Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 22:56:09 (2678)

2002-12-12 22:56:09# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[22:56]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Það er aðallega tvennt sem mig langar að víkja að og ætla ég að reyna að fá það mál afgreitt með því að beina spurningum til hæstv. iðnrh. Í 6. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

,,Stjórn Norðurorku hf. setur gjaldskrár um verð á seldri orku og vatni til notenda. Gjaldskrár fyrir sölu á rafmagni og heitu vatni öðlast eigi gildi fyrr en þær hafa verið staðfestar af iðnaðarráðherra og birtar í Stjórnartíðindum. Gætt skal almennra arðsemissjónarmiða við setningu gjaldskrár.``

Spurningin er: Telur hæstv. ráðherra að þessi formbreyting eins og hún hefur nefnt þetta frv., þ.e. að það væri aðeins formbreyting, muni leiða til kostnaðarauka fyrir íbúa á þjónustusvæði Norðurorku hf. með tilliti til efnis 6. gr. sem getur ekki um hagsmuni neytendanna?

Í öðru lagi spyr ég í tilefni af orðum hæstv. iðnrh. í tvígang í kvöld um sameiningarferli Orkubús Vestfjarða og Rariks. Hún hefur sagt í tvígang að því verði frestað um sinn eins og málin hafi nú skipast. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh.: Er það stefna hæstv. ráðherra að sameina fyrirtækin þó nú sé frestur á illu bestur? Er það stefnan sem hún ætlar að vinna að í framtíðinni?