2002-12-13 01:13:15# 128. lþ. 56.13 fundur 413. mál: #A almannatryggingar# (skerðingarhlutfall tekjutryggingarauka) frv. 149/2002, Frsm. KF
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 128. lþ.

[25:13]

Frsm. heilbr.- og trn. (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðríði Þorsteinsdóttur og Guðrúnu W. Jensdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Karl Steinar Guðnason, Ragnar M. Gunnarsson og Ágúst Þór Sigurðsson frá Tryggingastofnun ríkisins, Ólaf Ólafsson og Benedikt Davíðsson frá Landssambandi eldri borgara, Garðar Sverrisson og Arnþór Helgason frá Öryrkjabandalagi Íslands og Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands. Umsögn barst frá Alþýðusambandi Íslands.

Frumvarpið byggist á tillögum sem settar voru fram í skýrslu sem samráðshópur um málefni eldri borgara vann nú í vetur. Í frumvarpinu er lagt til að skerðingarhlutfall tekjutryggingarauka lífeyrisþega vegna annarra tekna verði lækkað úr 67% í 45% og nær tillagan bæði til aldraðra og öryrkja. Starfshópurinn gerði einnig tillögur um hækkun á tekjutryggingu og tekjutryggingarauka. Þeirri tillögu hefur verið hrint í framkvæmd með samþykkt reglugerðar nr. 823/2002. Nefndin aflaði upplýsinga um kostnað ríkissjóðs af setningu framangreindrar reglugerðar. Kom þar fram að kostnaður af henni árið 2003 nemur um 1.350 millj. kr. og 1.090 millj. kr. árið 2004. Samtals eru þetta um 2.440 millj. kr. Heildarkostnaður af lagabreytingunni sem hér er lögð til er um 250 millj. kr. Alls verður því kostnaður ríkissjóðs af þessum breytingum 2.690 millj. kr.

Nefndin leitaði upplýsinga um kostnaðarauka af því að lækka skerðingarhlutfall vegna vasapeninga skv. 8. mgr. 43. gr. laganna úr 65% í 45%. Miðað við að halda óbreyttum frítekjumörkum og þann fjölda sem fær þessar bætur nú yrði kostnaður við þessa breytingu samkvæmt lauslegum útreikningum nálægt 68 millj. kr. Að mati nefndarinnar er sanngjarnt og eðlilegt að skerðingarhlutfall vegna annarra tekna sé samræmt og beinir því til heilbrigðisráðherra að huga sérstaklega að því að lækka skerðingarhlutfallið vegna vasapeninga samkvæmt framangreindu niður í 45% eins og frumvarpið gerir ráð fyrir með tekjutryggingaraukann.

Nefndin bendir á að gildandi lög um almannatryggingar eru að grunni til rúmlega 30 ára gömul og á þeim hafa verið gerðar tíðar breytingar. Telur nefndin að löngu sé orðið tímabært að endurskoða lögin í heild með það m.a. að markmiði að einfalda reglur um útreikning bóta.

Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins.

Ásta R. Jóhannesdóttir, Margrét Frímannsdóttir og Þuríður Backman skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Ásta Möller, Lára Margrét Ragnarsdóttir og Ólafur Örn Haraldsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nál. skrifa Jónína Bjartmarz formaður, Ásta R. Jóhannesdóttir, með fyrirvara, Einar Oddur Kristjánsson, Katrín Fjeldsted, Margrét Frímannsdóttir, með fyrirvara, Þuríður Backman, með fyrirvara.