af þessum málatilbúnaði vegna þess að ég held að menn séu búnir að sjá fyrir sér einhvers konar eftirleik og ef ég tala út frá hagsmunum Akureyrarbæjar og bæjarbúa á Akureyri þá er manni sagt að verið sé að meta Norðurorku inn í t.d. Rarikpúkkið, Rarik/Norðurorku eftir því hver lítur á málin, frá 20 og upp í 40%. Það væri til lengri tíma litið ákaflega vondur kostur fyrir Akureyrarbæ. Eðli málsins samkvæmt mundi það fyrirtæki lenda á höfuðborgarsvæðinu fyrr eða síðar. Ég held að það sé alveg borðleggjandi. Við höfum reynslu af því og Akureyrarbær og Akureyringar hafa reynslu af slíkum ,,manúeringum`` ef ég má sletta aðeins. Ég held því að þarna verði að fara mjög varlega og það verði að ræða þessi mál í víðu samhengi því það væri mjög slæmt fyrir allt það svæði að missa forræðið þó svo að viðkomandi fyrirtæki yrði um stund rekið á því svæði.

Af þessu hef ég miklar áhyggjur og líka af þjónustuþættinum við bæjarbúa og verðmyndun. Ég nefndi það í fyrri ræðu minni að ég tel ákaflega mikilvægt að ekki sé verið að krefjast hámarksarðs af þessu fyrirtæki í ljósi sögunnar. Hitaveitan var mjög dýr, sérstaklega hitaveitan. Við höfum ódýra raforku. Hún var mjög dýr framan af og bæjarbúar ætlast til þess og eiga að njóta þess að arðsemiskrafan sé lág þegar fyrirtækið hefur burði til þess og það er þegar farið að gefa möguleika á lækkun. Um nokkurra missira skeið hefur það verið allverulegt og ég held að bæjarbúar muni líta til þess. Ég vil fara varfærnislega í þetta mál og vil að það fái mjög nána umfjöllun í nefndum. Við norðanmenn höfum reynslu af þessu á fleiri sviðum. Rafveita Akureyrar gekk nú inn í Landsvirkjunarpúkkið og eftir á að hyggja er ég sannfærður um að betra hefði verið fyrir byggðir Eyjafjarðar og Akureyri ef Rafveita Akureyrar hefði haldið Laxárvirkjunum og staðið eðlilega að uppbyggingu á sínum eigin forsendum á Akureyrarsvæðinu og Laxárvirkjanasvæðinu. Það hefði leitt til öðruvísi uppbyggingar. Ég tel að það hafi verið mistök allan tímann að fara í Landsvirkjunarpúkkið sem var jú sett upp til þes að þjóna stóriðju og hefur að langmestu leyti staðið að uppbyggingu á suðvesturhorninu. Þetta er mín trú.

Við höfum líka reynslu af því að fara inn í púkk með öðrum fyrirtækjum. Akureyringar muna vel þau fögru fyrirheit sem gefin voru varðandi Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og flutning á störfum og starfsemi norður. Það entist um mjög skamman tíma og er nú með öllu aflagt. Hér er því um stórhagsmunamál fyrir Akureyrarbæ og bæjarbúa að ræða og ég tel að áhuginn á formbreytingu sé fyrst og fremst kominn fram vegna vonarinnar um að eitthvað meira hangi á spýtunni í framhaldi af þessari kerfisbreytingu.

Svo finnst mér kollegar okkar í stjórnarandstöðunni ansi léttúðugir, t.d. hv. þm. Ágúst Einarsson þegar hann segir fullum fetum að við sjáum draug í hverju horni við hlutafélagavæðingu. (Gripið fram í.) Það hefur margsinnis komið fram í málflutningi okkar að það eru stoðkerfisfyrirtæki landsins sem við viljum að séu í félagslegri eign. Við höfum aldrei í málflutningi okkar sett okkur upp á móti hlutafélögum, aldrei. (Gripið fram í.) En við höfum sett okkur upp á móti hlutafélagaforminu í þeirri þjónustu sem við skilgreinum sem grunnþjónustu samfélagsins. Þar undir er heitt og kalt vatn. Þar undir er rafmagn. Þar undir eru fjarskipti o.s.frv. (Gripið fram í: Pósturinn.) Það er alveg klárt. Pósturinn einnig.

Menn hafa ekki bitið úr nálinni með það sem verið var að samþykkja á hinu háa Alþingi í dag í sambandi við breytingar á póstkerfinu. Það er eins og við gerum okkur ekki grein fyrir því á hinu háa Alþingi --- við erum kannski orðin svo föst við þessa þúfu hér --- að við erum í 103 þúsund ferkílómetra landi, strjálbýlasta landi í Evrópu, og póstþjónusta er einn af þeim grunnþjónustuþáttum sem er algjörlega nauðsynlegt að sé í lagi og á félagslegum grunni. En svo er nú aldeilis ekki.