Breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 11:41:27 (2756)

2002-12-13 11:41:27# 128. lþ. 57.18 fundur 438. mál: #A breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn# (aðild starfsmanna að málum Evrópufélaga) þál., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 128. lþ.

[11:41]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að taka undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um atvinnulýðræði og það sem hann gerði að umtalsefni í sambandi við það frv. sem hér liggur fyrir um staðfestingu á EES-samkomulaginu.

Það er alveg rétt sem hv. þm. segir, það er afskaplega lítið um ákvæði um atvinnulýðræði í íslenskri löggjöf. Ég sé þó ástæðu til að minna á frv. sem Samfylkingin lagði fram á síðasta þingi um það að starfsmenn stærri fyrirtækja mundu skipa í stjórnir þess tvo fulltrúa. Það var frv. sem var sniðið að danskri löggjöf og er líklega í fyrsta skipti reynt að taka á þessu máli með heildstæðum hætti. Það hlaut góðar undirtektir hjá verkalýðshreyfingunni en varð ekki meira úr. Segja má að hægt sé að átelja verkalýðshreyfinguna fyrir að hafa ekki gefið þessu máli meiri gaum. Það má líka átelja stjórnmálaflokkana hér á landi fyrir að hafa ekki fest betur í löggjöf atvinnulýðræði sem er áhrif starfsmanna í fyrirtækjum vegna þess að þetta er allt að 50 ára gömul löggjöf í Evrópu, mjög vel þróuð í flestum nágrannalöndum okkar. Það er kominn tími til, herra forseti, að við tökum þessa umræðu upp á hinu háa Alþingi og reynum að finna þessum málum þann farveg sem hentar samfélagi okkar. Við eigum ekki alltaf að bíða eftir öllu frá Evrópu þó að ég hafi ekki mælt beinlínis á móti því að það gerist í gegnum EES-samninginn. Þetta er svið sem við getum reynt að setja löggjöf um vegna þess að áhrif starfsmanna í fyrirtækjum er brýnt hagsmunamál. Það er skynsamlegt og hefur alls staðar reynst vel þar sem það hefur verið framkvæmt.