Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 35. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 35  —  35. mál.
Tillaga til þingsályktunarum rannsóknir á þorskeldi.

Flm.: Karl V. Matthíasson, Kristján L. Möller, Gísli S. Einarsson,


Svanfríður Jónasdóttir, Össur Skarphéðinsson,


Einar Már Sigurðarson, Þórunn Sveinbjarnardóttir.    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að hlutast til um að skipulegar rannsóknir á þorskeldi frá klaki til slátrunar verði stórauknar, svo og að fjarða- og kvíaeldi á þorski verði eflt og stutt, með það að markmiði að Íslendingar geti framleitt eldisþorsk til útflutnings innan fárra ára.

Greinargerð.


    Á Íslandi hefur ekki verið mótuð nein stefna varðandi eldi á þorski eða þorskseiðum.
    Mikill vöxtur hefur orðið í öllu eldi á heimsvísu og samkvæmt FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna) er fiskeldi sú grein matvælaiðnaðarins sem vex hraðast. Þess má geta að fiskeldi annaði heildaraukningu á fiskneyslu heimsins á árunum 1990–97, aukningu sem nam um 20 milljónum tonna.
    Ástæður aukinnar heildarneyslu fisks eru ekki eingöngu fólksfjölgun heldur einnig almennt meiri fiskneysla. Þau vandamál sem upp hafa komið í evrópskum landbúnaði á síðustu missirum ættu, ef að líkum lætur, að auka enn frekar fiskneyslu.
    Frændur okkar Norðmenn hafa lagt fyrir sig laxeldi með góðum árangri og er nú svo komið að verðmæti framleiðslu þeirra á eldislaxi eru orðin meiri en sem nemur verðmæti útflutnings okkar Íslendinga á þorski, ýsu, ufsa og karfa. Ótaldar eru þó tekjurnar sem þeir hafa af útflutningi þekkingar og tækni sem tengist fiskeldi.
    Á undanförnum árum hefur þorskafli minnkað í Atlantshafi og hefur það leitt til hækkandi verðs á þorskafurðum. Minnkandi afli og hækkandi olíuverð hefur leitt til aukins kostnaðar við veiðarnar. Reynslan hefur hins vegar sýnt að framleiðslukostnaður við eldi fer lækkandi og markaðirnir kalla eftir þeim stöðugleika í framboði og gæðum sem eldisfiskur býður upp á.
    Eðlilegt má því telja að Íslendingar horfi til eldis og er óhætt að segja að þorskurinn standi okkur næst, enda samlegðaráhrif þorskeldis og sjávarútvegs á Íslandi nokkuð augljós og augljósari en t.d. laxeldis og sjávarútvegs. Ræður þar mestu þekking á vinnslu og mörkuðum og markaðsstaða íslenska þorsksins. Aðstæður til þorskeldis eru á margan hátt hagstæðar hér við land og hafa eldistilraunir hingað til lofað góðu og nokkuð góður vöxtur náðst í þeim. Einnig má benda á að við ýmsa fiskvinnslu á Íslandi fellur til mikið af aukaafurðum sem nýta mætti til að fóðra eldisfisk.
    Hinar miklu væntingar sem gerðar voru til laxeldis á áttunda áratugnum brugðust. Ástæðurnar voru ef til vill fyrst og fremst skortur á þekkingu, rannsóknum og þróun. Mikilvægt er að læra af reynslunni og standa betur að undirbúningi nýrrar atvinnugreinar nú.
    Eins og kemur fram hér á eftir hafa fyrirtæki og hið opinbera meðal margra þjóða þegar markað sér stefnu í þorskeldismálum. Nái áform þessara þjóða fram að ganga gæti sú staða komið upp innan nokkurra ára að við yrðum eftirbátar þeirra í samkeppninni.
    Hugsanlega eru hér ónýttir möguleikar, möguleikar sem áfram geta haldið íslenskum sjávarútvegi í fremstu röð.

Ótal vandamál eru óleyst í þorskeldi.
    Skortur á seiðum stendur stríðeldi á þorski fyrir þrifum, ótímabær kynþroski er vandamál sem og hátt lifrarhlutfall. Ekki hefur verið þróað nógu skilvirkt fóður, þekking á atferli þorsks í eldi er takmörkuð, vöxtur er ekki nógu hraður, sjúkdómar hafa ekki verið rannsakaðir nægjanlega og samspil eldis við umhverfið og villta þorskstofna er óþekkt. Sum þessara vandamála blöstu við laxeldismönnum í árdaga þeirrar atvinnugreinar en hafa nú verið leyst. Ekki er ástæða til að ætla annað en að slík vandamál megi einnig leysa í þorskeldi en til þess þarf markvissar rannsóknir og samvinnu eldisaðila.
    Þorskeldi getur orðið mikil lyftistöng fyrir landsbyggðina og hafa ýmsir reynt fyrir sér í greininni á undanförnum árum. Rétt væri að nýta áhuga þeirra, þekkingu og reynslu til samstarfs um rannsóknir.

Staða þorskeldis.
Ísland.
    Þorskseiðaframleiðsla á Íslandi er eingöngu stunduð hjá útibúi Hafrannsóknastofnunarinnar á Stað við Grindavík. Þar hafa verið framkvæmdar ýmsar tilraunir með eldi á þorskseiðum frá árinu 1993. Frá árinu 1994 hefur ársframleiðslan verið á bilinu 1.000–7.000 seiði og á allra síðustu árum hefur stofnunin látið frá sér um 25.000 seiði til eldisstöðva í eigu sjávarútvegsfyrirtækja. Fyrir fáeinum vikum var svo fyrstu fiskunum komið fyrir í kvíum í sjó. Af þessu má sjá að þróunin hefur verið fremur hæg og of lítið fjármagn sett í rannsóknir og nýsköpun í þorskeldi ætli menn sér stóran hlut á þessu sviði.
    Stofnunin hefur einnig verið með hrygningarstofn og tilraunir með áframeldi í landkerum. Þarna er um að ræða lítið tilraunaverkefni þar sem fjárveitingar hafa verið af skornum skammti hingað til.
    Við tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum hafa verið gerðar rannsóknir á sjúkdómum og sníkjudýrum í þorskseiðum. Síðasta áratug hafa verið gerðar nokkrar tilraunir með áframeldi og fjarðaeldi á Íslandi. Tilgangur þessara tilrauna var m.a. að kanna holdgæði, vaxtarhraða o.fl. Niðurstöðurnar eru nokkuð misvísandi, en þó eru þær ákveðinn grunnur til að byggja síðari tilraunir á.
    Við sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri hefur verið vaxandi áhugi á þorskeldi. Nemendur þar hafa unnið nokkur verkefni tengd þorskeldi í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir og er Háskólinn í samstarfi við fyrirtæki um rannsóknir á þorskeldi. Í Eyjafirði stendur til að fara af stað með fóðurtilraun og er það samstarf nokkurra nema við sjávarútvegsdeild Háskólans og sjávarútvegsfyrirtækis.
    Ársframleiðsla á eldisþorski hefur undanfarin ár verið á milli 20 og 30 tonn. Nú er vitað um tvær tilraunir með áframeldi. Á Vestfjörðum hefur einn aðili sótt um leyfi fyrir þrjár kvíar í Álftafirði. Þar stendur til að gera tilraun með heilsársáframeldi.
    Á Tálknafirði er að fara af stað tilraunaverkefni um áframeldi í samstarfi Hafrannsóknastofnunarinnar, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Háskóla Íslands og heimamanna. Enn fremur hafa nokkur sjávarútvegsfyrirtæki sótt um leyfi til þorskeldis, samtals á milli 10 og 20 þúsund tonn.

Noregur.
    Í Noregi er um þessar mundir mikill áhugi á þorskeldi. Nú eru 20 seiðaeldisstöðvar í burðarliðnum og gæti framleiðsla þeirra numið um 19 milljónum seiða árið 2004. Þegar hafa rúmlega tvö hundruð leyfi verið gefin út til stöðva sem hyggja á matfiskeldi og rúmlega eitt hundrað umsóknir til viðbótar liggja nú hjá yfirvöldum til meðhöndlunar. Framleiðsla nú er u.þ.b. 150 tonn á ári en gæti farið í 50 þúsund tonn á næstu árum.

Nýfundnaland og Austur-Kanada.
    Mjög lítil seiðaframleiðsla hefur verið í Kanada. Hugmyndir eru um að byggja seiðaeldisstöð með framleiðslugetu upp á 2 milljónir seiða. Í Kanada hefur verið lögð áhersla á áframeldi og snýst umræðan þar um að eingöngu verði leyfðar þorskveiðar til áframeldis. Tvær ástæður eru helst nefndar fyrir því, annars vegar er það bágt ástands þorskstofna þar og hins vegar efling dreifðra byggða. Árið 1999 nam framleiðslan 200 tonnum af þorski og kom hún öll frá einyrkjum í áframeldi.

Bretland.
    Áætlað er að koma upp fimm til sex seiðaeldisstöðvum í samvinnu háskóla og eldisfyrirtækja. Reiknað er með að framleiðslan verði um 2,1 milljón seiða strax árið 2004 og 5.000 tonna „hágæðaafurð“ árið 2006, sem jafnast á við íslenskan „flugfisk“ í verði og gæðum. Komið hefur fram að Bretar stefna leynt og ljóst í eldisáformum sínum á ferska markaðinn. Í fyrra var framleiðsla Breta um 50 tonn og var það samvinna Marks & Spencer og Seafish. Við sölu á þessum fiski var hann aðgreindur frá villtum fiski og sérmerktur sem eldisþorskur. Eldisfiskurinn þótti ekki gefa þeim villta neitt eftir í gæðum og var mjög vinsæll. Vinsældirnar voru fyrst og fremst til komnar af því að um var að ræða eldisafurð en ekki fisk úr ofveiddum stofni. Rétt er að vekja athygli á því að um mjög lítið magn var að ræða og því óvíst hvort umhyggja fyrir ofveiddum stofnum sé almenn.

Danmörk.
    Danir hafa uppi mikil áform í þorskeldi. Þar er aðallega um eitt fyrirtæki að ræða og fer þar fremstur í flokki Björn Westh, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Dana. Áform eru uppi um 20–30 þúsund tonna ársframleiðslu og verður verkefnið styrkt af Evrópusambandinu. Jafnvel eru hugmyndir um að flytja þorskinn lifandi í tankbílum á markað! Áætlað er að hefja rekstur á næsta ári.
    Af framangreindu má sjá að Íslendingum er ekki til setunnar boðið hvað þorskeldi varðar og er brýnt að hafist verði hér handa um að móta ákveðna stefnu í þessum málum landi og lýð til heilla.