Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 48. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 48  —  48. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um bættar samgöngur milli lands og Vestmannaeyja.

Flm.: Lúðvík Bergvinsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Sigríður Jóhannesdóttir,


Margrét Frímannsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa þriggja manna nefnd í samráði við bæjarstjórn Vestmannaeyja og sveitarstjórn Ölfuss sem kanni möguleika á kaupum, smíði eða útvegun skips sem ekki er lengur í ferðum en eina til tvær klukkustundir milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja. Skipið uppfylli að öðru leyti allar kröfur sem gerðar eru til siglinga á þessari leið, beri ekki færri farþega en núverandi skip og geti flutt fleiri bíla. Jafnframt skal nefndin skoða og meta þann möguleika að lengja og bæta núverandi ferju þannig að hún þjóni betur hlutverki sínu í samræmi við áðurnefnd markmið um hraða og flutningsgetu.
    Nefndin skili tillögum sínum eigi síðar en 1. febrúar 2003.

Greinargerð.


    Herjólfur, ferjan sem gengur á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, uppfyllir ekki lengur þær kröfur um hraða og flutningsgetu sem gerðar eru til samgangna nú í upphafi 21. aldarinnar. Ferjan er tíu ára gömul og því á margan hátt barn síns tíma. Þróun í smíði og hönnun hraðskreiðra ferja hefur verið ör frá þeim tíma sem Herjólfur var tekinn í notkun árið 1992.
    Undanfarin ár hefur landsbyggðin átt undir högg að sækja, ef mælikvarði fólksfjölgunar er notaður sem viðmið um viðgang og vöxt byggða. Fólki hefur víðast hvar fækkað á landsbyggðinni en að sama skapi fjölgað á höfuðborgarsvæðinu. Þessa þróun má ekki síst rekja til þess að mun færri atvinnutækifæri eru á landsbyggðinni en áður var og skiptir stefna stjórnvalda í fiskveiðistjórn miklu í þeim efnum. Sú stefna hefur leitt af sér færri atvinnutækifæri á stöðum sem byggðust upp vegna nálægðar við auðlindina. Þeir staðir njóta ekki lengur þess forskots sem sú nálægð fól í sér með tilheyrandi afleiðingum. Lykilatriðið í því að þessar byggðir fái áfram vaxið og dafnað er að þeim verði sköpuð þannig umgjörð að þær geti keppt um fólk og atvinnutækifæri og þar skipta samgöngur meginmáli. Ljóst er að núverandi samgöngur við Vestmannaeyjar uppfylla ekki þessar kröfur og að staða Vestmannaeyja hefur því versnað til muna undanfarin ár. Flugfélögin hafa hætt reglulegu áætlunarflugi til Eyja og ferðaskrifstofur hafa ekki talið eyjarnar spennandi kost vegna þess tíma sem tekur að fara með Herjólfi. Grípa þarf til aðgerða nú þegar og því er þessi tillaga borin fram enda skiptir miklu að vilji Alþingis liggi fyrir í þessum efnum. Það flýtir mjög fyrir úrbótum takist að ná um þær pólitískri samstöðu.
    Gert er ráð fyrir að nefndin, sem skipuð verði, skili tillögum sínum ásamt greinargerð um áætlaðan kostnað við hverja tillögu eigi síðar en 1. febrúar 2003. Þessi skammi tími endurspeglar þörfina á úrbótum í þessu mikilvæga máli.