Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 184. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 185  —  184. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Einar Már Sigurðarson.



1. gr.

    Við A-lið 1. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Vexti og verðbætur af námslánum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna í fimm ár frá og með þeim tíma þegar endurgreiðsla hefst.
    

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2003 vegna tekna á árinu 2002.
    Þeir sem hafa hafið endurgreiðslu við gildistöku laga þessara njóta frádráttar uns fimm ár eru liðin frá því að greiðslur hófust.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þesu eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt þess efnis að heimilt verði að draga vexti og verðbætur af námslánum frá skattskyldum tekjum manna. Markmiðið er að heimilt verði að veita ákveðinn vaxtafrádrátt fyrstu fimm árin eftir að endurgreiðsla námslána hefst. Mörgum hafa námslánin reynst erfiður skuldabaggi til viðbótar við öll þau útgjöld sem fylgja því að ljúka námi, festa kaup á húsnæði og stofna heimili og fjölskyldu. Húsnæðismarkaðurinn hefur iðulega verið þeim námsmönnum mjög erfiður sem ekki hafa fengið íbúð á vegum Félagsstofnunar stúdenta. Alls 630 námsmenn eru nú á biðlista eftir námsmannaíbúðum og margir þurfa að leita á almenna leigumarkaðinn meðan á námi stendur þar sem leigan er gríðarlega há og ofviða námsmönnum sem þurfa að framfleyta sér af námslánum.
    Í ársskýrslu Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir námsárið 2000–2001 kemur fram að á námsárinu voru umsækjendur um námslán 7.814 en af þeim urðu 6.099 lánþegar, eða 78% sem er heldur hærra hlutfall en árið á undan. Lánþegum fjölgaði um 321 frá fyrra ári eða um 5,5%, en þeim hafði fjölgað um 2% árið áður. Það er sanngirnirmál að þeim sem þurfa að greiða af námslánum verði gert það léttara með því að vextir og verðbætur af lánunum verði frádráttarbær frá skattskyldum tekjum, en endurgreiðslur lánanna miðast að hluta til við tekjur. Með því væri í raun um fjárfestingu í menntun að ræða, en benda má á að sambærilegar skattaívilnanir tíðkast á ýmsum sviðum atvinnurekstrar.
    Námslán eru verðtryggð og bera allt að 3% vexti frá námslokum, en samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar er vaxtaprósentan nú 1%. Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir námslok og er árleg endurgreiðsla 4,75% af vergum tekjum næsta árs á undan. Greiðslubyrði af námslánum getur því verið þung, en samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Lánasjóðs íslenskra námsmanna er árið 2002 árleg lágmarksendurgreiðsla 65.057 kr., og sem dæmi má nefna að ársafborgun af 2 millj. kr. tekjum er 95.000 kr., eða tæpar 8.000 kr. á mánuði, og af 3 millj. kr. tekjum er ársafborgunin 142.500 kr., eða tæpar 12.000 kr. á mánuði.
    Mjög gagnrýnisvert er hvernig framkvæmd námslána er háttað og að ekki skuli vera um samtímagreiðslur að ræða. Námsmenn eru settir í þá óviðunandi stöðu að þurfa að taka yfirdráttarlán í bönkum og fá ekki námslán nema þeir skili tilskildum námsárangri í lok hverrar annar. Mikið óöryggi og álag fylgir slíku fyrirkomulagi fyrir námsmanninn og fjölskyldu hans. Hver umsækjandi fær útreikning væntanlegs láns frá Lánasjóði íslenskra námsmanna miðað við fullt nám og 100% námsframvindu (svonefnda náms- og lánsfjárætlun) þegar hann hefur skilað öllum tilskildum gögnum til lánasjóðsins. Námslán greiðast inn á bankareikning námsmanns eftir hverja önn eða skólaár þegar lánasjóðinum hafa borist gögn um árangur í námi og önnur tilskilin gögn. Af lánunum er tekið 1,2% lántökugjald sem íþyngir verulega fjárhag námsmanna. Umsækjendur þurfa því að fjármagna nám sitt sjálfir með skammtímalánum eða yfirdráttarlánum þar til námslán fást greidd að lokinni einkunnagjöf. Skólar á Íslandi senda árangurinn beint til lánasjóðsins, en námsmenn erlendis verða að sjá um það sjálfir. Þeir sem ekki taka próf á miðjum vetri verða að senda staðfestingu á námsástundun.
    Í úthlutunarreglum lánasjóðsins kemur fram að við útborgun lána fyrir framfærslu- og bókakostnaði, sem greiðist eftir hverja önn, missiri eða skólaár, skal greiða vaxtastyrk. Styrkur til haustmissiris skal nema 1,4% af framfærslu- og bókaláni missirisins, en styrkur til vormissiris 1,8% af framfærlsu- og bókaláni missirisins. Ef lán eða hluti láns fyrir missiri er greitt út á grundvelli árangurs sem skilað er á síðara missiri námsársins eða niðurstaðna upptökuprófa að hausti skal miða styrkinn við 3,7% af framfærslu- og bókaláninu, eða þeim hluta lánsins sem þá er greiddur út á grundvelli árangurs sem skilað er. Ljóst er að vaxtastyrkurinn dugar ekki til að mæta þeim kostnaði sem námsmenn verða fyrir vegna þeirra skammtímalána sem þeira verða að taka í formi yfirdráttarlána til að brúa bilið þar til námslánið er greitt að lokinni námsframvindu á vori og hausti. Samkvæmt útreikningum sem gerðir hafa verið vegna flutnings þessa frumvarps kemur í ljós að ef miðað er við framfærslugrunn lánasjóðsins, 75.500 kr. á mánuði, auk bókaláns að upphæð 20.000 kr. á haustönn, miðað við haust- og vorönn og þá vaxtastyrki sem Lánasjóðurinn greiðir vegna þess, kemur í ljós að með lántökukostnaði, sem er 1,2% af greiddri fjárhæð, er mismunurinn sem námsmaður þarf að greiða tæpar 9.000 kr.
    Í frumvarpinu er lagt til að í fimm ár eftir að námi lýkur og endurgreiðslur hefjast geti námsmenn dregið vexti og verðbætur af námslánum frá tekjuskattsstofni. Flutningsmenn þessa frumvarps telja að íhuga eigi þann möguleika í meðferð efnahags- og viðskiptanefndar á þessu máli að heimilt verði að greiða mismun á vaxtastyrkjum og sannanlegum kostnaði af yfirdráttarlánunum og lántökugjöldum á námstímanum frá tekjuskattstofni eftir nánari reglum sem ríkisskattstjóri setji. Samkvæmt gögnum ríkisskattstjóra voru eftirstöðvar námslána, sem færðar voru á framtöl 2001, um 44,8 milljarðar kr. og vextir og verðbætur um 683 millj. kr. hjá 30.681 aðila. Við framtal 2002 voru eftirstöðvarnar 49,5 milljarðar kr. og vextir og verðbætur um 796 millj. kr. hjá 30.071 aðila. Framangreindar tölur ná eingöngu til þeirra sem voru taldir skattskyldir hér á landi en ekki til þeirra sem hafa skattalega búsetu erlendis og eru ekki á skrá skattyfirvalda hér á landi af öðrum ástæðum.
    Tekjutap ríkissjóðs vegna þessara breytinga er um 100 millj. kr. Námsmenn munar verulega um slíkar fjárhæðir þegar þeir koma úr námi með miklar skuldir á bakinu, ekki síst ef um barnafjölskyldur er að ræða. Þessi leið mun jafna aðstöðu til náms og ýta undir fjárfestingu í menntun.