Jólakveðjur

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 15:49:16 (2806)

2002-12-13 15:49:16# 128. lþ. 60.95 fundur 348#B jólakveðjur#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 128. lþ.

[15:49]

Forseti (Halldór Blöndal):

Þá er komið að lokum síðasta fundar Alþingis fyrir jólahlé. Við ljúkum nú þingstörfum 13. desember eins og starfsáætlun gerir ráð fyrir og vil ég láta í ljós sérstakar þakkir mínar til þingmanna fyrir gott samstarf á haustþinginu. Það er ánægjuefni að okkur hefur tekist þriðja árið í röð að haga þannig þinghaldi að því hefur lokið um miðjan desember. Þessi breyting hefur orðið til mikilla bóta fyrir einstaklinga og stofnanir sem þurfa að vinna eftir þeirri löggjöf sem hér er sett fyrir áramót og skiptir þá ekki síst máli að fjárlög komandi árs liggi nú fyrir í byrjun desember.

Nú þegar jólahátíðin er í nánd vil ég færa alþingismönnum öllum svo og starfsfólki Alþingis bestu óskir um gleðilega og farsæla hátíð og þakka þeim samstarfið á því ári sem nú er senn á enda. Þeim sem eiga um langan veg heim að fara óska ég góðrar heimferðar og heimkomu og bið þess að við megum öll hittast heil á nýju ári. Landsmönnum öllum sendi ég mínar bestu jóla- og nýársóskir.